Erlendur S. Þorsteinsson
Erlendur S. Þorsteinsson
Óbreytt fyrirkomulag, fastur tími árið um kring (GMT), er að mati Erlendar S. Þorsteinssonar, besta málamiðlunin.

FYRIR Alþingi liggur nú frumvarp til laga um að taka upp sumartíma á Íslandi frá apríl til október. Við nánari skoðun á frumvarpinu kemur í ljós að fjöldamörg rök mæla gegn þessari hugmynd.

Fyrstu mótrökin eru þau augljósustu: Tímareikningur á Íslandi er nú miðaður við miðtíma Greenwich (GMT), þegar strangt til tekið miðað við legu landsins ætti mið- og austurhluti þess að vera á GMT-1 og vesturhluti þess á GMT-2. Þetta misræmi hefur það í för með sér að nú er hádegi (sól hæst á lofti) um kl. 13:30 í Reykjavík. Gangi ofangreint frumvarp í gegn mun Ísland færast yfir á GMT+1 yfir sumarið og hádegi í Reykjavík því verða um kl. 14:30. Morgnar að vori og hausti yrðu því æði dimmir.

Ísland er nú á sumartíma allt árið og ef taka ætti upp breytilegan tíma sumar og vetur væri eðlilegast að breyta yfir í vetrartíma og færa þá klukkuna aftur um 1 klst. yfir veturinn frá því sem nú er en ekki fram um 1 klst. yfir sumarið eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Greinargerð frumvarpsins vísar til skýrslu ESB þar sem fjallað er um áhrif sumartíma. Ein af niðurstöðum skýrslunnar er að með sumartíma er orkunotkun minni. Þetta á við í Mið-Evrópu þar sem algengt er að á kyndingum séu sjálfvirkir tímastillar. Fólk kyndir ekki nema þegar það er á fótum og alls ekki þegar húsnæðið stendur autt. Eins og Íslendingar kynda mætti ekki búast við miklum sparnaði. Ástæðan er einfaldlega sú að meðalútihiti á Íslandi er ekki nægur til að viðhalda hita húsnæðis yfir nótt eða meðan fólk er í vinnu og því er kynt stöðugt.

Skýrslan vísar til þess að betri birtuskilyrði hafi áhrif á möguleika fólks til að stunda útivist og einnig leiddi rannsókn á umferðaröryggi, sem gerð var í Bretlandi, í ljós að á sumartíma er slysatíðni almennt lægri en á vetrartíma og er það fyrst og fremst rakið til aukinnar birtu á kvöldin. Þá kom og í ljós að aukin birta síðdegis hefur jákvæð áhrif á ferðamannaþjónustu.

Hvernig ofangreind atriði eiga við Ísland að sumarlagi er illskiljanlegt, öll þau birturök sem færð eru fyrir þessum breytingum eru miðuð við meginland Evrópu og falla dauð og ómerk í íslenskri miðnætursól. Það dimmir hraðar í Mið-Evrópu auk þess sem munur dags og nætur er meiri. Birtutími á Íslandi er mun lengri yfir sumartímann en í Mið-Evrópu og því myndi sumartími litlu breyta til batnaðar á Íslandi í þessu tilliti.

Það má öllu fremur færa rök fyrir því að sumartími hefði slæm áhrif, t.d. að slysum að morgni myndi fjölga vor og haust. Birtutími á Bretlandi og Íslandi er svipaður á þeim tíma árs, en Bretland er þá einungis 1 klst. frá réttum staðartíma meðan Reykjavík yrði 2,5 klst frá réttum tíma, svo myrkur að morgni yrði meira hér en þar.

Einnig gæti þetta haft slæm áhrif á ferðamennsku á Íslandi. Með tilkomu sumartíma myndi t.d. lágnætti (sól lægst á lofti) færast aftur um 1 klst. svo ferðamenn yrðu því að vera lengur á fótum til að sjá íslensku miðnætursólina.

