Bill Jordan
Bill Jordan
Framkvæmdastjóri Alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga ávarpaði þing ASÍ í gær. Hann gagnrýndi alþjóðavæðinguna og sagði að pólitískan vilja skorti til að útrýma fátækt í heiminum.
BILL Jordan, framkvæmdastjóri Alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga (ICFTU), segir mikilvægt að hugað verði að neikvæðum hliðum alþjóðavæðingarinnar. Það verði að tryggja öllu launafólki lágmarksréttindi og öryggisnet. Hann sagði í ræðu á þingi ASÍ að það skorti pólitískan vilja að uppræta fátækt úr heiminum. Til að sjá þróunarlöndunum í eitt ár fyrir grunnheilsugæslu, menntun, vatni, hreinlætisaðstöðu og næringu þyrfti minna fé en þær 50 milljónir dollara, sem á hverju ári væri varið í sígarettur í Evrópu einni.

ICFTU eru 50 ára gömul samtök sem ná til verkalýðsfélaga í 145 löndum. Innan þess eru um 123 milljónir félaga, þar af um 43 milljónir kvenna. Sambandið hefur náin tengsl við Evrópusamband verkalýðsfélaga og Alþjóða vinnumálastofnunina.

Erum ekki á móti alþjóðavæðingu

"Alþjóðasamband frjálsra verkalýðsfélaga er ekki andvígt alþjóðavæðingu," sagði Jordan í samtali við Morgunblaðið. "Við teljum að í alþjóðavæðingunni felist miklir möguleikar fyrir allan heiminn. En við vörum eindregið við neikvæðum hliðum alþjóðavæðingarinnar. Við höfum hvatt þjóðarleiðtoga til að taka með í reikningin þá sem ekki hagnast af alþjóðavæðingu. Við teljum að í þróunarríkjunum verði að vera til staðar félagslegt öryggisnet. Staðan er víða sú í þessum löndum að ef þú hefur ekki vinnu ertu í algjörri fátækt og nýtur alls engra félagslegra réttinda. Við teljum að það verði að byggja upp heilbrigðis- og almannatryggingakerfi í þessum löndum. Við teljum að slíkt félagslegt öryggiskerfi byggi upp stöðugleika í þessum löndum, sem þau þurfa nauðsynlega á að halda.

Það er athyglisvert að skoða það sem gerðist í A-Asíu fyrir nokkrum árum. Þar hafði milljónum manna verið lyft úr fátækt meðan ríkin nutu efnahagslegrar velgengni, en á örskömmum tíma var fótum kippt undan þeim og þeir voru jafnvel enn verr standir en áður. Ef þarna hefði verið til staðar lágmarksöryggisnet hefði það hjálpað löndunum til að koma á efnahagslegum stöðugleika. Það eru því skynsamleg efnahagsleg rök fyrir kröfum okkar. Málið snýst ekki bara um manngæsku.

Barnaþrælkun enn að aukast í heiminum

Við teljum einnig að í heimi þar sem frjáls markaður ræður ríkjum verði að standa vörð um réttindi launamanna. Í því sambandi höfum við lagt mesta áherslu á nokkur atriði. Í fyrsta lagi frelsi launþega til að vera í verkalýðsfélagi. Þessi krafa er ekki sett fram til þess að fjölga félagsmönnum okkar heldur teljum við að sagan hafi kennt mönnum að þar sem verkalýðsfélög hafa fengið að starfa og þróast hafi vöxtur orðið stöðugri og jafnari. Stærsti ókosturinn við alþjóðavæðinguna er að hún felur ekki í sér neina tilraun til að skipta hinum efnahagslega ávinningi með réttlátum hætti.

Í öðru lagi leggjum við mikla áherslu á jafnrétti og að útrýma misrétti af öllu tagi. Þarna erum við auðvitað fyrst og fremst að hugsa um stöðu kvenna, sem sækja út á vinnumarkaðinn af miklum krafti um þessar mundir.

Í þriðja lagi berjumst við gegn barnaþrælkun. Nú eru um 250 milljónir barna í barnaþrælkun og sú tala hefur hækkað á síðustu árum og flest bendir til að barnaþrælkun sé enn að aukast í heiminum.

Ef tækist að koma á lágmarksréttindum launafólks alls staðar í heiminum fælist í því vörn gegn því sem stundum er rætt um, að ódýrt vinnuafl í þróunarríkjunum taki vinnu frá fólki á Vesturlöndum. Ef stéttarfélög væru til staðar í þessum löndum og þeim væri kleift að setja fram kröfur og gera samninga myndi draga úr þessu.

