ÚT er komin bókin Skrá yfir friðuð hús - Ágrip íslenskrar húsagerðarsögu 1750-1970.
ÚT er komin bókin Skrá yfir friðuð hús - Ágrip íslenskrar húsagerðarsögu 1750-1970.

Í formála bókarinnar segir Þorsteinn Gunnarsson arkitekt, formaður húsafriðunarnefndar ríkisins, eftirfarandi:

"Húsafriðunarnefnd ríkisins fer með stjórn Húsafriðunarsjóðs. Húsafriðunarnefnd úthlutar styrkjum úr sjóðnum til viðhalds og endurbóta á friðuðum húsum og mannvirkjum. Einnig er nefndinni heimilt að styrkja viðhald á öðrum þeim húsum sem að mati Húsafriðunarnefndar hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi, þótt ekki séu friðuð. Þá eru einnig veittir styrkir til húsakannana sem og rannsókna á íslenskum byggingararfi og útgáfu rita þar að lútandi.

Til að auðvelda lesendum að setja friðuð hús í byggingarlistarlegt og byggingarsögulegt samhengi fylgir skránni stutt yfirlit yfir íslenska húsagerðarsögu. Áhugasömum lesendum, sem vilja afla sér ítarlegri upplýsinga um efnið, er bent á ritið Íslensk byggingararfleifð I, sem Hörður Ágústsson listmálari tók saman fyrir tilstyrk Húsafriðunarnefndar og út var gefið 1998.

Samkvæmt skránni, sem hér birtist, eru friðuð hús og samstæður húsa á landinu samtals 366. Þar af eru 204 friðaðar kirkjur. Hús, sem ekki eru friðuð með formlegum hætti en varðveitt á safnsvæðum eða í umsjá safna, eru 65 talsins. Skráin hefur því að geyma upplýsingar um 431 merkt hús og mannvirki. Má mikið vera ef þessi fjöldi kemur ekki mörgum manninum á óvart, sérstaklega þegar haft er í huga að húsafriðun hófst ekki hér á landi fyrr en upp úr 1970.

Húsafriðunarnefnd réð Guðmund L. Hafsteinsson arkitekt, fyrrverandi deildarstjóra húsverndardeildar Þjóðminjasafnsins og fyrrverandi framkvæmdastjóra Húsafriðunarnefndar, til að taka saman skrá yfir friðuð hús og hús í umsjá safna og semja ágrip íslenskrar húsagerðarsögu fyrir þessa útgáfu. Eru honum færðar alúðarþakkir fyrir hvort tveggja.

Það er von Húsafriðunarnefndar að skráin bæti úr brýnni þörf á aðgengilegum grunnupplýsingum um friðuð hús og útgáfan glæði skilning manna á þessum þætti íslenskrar menningarsögu."