Hjarðarholt í Dölum þar sem séra Gunnar Pálsson bjó og gegndi embætti.
Hjarðarholt í Dölum þar sem séra Gunnar Pálsson bjó og gegndi embætti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnar Pálsson, 1714-1791, var einn af mestu lærdómsmönnum landsins, skólameistari, prófastur, skáld og fræðimaður. Hann sat Hjarðarholt í þrjá áratugi í miklum harðindakafla. Ævisaga hans er sorgarsaga. Hæfileikar hans nýttust ekki, honum urðu á yfirsjónir í starfi og fátæktin lamaði framtakssemi hans.

Guðmundur glaðlyndis trauður, gráklæddur slá mæddur náir, mjóstrokinn má kríka teygja, múg skefur bjúgnefur drjúgan, gónandi gin sundur þenur, grefillinn kvef fyllir nef hans, sílekur, sjó eykur þvagi. Sögn mæðist, þögn græðist brögnum. Viljugan að halda hund hundrað ár er skárra en latan mann um stutta stund, stundar hann gagnið fárra. Spóinn vellir og froðufellir, fagurliga róminn bellir, öngvan hrellir, góðum gellir og glaðværðinni úr sér hellir. Spóinn vellir og froðufellir, fær því margur heitan gellir, öngvan hrellir, barkann bellir og blíðviðrinu úr sér hellir. Víst hefur verið Valgerður fyr meir hörð, kerlingar hrerið, komið nær ofan í jörð, reykinn veður og eldinn enn; snýst hún eins og snælda, sem snoturliga renn, sem snoturliga renn. Sigríður hygg eg sinna verka gæti, sízt er þörf, að aðrir þar um bæti. Hún er að tosa, liðka, losa, lýðir brosa, föst er hosa á fæti. Hvör sveit hjálpast við sín gæði, ef haldið er vel þeim á. Eg veit annars lítilræði, sem allir kunna ei sjá. Dönsk geit gnagar flest vor strá. "Handel" trúi eg hún heiti, sem hvörgi þrífast má. Hvar eru Svíar, hvar eru Danir, helgidómum fornum vanir? Hefðu ei Íslands sungið svanir, síður spryttu þeirra granir. Nú fær varla nokkur sungið, nauðum mjög er fólkið slungið; margt hefur Ísland meinið stungið, mest þó kaupmenn að oss þrungið. Þussinn, skussinn, dóninn, drussinn, draugurinn, haugurinn, labbinn, ussinn, á merinni hér hann mikill er, mest og bezt þar hrósar sér. Þeir mega brigzla um brennivín, sem brúka það með hófi, en engin dárleg drykkju svín, drukknuð í því kófi.

Á ÖLLUM öldum Íslandssögunnar hafa verið uppi öndvegismenn, sem hafa sett svip sinn á umhverfi sitt og skilað framtíðinni merkilegum verkum. Átjánda öldin var engin undantekning að þessu leyti. Eins og gengur stendur minning sumra beztu sona hennar eins og klettur úr hafinu, en aðrir hafa fallið í gleymsku og dá að miklu eða öllu leyti. Í hópi hinna síðarnefndu var gáfumaðurinn Gunnar Pálsson, sem hér verður minnzt í tilefni þess, að fyrir nokkru er komið út II. bindi bréfa hans. Auk inngangs með æviágripi er efni þess athugasemdir og skýringar við texta I. bindis, sem út kom árið 1984.

Gunnar Pálsson fæddist 2. ágúst 1714 á Upsum á Upsaströnd við Eyjafjörð. Foreldrar hans voru prestshjónin þar, séra Páll Bjarnason og Sigríður Ásmundsdóttir. Gunnar var hinn 8. í röð 16 systkina, en 12 þeirra komust á legg. Þekktastur þeirra auk Gunnars var Bjarni, sem varð fyrstur landlæknir á Íslandi 1760.

