Skúli  Skúlason
Skúli Skúlason
Skólabörnin, sem eiga að mæta í skólann klukkan 8 að morgni, segir Skúli Skúlason, eru samkvæmt sólklukkunni að mæta klukkan 5.30.

NÚ liggur fyrir Alþingi, einu sinni enn, frumvarp um breyttan tímareikning á Íslandi. Þetta frumvarp hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar í þinginu, vegna þess að það býður á ný upp á hringl fram og til baka með klukkuna, eins og ríkti frá byrjun seinna stríðs fram til 1968, en mikið hafði verið deilt um þessar breytingar og var því sumartíminn (Greenwich-meðaltíminn) fastsettur allt árið frá 1968, sem lausn til sátta og hefur sæmilegur friður ríkt um málið síðan. Nú er hins vegar einu sinni enn blásið í herlúðrana á Alþingi og gæti svo farið að við sætum uppi með tvöfaldan sumartíma í framtíðinni, sem sumir hafa nefnt sumarsumartíma. Þetta bitnar verst á fólki, sem býr hér á höfuðborgarsvæðinu og þeim sem búa fyrir vestan tuttugustu og aðra lengdargráðuna. Það kann að hljóma undarlega að þegar fólk á höfuðborgarsvæðinu er að borða hádegismatinn kl. 12.00 er sólklukkan eða líkamsklukkan, eins og sumir kalla hana, aðeins um 10.30 að morgni. Þegar fólk er að mæta í vinnuna klukkan 8.00 f.h. er sólklukkan aðeins 6.30 f.h. Það þarf varla að minna á tengsl náttúrunnar, dýra, mannsins og sólarinnar, eins augljós og þau eru. Ísland telst til tímabeltisins sem miðað er við 15° vestlægrar lengdar og nær sjö og hálfa gráðu til vesturs og austur. Reykjavík er því á vesturmörkunum. Fjórir bæir á Vestfjörðum tilheyra tæknilega næsta belti fyrir vestan okkur, það eru: Ísafjörður, Flateyri, Patreksfjörður og Bíldudalur.

Sumartími var ekki notaður á tímabilinu 1918 til 1939, en hins vegar íslenzkur meðaltími (vetrartími), sem var einni klukkustund á eftir meðaltíma Greenwich. Mjög góðar upplýsingar er að finna um þessi mál í Almanaki Háskóla Íslands í ritstjórn Þorsteins Sæmundssonar stjarnfræðings.

Verði tvöfaldur sumartími tekinn upp hér á Íslandi merkir það að fólk er að borða hádegismatinn sinn klukkan 9.30 að morgni eftir sólklukkunni. Skólabörnin, sem eiga að mæta í skólann klukkan 8.00 að morgni, eru samkvæmt sólklukkunni að mæta klukkan 5.30 í allt of miklu myrkri, með tilheyrandi hættu á slysum í umferðinni. Þessi tímaskekkja setur greinilega mikið álag á fjölskyldurnar.

Lítið er um vísindaleg rök í frumvarpinu, en það litla sem þar er virðist aðalflutningsmaður misskilja. Helstu rökin fyrir hugsanlegum ábata af því að vera nær Evrópu í tíma eru betri verslunartengsl við Mið-Evrópu-tímabeltið, þá aðallega Þýzkaland. Þetta yrði þá væntanlega á kostnað samskipta okkar við Vesturheim, en þar höfum við löngum átt marga góða hauka í horni, verslunarlega, varnarlega og fjölskyldulega séð, því þar er mikill frændgarður Íslendinga. Það væri slæmt mál að halla á þessi tengsl.

Lítið er gert úr þeirri gagnrýni sem frumvarpið hefur hlotið úti í þjóðfélaginu og frá geðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss, aðeins er rekinn einsleitur áróður fyrir þessari breytingu. Ekki er minnst á fyrri atburðarás í tímareikningi á tuttugustu öldinni og er engu líkara en reynsla líðandi aldar sé aðalflutningsmanni að fullu óþekkt.

Það þykir þó viturra manna ráð að reyna að læra af sögunni. Vil ég benda þeim sem eru nettengdir og áhuga hafa á að frumvarpið og ágæta gagnrýni á því er að finna á heimasíðu: http://julkb.vortex.is/timamal.htm.

Í þessu samhengi öllu er athyglisverð þróunin á afgreiðslutíma verslana síðustu áratugina, sem virðist hafa aðlagast smám saman tímaskekkjunni, miðað við hnattstöðu og sólklukku Reykjavíkur. Fjöldinn allur af verslunum er ekki opnaður fyrr en klukkan 10.00 f.h. (sóltími 8.30 f.h.) og sumar ekki fyrr en á hádegi (sóltími: 10.30 f.h.). Eðlilega er lítill ábati af því að halda verslun opinni á þeim tíma sem fólk kemur ekki í búðirnar. Auðvelt er að sjá fyrir sér áframhaldandi þróun til seinkunar afgreiðslutíma verslana ef farið verður út í tvöfaldan sumartíma. Einnig má reikna með að verkalýðsfélögin fari að leggja meiri áherslu á sveigjanlegan vinnutíma, þannig að starfsfólk hafi eitthvert svigrúm með vinnutíma, þar sem því verður við komið, og jafnvel aukin frí og sólarlandaferðir um háveturinn.

Ég vona að sem flestir hafi samband við þingmenn sína, skriflega eða munnlega, og mótmæli frumvarpinu, annars gæti þjóðin setið uppi með þessa afurð Alþingis næstu 30 árin. Þeir sem eru nettengdir geta auðveldlega tengt sig inn á Alþingi og alþingismennina á http://www.althingi.is. Sendið þeim línu.

Höfundur er verslunarmaður.