LEIKRITI Hallgríms Helgasonar, 1000 eyja sósu, var vel tekið á leiklistarhátíðinni Euro-Scene sem fram fór í Leipzig í Þýskalandi í liðinni viku, að því er segir í fréttatilkynningu frá Leikfélagi Íslands.
LEIKRITI Hallgríms Helgasonar, 1000 eyja sósu, var vel tekið á leiklistarhátíðinni Euro-Scene sem fram fór í Leipzig í Þýskalandi í liðinni viku, að því er segir í fréttatilkynningu frá Leikfélagi Íslands. Leikfélaginu var boðið að taka þátt í hátíðinni sem nú var haldin í tíunda sinn og var uppselt á fjórar sýningar.

1000 eyja sósa er einleikur sem Stefán Karl Stefánsson leikur og leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson. Sýningarnar voru allar í anda Hádegisleikhúss Leikfélags Íslands og áhorfendum boðið upp á súpu fyrir sýninguna eins og tíðkast á sýningum Hádegisleikhússins í Iðnó.

Hendrik Pupat, gagnrýnandi dagblaðsins Volksheit Leipzig, skrifar að það hafi ekki komið að sök að leikurinn hafi farið fram á íslensku, því leikarinn Stefán Karl búi yfir einstökum hæfileikum í látbragðsleik.

Á Euro-Scene hátíðinni voru m.a. sýnd verk frá Póllandi, Tékklandi, Noregi, Finnlandi, Hollandi og Þýskalandi og er hátíðin þekkt fyrir framsæknar og tilraunakenndar leik- og danssýningar, að því er fram kemur í fréttatilkynningunni. Þar kemur ennfremur fram að í framhaldi af ferðinni til Leipzig hafi verið ákveðið að bæta við örfáum aukasýningum á verkinu í Iðnó á næstunni.