Gunnar settist í Hólaskóla 1729 og brautskráðist þaðan 1735. Á árunum 1737-1740 var hann djákni á Munkaþverá og aftur 1741-1742, en veturinn 1740-1741 stundaði hann háskólanám í Kaupmannahöfn. Hann varð að hraða námi sínu sem mest vegna fátæktar og fékk því konungsleyfi til að ganga undir guðfræðipróf eftir 8 mánaða nám þá um vorið. Því lauk hann 12. júní með 3. einkunn.

Um Hafnarvist sína yrkir Gunnar svo:

Mánuði átta eina

eg var í Kaupinhafn

með bóknáms hyggju hreina,

hvörs þar fékk nokkurt safn.

Henni skal fyrir það hrósa,

hún á það skilið af mér;

hún var mín læri-ljósa

lysti rósa,

mitt líf þess menjar ber.

Um annað tala eg eigi

ýmislegt háttalag,

það var á sínum vegi

vart sumt með bezta slag.

Land vort hefir last fyrir minna

löngum þeim fengið hjá,

sem látast lýtin finna,

helzt hinna,

en sín ei vilja sjá.

Síðari vísan gæti bent til þess, að Gunnar hafi lent í einhverjum solli í Höfn að hætti sumra stúdenta þar. En naumast hafa verið mikil brögð að því vegna námsanna þennan eina vetur.

Sumarið 1741 sendi danska kirkjustjórnarráðið Ludvig Harboe, heittrúaðan og umbótasinnaðan prest, til Íslands með biskupsvald til þess að hafa eftirlit með kirkjumálum. Hann settist að á Hólum og dvaldist þar þrjú ár og síðan eitt ár í Skálholti. Hann kom á ýmsum umbótum í trúarefnum hér á landi. Skólakennslu á Hólum hafði þá verið ábótavant um skeið vegna vankunnáttu skólameistarans, Sigurðar Vigfússonar "Íslandströlls". Harboe fékk hann til þess að láta af starfi eftir fyrsta veturinn. Í staðinn réð hann Gunnar Pálsson 1742, og komst þá kennslan brátt í betra horf. Meðan Gunnar gegndi því starfi brautskráði hann alla þrjá yngri bræður sína, en þeir voru auk Bjarna landlæknis séra Benedikt, síðast á Stað á Reykjanesi, drátthagur maður og söngfróður, og séra Ásmundur á Auðkúlu í Svínadal.

Árið 1748 gekk Gunnar að eiga Margrétu Erlendsdóttur (1711-1786), prests Guðbrandssonar á Kvíabekk í Ólafsfirði. Þau áttu einn son, Pál (1749-1819), sem gerðist aðstoðarprestur föður síns og var síðast prestur í Saurbæjarþingum. Séra Páll var barnlaus í stuttu hjónabandi. Gunnar Pálsson á því ekki niðja á lífi.

Vorið 1753 fékk Gunnar veitingu fyrir Hjarðarholti í Laxárdal. Hann sat þar í rúma þrjá áratugi eða til 1784 og var jafnframt prófastur Dalamanna til 1781. Svo óheppilega vildi til, að mikill harðindakafli hófst nokkru áður en hann tók við staðnum, og linnti ekki fyrr en 1758. Fjárfellir varð þá verulegur í Dalasýslu og bjargarskortur, og allmargir dóu úr hungri. Á þeim árum þurfti Gunnar að fara tvö sumur vestur í Dýrafjörð til steinbítskaupa og tvívegis suður á land til þess að útvega fisk. Næstu 5 árin gekk búskapurinn þolanlega. En eftir það sótti aftur í sama horfið. Fjárkláðafaraldurinn hinn fyrri gekk yfir Dalasýslu 1764-1774, og sauðfé sýslubúa hrundi þá niður.

