[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra greindi Alþingi frá því í gær að ríkisstjórnin hefði ákveðið að efla mjög þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu.
STEFNT er að því að á næstu tveimur til þremur árum starfi um 25 Íslendingar við alþjóðlega friðargæslu en að með aukinni þátttöku og reynslu geti sú tala farið upp í allt að 50 manns.

Utanríkisráðherra flutti Alþingi í gær skýrslu sína um utanríkismál. Hann sagði að ríkisstjórnin hefði í sumar ákveðið að setja á fót starfshóp fjögurra ráðuneyta til að móta tillögur um að efla þátttöku í friðargæslu. Hópurinn skilaði tillögum sínum í október og sagði Halldór að ríkisstjórnin hefði nú fjallað um þær og komist að fyrrgreindri niðurstöðu. Sagði hann að til greina kæmi fólk úr ýmsum starfsstéttum, þ.ám. lögreglumenn, verkfræðingar, læknar og hjúkrunarfræðingar, lögfræðingar, stjórnendur og tæknimenntað starfslið.

"Undir heitinu Íslenska friðargæslan verður komið upp lista eða skrá yfir allt að 100 manns sem eru tilbúnir til að fara til friðargæslustarfa með stuttum fyrirvara. Íslenska friðargæslan verður undir stjórn alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins sem mun sjá um ráðningu, undirbúning og þjálfun starfsfólks og almenna umsjón með starfseminni," sagði Halldór.

Tók hann fram að hér væri ekki verið að fara inn á nýjar brautir enda hefðu alls 50 manns starfað að friðargæslu á vegum Íslands í Bosníu og Kosovo frá 1994. Reynslan af þessu starfi hefði verið góð og Íslendingarnir staðið sig með sóma.

Sjónarmiðum EES-ríkjanna komið betur á framfæri

Ráðherrann reifaði helstu atriði utanríkismálanna í ræðu sinni í gær. M.a. ræddi hann framkvæmd samningsins um evrópska efnahagssvæðið en allmargar athugasemdir hafa borist frá eftirlitsstofnuninni ESA þar að lútandi. Sagði Halldór að nú hefði verið gerð áætlun um að ráða bót á því fyrir lok næsta árs hversu margar gerðir liggja fyrir sem ekki hafa verið þýddar á íslensku og birtar.

"Þó að EES-samningurinn sé traustur grunnur og þess hafi ekki orðið vart að Evrópusambandið víki sér undan samningsskuldbindingum telja EFTA-ríkin að samninginn megi nota á markvissari hátt til að tryggja samræmi á svæðinu og koma sjónarmiðum EFTA/EES-ríkjanna betur á framfæri," sagði Halldór. Hefur verið unnið að því að tryggja dreifingu sjónarmiða og álitsgerða EFTA-ríkja innan stjórnkerfis ESB, að því er fram kom í máli hans. Sagði hann ennfremur að áfram yrði kappkostað að fylgjast sem best með þróun ESB og áhrifum þeirra breytinga á stöðu Íslands.

Halldór gerði evrópsk öryggis- og varnarmál einnig að umtalsefni og sagði m.a. að þess hefði verið farið á leit að ESB skýrði betur en gert hefði verið að hve miklu leyti það hyggst í þeim efnum taka tillit til evrópsku NATO-ríkjanna sem ekki eru í ESB. Kom einnig fram í máli hans að í dómsmálaráðuneytinu væri nú unnið að gerð frumvarps til laga um framkvæmd Rómarsamþykktarinnar um Alþjóðlega sakadómstólinn og að það yrði lagt fram á yfirstandandi þingi.

Íslendingar vilja framlengja bókun við varnarsamning

Fjölmargir þingmenn tóku til máls við umræðuna í gær og var m.a. rætt um aðild Íslands að mannúðarmálum, um viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna á Írak og um Norðurlandasamstarfið. Sighvatur Björgvinsson, Samfylkingu, gerði Evrópumálin hins vegar að sérstöku umtalsefni en hann sagði athyglisvert að utanríkisráðherra skyldi í skýrslu sinni engu bæta við í þeim efnum, jafnvel þó að það hefði t.d. verið að gerast að alþjóðanefnd Alþýðusambands Íslands væri að móta tillögur þar að lútandi.

Ítrekaði Sighvatur mikilvægi þess að ráðist yrði í umræðu um kosti og galla aðildar að ESB og að stjórnmálaflokkar mótuðu afstöðu í þeim efnum. Spurði hann síðan hvort ráðherra teldi ekki tímabært að endurreist yrði sú Evrópustefnunefnd, sem starfrækt var á vettvangi Alþingis í tengslum við aðild að EES-samningnum upp úr 1990. Ennfremur spurði hann um tillögu ríkisstjórnarinnar vegna viðræðna við Bandaríkjamenn um bókun við varnarsamning landanna.

Halldór svaraði því til að það væri Alþingis að taka ákvörðun um endurreisn fyrrgreindrar nefndar. Kom einnig fram að hann færi á fund utanríkismálanefndar Alþingis í dag þar sem rætt yrði um Evrópumál. Sagði hann loks að viðræður um bókun við varnarsamninginn væru ekki hafnar og að Íslendingar hefðu ekki enn farið fram á þær. Ljóst væri hins vegar að við vildum framlengja samninginn.

Tómas Ingi Olrich, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður utanríkismálanefndar, fagnaði áformum um aukna þátttöku Íslendinga í friðargæslu. Sagði hann hér um að ræða það framlag sem hentaði okkur best. "Aukin þátttaka Íslands í friðargæslu mun styrkja stöðu okkar innan NATO og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og efla tengsl okkar við Evrópuríkin. Hér er því um að ræða mjög mikilvæga ákvörðun sem ástæðulaust er að gera lítið úr," sagði Tómas Ingi.

Rangt að samstaða ríki um alla þætti utanríkisstefnunnar

Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri-grænum, gerði athugasemd við það mat ráðherra að alger samstaða ríkti hér á landi um grundvallarþætti utanríkismálanna, s.s. aðildina að NATO og veru erlends herliðs á Íslandi. Þetta stæðist enga skoðun. Steingrímur taldi hins vegar merkilegt að hér skyldi ekki hafa verið gerð skoðanakönnun síðan á níunda áratugnum um afstöðu fólks til NATO-aðildar og veru varnarliðsins í Keflavík. Sagði hann sannarlega enga sátt ríkja um þau mál.

Hann taldi ennfremur að ráða mætti af svari ráðherra vegna fyrirspurnar um bókunina við varnarsamninginn að íslensk stjórnvöld vildu með engu móti ýfa málin, enda vissu þau sem væri að Bandaríkjamenn vildu sjálfir minnka umsvif sín hér á landi.

Sverrir Hermannsson, Frjálslynda flokknum, velti fyrir sér hvort það gæti staðist að sátt ríkti um afstöðuna til hugsanlegrar ESB-aðildar. Ef afstaða ríkisstjórnarflokkanna væri skoðuð væri nefnilega ekki annað að sjá en þar væru menn á öndverðum meiði - nema þá ef skipan sérstakrar nefndar innan Framsóknarflokksins um þau mál væri eintómt sjónarspil. Engin sátt væri heldur um þær fyrirætlanir máttarstólpa stjórnarflokkanna að hleypa erlendu auðvaldi inn í íslenska fiskveiðilögsögu.