Kína er gott dæmi. Þar hefur launafólk ekki frelsi til að ganga í verkalýðsfélög. Allir kjarasamningar eru gerðir af ríkisreknum verkalýðsfélögum. Afleiðingin er sú að vinnuafl í Kína er það ódýrasta í heimi. Þar sem ekki eru fyrir hendi í Kína þau lágmarksréttindi sem ég minntist á er landið mjög eftirsótt af fjárfestum. Næstum helmingur af öllum fjárfestingum í þróunarríkjunum á sér stað í Kína. Það getur ekki verið tilviljun."

Þörf á breytingum innan verkalýðshreyfingarinnar

Jordan sagði að alþjóðavæðingin og þær miklu breytingar sem hefðu átt sér stað í heiminum kölluðu líka á breytingar hjá verkalýðshreyfingunni.

"Mér er kunnugt um að eitt af meginverkefnum þings Alþýðusambands Íslands er skipulagsmál og þörf verkalýðshreyfingarinnar á að breyta starfsháttum. Þetta er einnig eitt af mikilvægustu málum ICFTU. Nýverið tóku fulltrúar verkalýðsfélaga frá 143 löndum víða um heim ákvörðun að endurskoða starfshætti hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar, þar á meðal allra stærstu verkalýðssambanda heims. Endurskoðunin, sem við köllum árþúsundaverkefnið, miðar að því að skoða hvernig við getum unnið af enn meiri krafti og á markvissari hátt í heimi sem er sífellt að taka breytingum. Meðal þess sem við þurfum að taka tillit til er nýir þættir eins og mikil þátttaka kvenna á vinnumarkaðnum og aukning í því sem við getum kallað skammtímaráðningar. Þá er ég að tala um ráðningar þar sem ekki er gerður neinn samningur við þig af neinu tagi. Þú ert ráðinn til tiltekinna verkefna og hættir þegar þeim er lokið eða þegar vinnuveitandanum hentar. Þetta er það svið vinnumarkaðarins sem vex hraðast um þessar mundir bæði í þróunarríkjunum og á Vesturlöndum. Það sjá allir hve mikill hyldýpismunur er á stöðu þess manns sem ráðinn er til starfa á tilteknum launum og á tilteknum réttindum, starf sem hann gegnir hugsanlega alla starfsævina, og þess manns sem er í skammtímavinnu og er í sömu stöðu og hafnarverkamenn voru á kreppuárunum þegar þeir fengu vinnu annan daginn en enga vinnu hinn daginn.

Það er einnig orðið mjög algengt að stór fyrirtæki séu brotin upp í smærri fyrirtæki. Þetta þýðir að launamenn njóta ekki sama öryggis í smærri fyrirtækjunum og menn nutu í stóra fyrirtækinu. Skyndilega standa menn frammi fyrir vinnu aðeins til skamms tíma og útboði á tilteknum verkum og þjónustu. Markmiðið með breytingunum er beinlínis að draga úr starfsöryggi starfsmanna. Þetta er staða sem er orðin algeng í mörgum iðnríkjum," segir Jordan.

Stuðningsmaður Evrópusambandsins

Jordan er eindreginn stuðningsmaður Evrópusambandsins og segir að í gegnum aðild að sambandinu hafi launþegar náð að tryggja betur réttindi sín. Hann segir að almennt gildi það að ríki sem vinni náið saman í efnahagsmálum nái betri árangri en ríki sem gera það ekki. Reynslan af efnahagsbandalögum í Asíu, S-Ameríku, Afríku og víðar sanni þetta. Hann bendir einnig á þá hættu sem smáum gjaldmiðlum stafar frá árásum spákaupmanna. Gjaldmiðill Malasíu hafi t.d. orðið fyrir árásum í Asíu-kreppunni þar sem spákaupmenn töldu að hann stæði höllum fæti.

"Sama gerðist í Mexíkó þegar milljarðar dollara voru fluttir frá landinu á 48 klukkutímum vegna árása spákaupmanna. Afleiðingin var sú að kaupmáttur launafólks í Mexíkó lækkaði um helming á örskömmum tíma. Innan sex mánaða höfðu milljónir launþega misst vinnuna. Þetta sýnir hvaða völd hinn alþjóðlegi fjármálamarkaður hefur."