Hugur Gunnars Pálssonar hneigðist meir til lærdómsiðkana og skáldskapar en hversdagslegrar búsýslu, sem honum var ósýnt um. Þessi áföll urðu honum um megn. Hann fór að safna skuldum við kaupmanninn í Stykkishólmi og Hjarðarholtskirkju. Með árunum ágerðist skuldasöfnunin, þannig að til vandræða horfði, einkum gagnvart kirkjunni. Bæði af þeim sökum og vegna hirðuleysis um skýrslugerð hlaut hann hvað eftir annað bréflegar áminningar biskups.

Árið 1776 varð séra Gunnari það á að gefa vin sinn, Jón fræðimann Egilsson á Stóra-Vatnshorni í Haukadal, saman við konu, sem þá var þunguð að 4. barni þeirra. Þegar fyrsta barnið fæddist, 1766, var Jón giftur annarri konu og barnið því hórgetið. Sama ár voru þau hjónin skilin með dómi, og því voru yngri börnin frilluborin. Gifting þessi var óheimil, og fyrir þá sök hlaut Gunnar áminningu í hirðisbréfi biskups og varð auk þess að fara til Þingvalla á prestastefnu sumarið 1779 að boði konungs til þess að hlusta þar á biskupsáminningu, sem Hannes Finnsson Skálholtsbiskup las yfir honum í áheyrn kennidómsins.

Haustið 1777 varð séra Gunnari á yfirsjón í sambandi við aðra giftingu, en slapp við málssókn með því að bjóðast til að gjalda 4 ríkisdali til fátækra prestaekkna. Eftir þessi afglöp í embætti varð séra Gunnar að segja lausu prófastsembættinu að beiðni og ráðleggingu biskups 1781. Sama ár gaf konungur honum 100 ríkisdali til að endurbyggja Hjarðarholtskirkju, en það stoðaði lítt í skuldabaslinu og ekki heldur hitt, að frá árinu 1774 og til æviloka hlaut hann árlegan styrk frá Árnanefnd Magnússonar í Kaupmannahöfn, 30 ríkisdali fyrstu tvö árin og eftir það 40 ríkisdali, fyrir skýringar sínar á fornyrðum í sögum og kveðskap.

Árið 1783 dundu móðuharðindin yfir og lögðu bágborinn búskap Hjarðarholtsklerks í rúst. Kúgildi staðarins féllu og eins á kirkjukotunum. Séra Gunnar flosnaði upp sumarið 1784, fékk séra Pál, son sinn, til að þjóna brauðinu og fór þá um haustið til Jóns Egilssonar á Stóra-Vatnshorni í Haukadal, þar sem hann dvaldist næsta árið. Margrét kona hans var þá orðin karlæg og næstum blind, og kom hann henni fyrir í Hvammi í Hvammssveit hjá Björgu, systur sinni, og manni hennar, séra Einari Þórðarsyni. Þar andaðist hún haustið 1786.

Eftir ársdvölina á Stóra-Vatnshorni fluttist Gunnar Pálsson haustið 1785 að Reykhólum í Reykhólasveit til Ara fálkafangara Jónssonar og fékkst þar við barnakennslu og fræðistörf til æviloka. Gunnar andaðist 2. október 1791.

Gunnar Pálsson var afkastamikið skáld bæði á íslenzku og latínu. Kveðskapur hans á móðurmálinu gæti fyllt 500 blaðsíðna bók, og er nálega þriðjungur hans til í eiginhandarriti. Alls er kvæði eftir hann að finna í u.þ.b. 240 handritum, og sýnir það vinsældir þeirra. Nokkur kvæði hans voru prentuð að honum lifandi, bæði á íslenzku og latínu. Hið fyrsta þeirra var "Heilsan til hinnar gömlu vísnabókar" framan við 2. prentun hennar á Hólum 1748. Ýmislegt hefur verið prentað síðar af kveðskap hans, einkum smákvæðum og einstökum vísum, m.a. í Sunnanfara, Almanaki Þjóðvinafélagsins, Andvara, Blöndu og í kvæðasafninu Sól er á morgun (Rv. 1945). Á hans dögum og fram á síðustu öld voru þekktustu kvæði hans Gunnarskvæði (sem er til í a.m.k. 80 handritum) og Gunnarsslagur (sem lenti inn í útgáfur eddukvæða), en nú munu flestir kannast við erfiljóðið eftir Eggert Ólafsson ("Allir tala um Eggerts skip" o.s.frv.), en það hefur verið prentað nokkrum sinnum (stytt), m.a. í báðum gerðum Lestrarbókar Sigurðar Nordals. Einnig er líklegt, þótt ekki verði það sannað, að Gunnar hafi sjálfur ort tvær vísur, sem eru í stafrófskveri hans (1782) og hvert mannsbarn hér á landi hefur kunnað síðan: "A b c d e f g" o.s.frv.