Greinargerðin segir að fyrirtæki lendi í "vandræðum" á sumrin við að eiga samskipti við Evrópu og segir að "mjög erfitt getur verið fyrir fólk að ná saman í síma". Þessi fullyrðing er engum rökum studd en satt að segja erfitt að trúa því að tímamunur upp á 2 klst. geti verið til mikilla vandræða, til þess er skörun vinnudaga á Íslandi (GMT) og í Mið-Evrópu yfir sumarið (GMT+2) nægjanleg. Þessu til stuðnings má benda á að tímamismunur á milli vestur- og austurstrandar Bandaríkjanna [BNA] er 3 klst. en það virðist ekki hafa háð bandarískum efnahag mikið á undanförnum árum.

Það er athyglisvert að greinargerðin hunsar algjörlega þau íslensku fyrirtæki sem eiga samskipti við BNA. Einn af kostunum við legu Íslands er að við erum mitt á milli N-Ameríku og Evrópu. Með þessum breytingum verður 5-8 tíma munur á Íslandi og BNA yfir sumarið í stað 4-7 tíma. Það þýðir að öll samskipti við austurströnd BNA verða erfiðari yfir sumarið og við vesturströndina nær ómöguleg. Sér í lagi verða símasamskipti til vandræða en jafnvel tölvupóstur sendur að morgni vinnudags á vesturströnd BNA berst eftir lok vinnudags á Íslandi ef sumartími yrði tekinn upp.

Í greinargerðinni er einnig fjallað um flugsamgöngur milli Íslands og Evrópu. Vísað er til þess að sumartími myndi leiða til þess að morgunflug til Evrópu frá Keflavík yrði 1 klst. síðar eins og á vetrum. Þessi fullyrðing stenst ekki nánari skoðun og líkt og áður eru samskipti Íslands og BNA hunsuð.

Mikill hluti viðskipta Flugleiða felst í því að flytja fólk milli BNA og Evrópu. Farið er frá BNA á kvöldin, flogið yfir nóttina og lent á meginlandi Evrópu eins snemma dags og hægt er, til að tími þeirra sem eru að koma frá BNA nýtist sem best. Þó er reynt að koma til móts við Íslendinga með því að koma ekki inn til Keflavíkur um miðja nótt heldur snemma morguns. Auðvelt er að sannreyna að allar vélar sem eru að koma frá BNA lenda í Keflavík milli kl. 6:30-45 hvort sem er sumar eða vetur og halda síðan áfram til meginlands Evrópu eins fljótt og kostur er. Þótt að sumartími yrði tekinn upp á Íslandi myndi það engu breyta þar um.

Ekki er vikið að því í greinargerðinni hvaða kostnaður yrði af því að taka upp sumartíma á Íslandi. Ljóst má þó vera að hann verður töluverður, t.d. þarf að athuga og hugsanlega breyta tölvukerfum fyrirtækja. Öll sérsmíðuð tölvukerfi á Íslandi hafa hingað til ekki þurft að taka tillit til sumartíma og ekki víst að þau ráði við þessa breytingu án lagfæringa.

Greinargerðinni lýkur með því að segja að upptaka sumartíma sé mikið hagsmunamál almennings í landinu. Staðreyndirnar tala hinsvegar öðru máli. Upptaka sumartíma er almenningi eingöngu til hinnar mestu óþurftar og fyrirtækjum sem eiga samskipti við BNA til mikilla vandræða; betra væri fyrir þau fyrirtæki að klukkan yrði færð aftur en ekki fram. Gagnsemi fyrir fyrirtæki sem eiga samskipti við Evrópu er í besta falli mjög óljós en að horfa einungis til Evrópu í þessu sambandi er mikil skammsýni.

Ljóst má vera að óbreytt fyrirkomulag, fastur tími árið um kring (GMT), er besta málamiðlunin. Íslendingar lenda þá ekki í þeim hópi minnihluta jarðarbúa sem ,,hringlar með klukkuna".

Höfundur er tölvunar- og stærðfræðingur.