FULLTRÚAR stjórnvalda, vísindasamfélagsins og þrýstihópa frá 175 löndum héldu í gær áfram viðræðum um leiðir til að draga úr losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda í heiminum, á öðrum degi tveggja vikna ráðstefnu aðildarríkja loftslagssáttmála Sameinuðu...
FULLTRÚAR stjórnvalda, vísindasamfélagsins og þrýstihópa frá 175 löndum héldu í gær áfram viðræðum um leiðir til að draga úr losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda í heiminum, á öðrum degi tveggja vikna ráðstefnu aðildarríkja loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna í Haag í Hollandi.

Það ágreiningsefni, sem einna mest ber á, er viðskipti með losunarkvóta. Sumir þátttakendur í ráðstefnunni eru þeirrar skoðunar að slík viðskipti séu siðlaus og að leyfa þau bjóði upp á allt of auðvelda undankomuleið fyrir fyrirtæki í iðnríkjunum til að koma sér hjá því að draga úr loftmengun sem af starfsemi þeirra hlýzt.

Verðbréfamiðlarar veita ráðgjöf

Lítill hópur atvinnuverðbréfamiðlara er á vettvangi í Haag til að útskýra þau tækifæri sem þeir álíta liggja í alþjóðlegum viðskiptum með mengunarkvóta. "Við erum að segja þeim "svona virkar þetta, það er óþarfi að óttast það"," hefur Associated Press eftir Garth Edward frá miðlunarskrifstofunni Natsource í New York.

Natsource hafði í síðustu viku milligöngu um samning um kaup kanadísku verksmiðjunnar EPCOR Utilities Inc. á 50.000 tonna koltvísýringslosunarkvóta frá finnska orkufyrirtækinu Fortum, en það á orkuver sem hætti að nota kol til raforkuframleiðslu og notast í framtíðinni þess í stað við lífrænt rotnunargas. Verð fyrir mengunarkvótann var ekki gefið upp, en að sögn Edwards selst hvert tonn losunarkvóta vanalega á einn til þrjá Bandaríkjadali.

Fram að þessu eru fá dæmi um að gengið hafi verið frá slíkum viðskiptum, enda eru þau gerð að mestu í tilraunaskyni. En komi til þess að viðskipti með losunarkvóta verði almennt viðurkennd gæti verðið á hverja mengunareiningu rokið upp og nýr mengunarkvótamarkaður yrði til þar sem milljarðaviðskipti færu fram.

Heimild fyrir kvótaviðskiptum en deilt um umfang

Í Kytoto-bókuninni við loftslagssáttmála SÞ, sem samþykkt var fyrir þremur árum, var gert ráð fyrir að viðskipti með losunarkvóta yrðu heimiluð, en ekki var kveðið á um hve víðtæk slík viðskipti mættu verða. Bandaríkin, Japan, Kanada og nokkur önnur iðnríki vilja að engar hömlur verði settar á slík viðskipti. Rök þeirra eru þau, að þessi viðskipti muni lækka kostnaðinn við að ná takmarki Kyoto-bókunarinnar um að losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum verði orðin 5,2% minni á árabilinu 2008-2012, miðað við árið 1990.

Andvíg viðskiptum

Talsmenn Evrópusambandsins og umhverfisverndarsamtaka halda því hins vegar fram, að slík viðskipti dragi úr hvötum til að iðnríkin axli í raun skuldbindingar þær sem þau játuðust undir í Kyoto-bókuninni.

Haag. AP.