Þegar Gunnar var að alast upp á Upsaströnd í Svarfaðardal, segir hann, að fullur helmingur karlmanna þar í sveitinni hafi talizt hagmæltur fyrir utan kvenfólk og unglinga. Einn í hópi hinna betri hagyrðinga þarna var Einar Sæmundsson, faðir Látra-Bjargar. Gunnar reri með honum til fiskjar sem formanni í æsku og orti vísur um hann. Á Upsum voru bæði prestshjónin hagmælt og börn þeirra öll að sögn Gunnars. Það er því ljóst, að þegar í uppvexti hefur hann mótazt af hefð íslenzks alþýðukveðskapar. Elztu vísur hans frá því um tvítugsaldur bera þegar vitni um hagmælsku hans, þannig að hann hefur sjálfsagt æft sig í vísnagerð allt frá bernsku. Augljóst er, að hann hefur haft mætur á dýrum háttum. Hann orti mikið af ferskeytlum og notaði þann hátt í mörgum kvæðum sínum. Rímur orti hann ekki, en lærði af þeim kenningar og heiti, sem hann bregður oft fyrir sig í kveðskap sínum, einkum gamankvæðunum.

Margt bendir til þess, að Gunnar hafi ekki gert sér háar hugmyndir um kveðskap sinn, m.a. að hann hirti ekki um að halda honum saman. Það var vandi hans að senda vinum sínum einstök kvæði sín hreinskrifuð, og hafa mörg þeirra ratað síðar í söfn. Mesta og merkasta safn kvæða Gunnars er komið frá Jóni Sigurðssyni forseta, JS 273 a-b 4to, enda lagði hann sig fram um að safna þeim og ritaði sum þeirra á renninga með orðamun úr öðrum handritum. Það bendir til þess, að Jón hafi haft útgáfu kvæðanna í huga og þetta sé hugsað sem stofn prenthandrits, þótt ekki kæmist sú hugmynd lengra áleiðis.

Annað helzta kvæðahandritið er Lbs. 712 8vo, sem ritað er af systursyni Gunnars, Halldóri Hjálmarssyni, konrektor á Hólum í Hjaltadal. Halldór getur þess við mörg kvæðanna, að hann hafi skrifað þau upp eftir eiginhandarriti Gunnars, og hefur víða tilgreint orðamun úr öðrum handritum. Frá Halldóri er einnig runnið Lbs. 298 fol., þar sem bæði er að finna kvæðatíning o.fl. eftir Gunnar og einkum sendibréf hans til þeirra Halldórs og Hálfdanar Einarssonar, rektors á Hólum.

