Demókratinn Jesse Jackson á blaðamannafundi í Palm Beach-sýslu í Flórída. Margir demókratar eru hlynntir því að kosið verði á ný í sýslunni.
Demókratinn Jesse Jackson á blaðamannafundi í Palm Beach-sýslu í Flórída. Margir demókratar eru hlynntir því að kosið verði á ný í sýslunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjósendur í Bandaríkjunum hafa nú ástæðu til að velta því fyrir sér hvort nokkuð sé að marka opinber úrslit kosninga í landinu. Svar embættismanna er ekki til þess fallið að vekja traust á kosningunum því það er "bæði já og nei".
ÞÓTT landið sé yfirleitt mjög tæknivætt reiða Bandaríkjamenn sig enn á ýmsar gamaldags aðferðir við að kjósa forseta. Margar þeirra eru notaðar vegna þess að þær eru ódýrar, sumar eru úreltar, en engin þeirra er fullkomin.

"Mér þykir það miður, en kosningar eru ekki fullkomnar," sagði Ernest Hawkins, sem stjórnar framkvæmd kosninga í Sacramento í Kaliforníu, í viðtali við Miami Herald.

Slíkar fullyrðingar virðast aldrei hafa verið sannari en nú þegar Bandaríkjamenn bíða lokaniðurstöðunnar í forsetakosningunum sem átti að ljúka fyrir rúmri viku. Endurtalningin í Flórída hefur beint athygli manna að ýmsum smáatriðum í fyrirkomulagi kosninganna og vakið spurningar um hvort þær endurspegli vilja kjósendanna.

"Allt í einu hafa augu manna opnast fyrir vandamálum í þessu fyrirkomulagi út um öll Bandaríkin," sagði Larry Sabato, stjórnmálafræðingur við Virginíu-háskóla.

Í Bandaríkjunum er ekkert samræmt kerfi við valið á forsetanum. Þúsundir umdæma, aðallega sýslur, annast kosningarnar og nota til þess eigið fé. Starfsfólkið er á lágum launum og kosningastjórnum umdæmanna er í sjálfsvald sett hvaða aðferðum er beitt.

Sums staðar er notast við gataspjöld en í öðrum umdæmum eru notaðar tölvur með snertiskjá. Pappírskjörseðlar eru handtaldir í mörgum sveitahéruðum en í New York er notast við fyrirferðarmiklar talningarvélar sem voru fundnar upp árið 1892.

Engin aðferðanna er gallalaus

Um 8.000 kjörstjórnir sýslna og borga annast kosningarnar í Bandaríkjunum og alríkisyfirvöldin taka ekki beinan þátt í framkvæmdinni. Í 67 sýslum Flórída eru notuð ellefu ólík talningarkerfi, allt frá gataspjöldum til rafeindatækja sem líkjast sjálfvirkum talningarvélum. Engin þessara aðferða er gallalaus því kjósendunum hættir alltaf til að klúðra þeim.

Um 35% kjósenda í Bandaríkjunum notuðu ýmis afbrigði gataspjaldaaðferðarinnar, sem olli fjaðrafokinu í Palm Beach-sýslu í Flórída. Ray James, formaður kjörstjórnarinnar í Kansasborg, segir að 2-4% þessara kjósenda hafi orðið á einhvers konar mistök. Algengast er að kjósendurnir kjósi tvo frambjóðendur í sömu kosningunum og atkvæði þeirra teljast því ógild.

Embættismenn, sem eru hlynntir gataspjaldaaðferðinni, segja að hún sé tiltölulega ódýr, krefjist ekki mikils geymslurýmis og dugi vel þegar kjósendurnir fari rétt að. Dæmin um ranga notkun eru hins vegar fjölmörg.

"Við höfum séð fólk taka kjörseðla, fara inn í klefann og koma með þá aftur eftir að hafa sett göt við nöfn allra frambjóðendanna," sagði Bob Nichols, formaður kjörstjórnarinnar í Jackson-sýslu. "Við höfum fengið kjörseðla með allt krossmerkið gatað út - af einhverjum ástæðum. Við höfum séð málaralímband fest aftan á kjörseðil - ekki spyrja mig hvers vegna. Við höfum fundið matarleifar á þeim og gums sem enginn vill snerta."

Varið ykkur á birninum

Þetta er þó ekki það eina sem fer úrskeiðis því fjölmörg önnur vandamál koma upp í hverjum kosningum. Þegar kosningar eru hnífjafnar eins og í vikunni sem leið getur sérhvert vandamál skipt miklu máli.

Hér verður látið nægja að stikla á nokkrum vandamálum sem komu upp í kosningunum í vikunni sem leið:

Hundruð kjósenda kvörtuðu yfir biluðum kjörvélum í New York. Sjötíu viðgerðarmenn voru fengnir til að gera við vélarnar.

Langar biðraðir og kvartanir St. Louis-búa, sem gátu ekki kosið, urðu til þess að dómari úrskurðaði að kjörfundi ætti að ljúka klukkan tíu um kvöldið, þremur stundum síðar en ráðgert hafði verið. Áfrýjunardómstóll úrskurðaði hins vegar að loka bæri kjörstöðunum klukkan 7.40. Búist er við að lögfræðingar bandarísku stjórnarinnar rannsaki málið.

