Ragnheiður Magnúsdóttir: "Það er greinilegt að ungt fólk í dag hefur mikinn áhuga á þessari músík."
Ragnheiður Magnúsdóttir: "Það er greinilegt að ungt fólk í dag hefur mikinn áhuga á þessari músík."
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Væntumþykja landsmanna í garð söngvarans sívinsæla, Hauks Morthens, er mikil. Arnar Eggert Thoroddsen ræddi við ekkju Hauks, frú Ragnheiði Magnúsdóttur, vegna tvöföldu geislaplötunnar Ó borg mín borg, sem inniheldur safn laga frá þessum dáða dægurlagasöngvara. Einnig tók hann Trausta Jónsson, veður- og tónlistarfræðing, tali vegna þessa.
FRÚ Ragnheiður tekur á móti mér með þéttingsföstu handabandi og býður mér í stássstofuna. Um íbúðina líður kunnugleg rödd. Haukur Morthens er að syngja um Gunnar póst, en það lag er einmitt að finna á safninu nýja, Ó, borg mín borg, ásamt fleiri, löngu sígildum "þjóðlögum", eins og t.d. "Rock-Calypso í réttunum", "Til eru fræ", "Bjössi kvennagull", "Kaupakonan hans Gísla í Gröf" að maður tali nú ekki um titillagið.

"Það hefur ekkert komið út með Hauki síðan Gullnar glæður varð til (einföld safnplata sem nú er afskráð)," segir Ragnheiður. "Hann Eiður í Skífunni kom með þessa hugmynd til mín og mér finnst það vera virðing við Hauk, sem látinn söngvara, að þetta skuli hafa verið gert."

Ragnheiður hafði í hönd í bagga hvað lagaval varðaði, ásamt Trausta Jónssyni. "Þetta eru auðvitað þessi lög sem voru vinsæl. Trausti er auðvitað meiri fagmaður í þessum efnum en ég. Ég bara hlusta á músíkina af því að ég hef gaman af henni. Ekki að ég geti á nokkurn hátt dæmt hana. Trausti gat betur bent á hvaða upptökur væru bestar og þess háttar."

Tekið upp í róðrarklúbbi

Talið berst að dægurlagasöngvaranum Hauki, og því lífsmynstri sem þau hjónin bjuggu við á sínum tíma. "Við vorum mikið á faraldsfæti. Ég fór nú yfirleitt alltaf með í ferðalögin en er hann var að syngja í samkomuhúsunum var ég ekkert sérstaklega að þvælast þangað. Þetta var hans vinnustaður og ef Haukur hefði verið bifvélavirki eða járnsmiður hefði ég t.d. ekkert verið að gera mér ferðir á þá vinnustaði.

En ferðalögin gátu verið alveg stórkostleg. T.d. þegar við fórum á þessi þorrablót suður í Kaliforníu. Þá höfðum við oft tíma fyrir okkur aukreitis og fórum þá kannski til Las Vegas eða Hawaii."

Einurð og þrautseigja Hauks gagnvart starfi sínu þótti aðdáunarverð. "Það var þráðbein lína!" segir Ragnheiður með miklum sannfæringarkrafti. "Það mátti ekkert bregða út af þeirri línu. Hér var þó ekki um neina skrifstofuvinnu að ræða, þeir unnu ekki frá níu til sex og Haukur var mjög mikið heima á daginn. Ég hugsa að það hafi verið rosalega mikill plús fyrir syni okkar hvað þeir gátu verið mikið saman á daginn. En það var náttúrlega unnið öll kvöld vikunnar nema miðvikudagskvöld. Og það voru oft ansi strangar æfingar. Þetta kom þó svolítið öðruvísi út hvað upptökur varðaði. Þá lokuðu þeir sig frekar af á meðan á því stóð. En ég man t.d. þegar Haukur fór eitt sinn út til Kaupmannahafnar að taka upp. Þá fóru upptökurnar fram í gömlum róðrarklúbbi! Það voru ekkert allir þessir takkar og djöfulgangur sem nú eru á ferðinni. Það var bara farið inn, tekið upp og ekkert verið að vesenast meira með það."

Hugur Ragnheiðar reikar til Kanada, en þangað fóru þau hjónin árið 1982, er Haukur var gerður að heiðursborgara í Winnipeg. "Við höfðum ekki hugmynd um hversu vinsæll Haukur var þarna. Maður fylltist eiginlega þjóðarstolti þegar maður ferðaðist þarna um með hljómsveitinni. Ég man þegar við vorum í Gimli, þá kom gamla fólkið og spurði mig hvort ég væri að selja plötur sem stóð heima. Þá sagði það: "Þá ætla ég að fá eina record," og gleymdi íslenskunni í bili."

Haukur hefur, umfram marga fyrrum samherja sína, haldið vinsældum sínum fram á þennan dag og er einn af ástsælustu söngvurum þjóðarinnar. Hann er sígildur, mun aldrei falla í gleymsku. Ragnheiður hefur orðið vör við þetta. "Já, ég hef orðið vör við þetta og stundum verð ég svolítið hissa. Ungt fólk sem ég hef talað við hefur stóran áhuga á þessum disk sem er að koma út í dag - með gömlum kalli! Það eru að koma hingað ungar stúlkur og rabba við mig um þetta fram og aftur. Ég gæti verið amma þeirra!"

"Það er greinilegt að ungt fólk í dag hefur mikinn áhuga á þessari músík. Að hlusta á textana og hlusta á lögin, það er einhvern veginn allt annar bragur á þessu heldur en er í dag. Hvort er betra eða verra, það ætla ég ekki að dæma um - þótt ég viti það," segir Ragnheiður að lokum og hlær stríðnislegum hlátri.