Því verður naumast á móti mælt, að kveðskapur Gunnars Pálssonar er engan veginn rismikill, enda var lægð í íslenzkri ljóðagerð lengstum á 18. öldinni. Líklegt er, að hann hafi kynnt sér eitthvað danskan skáldskap, þegar hann dvaldist vetrarlangt í Kaupmannahöfn. En í fásinninu hér heima er sem skáldgáfa hans hafi koðnað niður. Hann hefur ort sér til afþreyingar og hugarhægðar og litið á þessa iðju sína sem leik, sbr. fyrirsögnina "Lusus varii" (ýmsir leikir, þ.e. smákviðlingar til gamans) á einni vísnasyrpu hans. Í stórum dráttum má flokka kveðskap Gunnars sem tækifæriskvæði, s.s. heillaóskakvæði og erfiljóð, gamankvæði og ádeilukvæði og gat hann þá verið býsna hvassyrtur. Loks skal hér talinn andlegur kveðskapur eða sálmar. Sumt af kvæðum sínum fyrnir hann mjög og lætur fylgja skýringar. Trúlegt er, að Eggert Ólafsson hafi sótt þangað fyrirmynd að sumum tyrfnustu kvæðum sínum. Þeir Eggert og Gunnar skrifuðust á og sáust a.m.k. sumarið 1754, þegar þeir Bjarni, bróðir Gunnars, og Eggert komu í Hjarðarholt í einni rannsóknarferð sinni um Ísland. Sá annmarki er á mörgum kvæðum Gunnars, að þau eru óhemjulöng. Það er sem skáldfákurinn geysist óstöðvandi fram, þegar hann grípur sprettinn. Sem dæmi má nefna Varúðargælu, sem var prentuð í Kaupmannahöfn 1759 og er 71 dróttkvætt erindi, og annað kvæði, sem er 127 ferskeyttar vísur.

Eitt einkennið á kveðskap Gunnars Pálssonar er ljós rökhyggja, sem kemur einna skýrast fram í ádeilukvæðum hans. Þegar eitthvert atvik, ummæli eða kveðskapur hefur ýtt ónotalega við skáldinu og vakið gremju þess eða reiði, þá eru veitt þung högg á móti. Kvæðin verða þá löng og mergjuð að orðfæri og skýrri rökhugsun er beitt, þar sem hver mótbáran af annarri er leidd fram. Þó er ekki um eiginlega stígandi að ræða, heldur upptalning hliðstæðna, þar sem engin ein er annarri þungvægari. En það eiga þeir Gunnar og dóttursonur Bjarna, bróður hans, Bjarni Thorarensen, sammerkt, að báðir ná þeir dýpstum tónum í erfiljóðum sínum.

Gunnar Pálsson var talinn í hópi mestu lærdómsmanna hér á landi um sína daga. Hann fékkst einkum við sögu og bókmenntir þjóðar sinnar og skýringar á fornyrðum í Íslendingasögum, eddukvæðum og dróttkvæðum á vegum Árnanefndar í Kaupmannahöfn, sem áður getur. Auk þess var hann kunnugur ritum á forntungunum, grísku og einkum latínu. Fornyrðaskýringar hans voru brautryðjandaverk, en þykja nú álíka lítilsverðar og önnur slík verk fyrir daga Sveinbjarnar Egilssonar. Merkasta verk hans í lausu máli er aðeins til í handritum, en það er prentsmiðjusaga á latínu, Typographia Islandica, samin árið 1756, einnig til í styttri gerð frá 1754.

Til er skrá um þær bækur, sem Gunnar skildi eftir bæði í Hjarðarholti við brottför sína þaðan 1784 og á Stóra-Vatnshorni 1785. Þær eru 120 að tölu, flest þekkt fræðirit á sínum tíma. Hann hefur ekki haft tök á því að flytja þessar bækur sínar með sér að Reykhólum, en sjálfsagt hefur hann haft eitthvað með sér þangað. Þannig hefur hann lengst af búið við óvenjulega ríflegan bókakost í fræðastarfi sínu.