Kosningarnar töfðust í Cross Village í Michigan vegna þess að starfsmenn kjörstaðar bæjarins urðu innlyksa í ráðhúsinu. Ástæðan er sú að 200 kílóa björn stóð við ráðhúsið og vildi ekki fara þaðan. Lögreglumenn urðu að skjóta dýrið til að bæjarbúarnir gætu kosið forseta.

Nokkrir kjörstaðir í Michigan urðu uppiskroppa með blýanta, en þeir voru nauðsynlegir þar sem notast var við blýskanna við talninguna. Í síðustu kosningum var skortur á kjörseðlum.

Kusu tvisvar

Hundruð stuðningsmanna Gore í Palm Beach-sýslu telja sig hafa kosið Pat Buchanan, forsetaefni Umbótaflokksins, fyrir misskilning og kenna um villandi og ruglingslegri hönnun kjörseðla. 19.000 kjósendur í sýslunni merktu við tvo frambjóðendur og atkvæði þeirra voru því ógild.

Þessi ruglingur er rakinn til þess að í sýslunni voru notaðir kjörseðlar þar sem listanum yfir forsetaefnin var skipt í tvo dálka og á milli þeirra voru deplar sem kjósendurnir áttu að gata.

Í Duval-sýslu, þar sem repúblikanar eru með mikið fylgi, var frambjóðendalistinn hins vegar á tveimur síðum. Það varð til þess að 22.000 kjósendur kusu tvo frambjóðendur, einn á hvorri síðu.

Gataspjaldaaðferðin hefur einnig þann annmarka að erfitt getur verið fyrir kjósandann að gata depilinn við nafn þess frambjóðanda sem hann ætlar að kjósa. Stundum verður eftir snifsi eða flipi í gatinu og það getur orðið til þess að talningarvélin greini ekki gatið. Atkvæðið er þá ekki talið.

Endurtalning hugsanleg í fjórum ríkjum

Flórída er ekki eina ríkið þar sem mjótt var á munum í baráttu Als Gore og George W. Bush. Hugsanlegt er að telja þurfi aftur í fjórum ríkjum, Iowa, Nýju-Mexíkó, Oregon og Wisconsin. Þannig er nú staðan í þessum ríkjum:

Forysta Gore í Iowa er 4.285 atkvæði af 1,3 milljónum. Dregið hefur saman með forsetaefnunum við talningu á utankjörstaðaratkvæðum og vafaatkvæðum. Bráðabirgðaúrslit talningarinnar eiga að liggja fyrir í dag og frambjóðendurnir fá þá þriggja daga frest til að óska eftir endurtalningu. Verði hún fyrirskipuð þurfa sýslurnar að ljúka henni innan 18 daga. Endurtalningin getur náð til alls ríkisins eða nokkurra sýslna.

Bush er nú með 126 atkvæða forystu í Nýju-Mexíkó, en alls voru atkvæðin þar 571.000. Embættismenn rannsaka nú meint mistök, sem munu hafa orðið til þess að Gore varð af 500 atkvæðum. Mistökin eru sögðu hafa falist í því að talningarmenn hafi ruglast á tölustöfunum 1 og 6 þegar þeir lásu tölu þeirra utankjörstaðaratkvæða sem varaforsetinn fékk. Mun Gore hafa fengið 600 atkvæði, en ekki 100 eins og talningarmennirnir héldu. Reynist þetta rétt nær Gore forystu í ríkinu. Úrslitin eiga að liggja fyrir 28. nóvember og frambjóðendurnir fá þá sex daga frest til að óska eftir endurtalningu.

Forysta Gore í Oregon var 4.765 atkvæði af 1,4 milljónum þegar 99% atkvæðanna höfðu verið talin. Búist er við að talningunni ljúki um helgina. Samkvæmt lögum ríkisins ber að telja atkvæðin aftur verði munurinn á fylgi frambjóðendanna 2.800 atkvæði eða minni. Hugsanlegt er að Bush óski eftir endurtalningu verði munurinn meiri. Búist er við að endurtalningin fari fram í fyrstu vikunni í desember verði hún fyrirskipuð.

Gore er með 6.099 atkvæða forystu í Wisconsin, en alls voru atkvæðin 2,5 milljónir. Repúblikanar íhuga að óska eftir endurtalningu en geta ekki gert það fyrr en á föstudag þegar niðurstaða talningarinnar í öllum sýslum ríkisins á að liggja fyrir.

Repúblikanaflokkurinn í ríkinu segist hafa fengið 800 kvartanir vegna meintra brota á kosningalöggjöfinni, meðal annars 600 í Milwaukee-sýslu. Flokkurinn hefur beðið saksóknara ríkisins, E. Michael McCann, um að rannsaka ásakanirnar, meðal annars um að nokkrir kjósendur hafi fengið tvo kjörseðla og að öðrum hafi verið sagt að þeir hafi þegar kosið. McCann sagði á mánudag að engar vísbendingar hefðu komið fram um kosningasvik.

Einnig er mjótt á munum í New Hampshire en fresturinn til að óska eftir endurtalningu rann út á mánudaginn var. Bush er þar með 7.211 atkvæða forystu af 540.000 greiddum atkvæðum. Forysta Bush minnkaði um 958 atkvæði við endurskoðun á kjörtölunum þar sem í ljós komu villur í tölvuforritum og prófarkalestri.