LAUNAHÆKKANIR allra starfshópa landvinnufólks í Alþýðusambandi Íslands eru verulega umfram umsamdar launahækkanir á undanförnum tveimur árum vegna launaskriðs að því er fram kemur í þingskjali um efnahags- og verðlagsmál sem dreift hefur verið á þingi...
LAUNAHÆKKANIR allra starfshópa landvinnufólks í Alþýðusambandi Íslands eru verulega umfram umsamdar launahækkanir á undanförnum tveimur árum vegna launaskriðs að því er fram kemur í þingskjali um efnahags- og verðlagsmál sem dreift hefur verið á þingi Alþýðusambands Íslands, sem nú stendur yfir í Kópavogi. Rannveig Sigurðardóttir, hagfræðingur ASÍ, kynnti skjalið á þinginu.

Í þingskjalinu er meðal annars borinn saman kaupmáttur umsaminna launahækkana á undanförnum árum annars vegar og kaupmáttur launavísitölu á almenna markaðnum hins vegar. Fram kemur að kaupmátturinn vex hratt í báðum tilvikum fram til annars ársfjórðungs í fyrra, en lækkar síðan hratt það sem eftir er ársins. Umsamin launahækkun á fyrra helmingi þessa árs nær ekki að skila sama kaupmætti og árið á undan hjá þeim sem einungis njóta umsaminna launahækkana, en þeir sem njóta launaskriðs ná þó því að komast með tærnar þar sem þeir höfðu hælana í fyrra.

Er síðan vísað til talna kjararannsóknarnefndar um launaþróun frá öðrum ársfjórðungi ársins 1998 til jafnlengdar í ár, sem sýna að launahækkanir allra starfshópa eru verulega umfram umsamdar launahækkanir á tímabilinu, sem voru 6,6-7,7%. Þannig er samkvæmt tölum kjararannsóknanefndar hækkun launa almenns verkafólks að meðaltali á tímabilinu 14,7%, véla- og vélgæslufólks 11,9%, sérhæfðs verkafólks 17,6%, iðnaðarmanna 10,7%, þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks 14,4% og skrifstofufólks 12%. Er jafnframt tekið fram að mismunandi gildistaka samninga í ár skekki samanburðinn milli starfsstétta og einstakra starfsgreina.