Átjánda öldin hefur verið kennd við svonefnda upplýsingu eða fræðslustefnu. Áhrif hennar koma einkum í ljós á síðustu áratugum aldarinnar og gleggst í starfi og ritum Magnúsar Stephensens dómstjóra, sem lifði fram til 1833. Að vísu gætir áhrifa upplýsingarinnar misjafnlega mikið hjá ýmsum merkismönnum 18. aldar, þannig að erfitt getur reynzt að greina þau, svo að ótvírætt sé. Svo er og um Gunnar Pálsson. Hér skulu tínd til örfá atriði, sem bent gætu til áhrifa frá upplýsingunni. Svo er t.d. um áhuga hans á málrækt og búfræði, þótt sjálfur teldist hann búskussi. Kvæði hans, Lambablómi, er t.d. fræðslukvæði um búskaparefni (prentað í Sunnanfara 1895). Hann var vel kunnugur eiganda Hrappseyjarprentsmiðju frá 1774, Boga Benediktssyni í Hrappsey, og Magnúsi Ketilssyni sýslumanni, sem var umsjónarmaður prentsmiðjunnar framan af. Gunnar þekkti því vel til þeirrar fræðslustarfsemi, sem þar fór fram, og kom við sögu tveggja fornrita, sem fyrirhugað var að gefa þar út, Laxdælu og Alexanders sögu, en ekki varð af útgáfu. Hins vegar voru þrjú kvæði Gunnars sérprentuð þar og einnig stafrófskver hans, Lítið ungt stöfunarbarn, sem út kom 1782.

Ævisaga Gunnars Pálssonar er í rauninni mikil sorgarsaga. Hæfileikar hans fóru á dreif af ýmsum orsökum. Á yngri árum farnaðist honum vel, meðan hann var skólameistari á Hólum, og bætti þá mjög kennsluhætti þar. Hins vegar var hann síður fallinn til prestskapar og þótti stirður predikari. Auk þess hentu hann óþægilegar yfirsjónir í starfi, sem áður getur. Loks varð fátæktarbaslið til þess að lama framtakssemi hans og leiddi loks til þess, að hann flosnaði upp frá prestakalli sínu.

Svo segir í heimild nokkurri um Gunnar, að hann hafi verið "hálærður maður, antiquarius (þ.e. fornfræðingur) og mikið skáld, en ekki svo búsæll, skrítinn maður við dropa og sopa, en góðmenni og góðvildarsamur."

Í annarri heimild er Gunnar sagður hafa verið "hinn lærðasti maður og mjög fornfróður, gamansamur, orðhittinn, skáld gott, lítill vexti, en þó sköruglegur ásýndum og knár."

Að síðustu skulu hér tilfærð lokaorð Sveins Pálssonar læknis í ævisögu Bjarna Pálssonar, þar sem hann getur Gunnars, bróður hans:

"Saga hefir gjörð verið af minni manni!"

Að lokum skulu hér sýnd nokkur dæmi um kveðskap Gunnars Pálssonar.

Um hvalinn, sem uppdreif við Sauðakot á einmánaði Anno 1734

[Nr. 3 í vísnaflokki]

Hörku barka herkinn orku styrkur

hval úr valinn, skal svo tala, halur

náði, það var nauða stoð, eg ræði,

nú hans búi, frú og hjúum trúu.

Eirnin börnin ærna fórn til borna

etið geta um vetrar hret án leti,

gestir skást, er gisting ljæst hjá traustum,

gæða fæðu snæða. Kvæðið mæðist.

Vísur af ýmsu tagi

Guðmundur glaðlyndis trauður,

gráklæddur slá mæddur náir,

mjóstrokinn má kríka teygja,

múg skefur bjúgnefur drjúgan,

gónandi gin sundur þenur,

grefillinn kvef fyllir nef hans,

sílekur, sjó eykur þvagi.

Sögn mæðist, þögn græðist brögnum.

Viljugan að halda hund

hundrað ár er skárra

en latan mann um stutta stund,

stundar hann gagnið fárra.

Spóinn vellir og froðufellir,

fagurliga róminn bellir,

öngvan hrellir, góðum gellir

og glaðværðinni úr sér hellir.

Spóinn vellir og froðufellir,

fær því margur heitan gellir,

öngvan hrellir, barkann bellir

og blíðviðrinu úr sér hellir.

Víst hefur verið

Valgerður fyr meir hörð,

kerlingar hrerið,

komið nær ofan í jörð,

reykinn veður og eldinn enn;

snýst hún eins og snælda,

sem snoturliga renn,

sem snoturliga renn.

Sigríður hygg eg sinna verka gæti,

sízt er þörf, að aðrir þar um bæti.

Hún er að tosa,

liðka, losa,

lýðir brosa,

föst er hosa á fæti.

Hvör sveit

hjálpast við sín gæði,

ef haldið er vel þeim á.

Eg veit

annars lítilræði,

sem allir kunna ei sjá.

Dönsk geit

gnagar flest vor strá.

"Handel" trúi eg hún heiti,

sem hvörgi þrífast má.

Hvar eru Svíar, hvar eru Danir,

helgidómum fornum vanir?

Hefðu ei Íslands sungið svanir,

síður spryttu þeirra granir.

Nú fær varla nokkur sungið,

nauðum mjög er fólkið slungið;

margt hefur Ísland meinið stungið,

mest þó kaupmenn að oss þrungið.

Þussinn, skussinn, dóninn, drussinn,

draugurinn, haugurinn, labbinn, ussinn,

á merinni hér hann mikill er,

mest og bezt þar hrósar sér.

Þeir mega brigzla um brennivín,

sem brúka það með hófi,

en engin dárleg drykkju svín,

drukknuð í því kófi.

Gamanvísur

Lærðra manna lof ei deyr,

löngum haft í minni,

en missést þeim, því menn eru þeir

mörgu hverju sinni.

Væri þá ráð að verja ei rangt

víst með ofurkappi.

Slíkt hefur sjaldan stríðið strangt

stýra kunnað happi.

Ort eftir Árna Böðvarsson, rímnaskáld (d. 1776)

Gæðaskáldið getið og fætt

með gáfu og huga vökrum,

Árni Böðvars sefur sætt,

söknum vér, kundur hér,

en fróðleiks smiðjan fallin er,

sem fyrrum stóð á Ökrum.

Letivísa

Latur skipar lötum!

og latur em eg nú,

flatmaga með flötum,

sem fletið elska af trú.

Hálsinn kann ei halda

höfðinu upp af sér,

bein ei búknum valda,

bogna liðirnir.

Hlýt því liggja og hægðum ná,

hvíldir þiggja, er kann að fá.

Sjúkan hyggja margur má,

mig sem þanninn sér.

Ellivísa

Var eg áður ungur

eins og frár silungur,

hundrað hafði tungur,

hendur tíu og fætur,

þóttist maður mætur.

En nú er eg staur, staur, staur,

nú er eg staur, staur, staur,

nú er eg staur og Giljagaur,

gráðugum hrafni ei ætur.

Um fríhöndlan

Furðar mig, hvað fríhöndlan hér fólk vill kvíða;

því illa gefst hún yfir máta,

ef eftir þessa skulu menn gráta.

Vantar eitt, að verða kynni, vel sem mætti,

engisprettum, allt er sleikja,

öllum veður burt að feykja.

Hjárænu galdur eður misvitru umþenking eins merkilegs projects makara

[Hér prentað 1.-2. erindi af 10]

Herra concept held eg öll

hér á þessum tíðum

komin ei úr himna höll

né hentug vorum lýðum.

Svo er um móðurmál.

Sumum heyri eg sagt í frá,

soddan óþarft brjál

að það vilji víst afmá.

Vondslegt er það tál.

Á þá danskan efalaust

yfir hér að ganga

og svo búið um sé traust

ofvit þetta hið ranga?

Svo er sagt þar frá,

að predikanir vilji víst

verði oss danskar hjá.

Ójafnt mönnum á það lízt,

en eins eg spyrja má.

Hugvekja

Syðra eg dáinn sagður var

snemma á þessum vetri,

efni er það til örvunar,

að ævin gjörist betri.

Satt hér eftir kemur kvitt,

kann það bregðast eigi,

langt er vorðið lífið mitt,

líður að enda degi.

Og lof sé Guði, liðið er snart

lífið fallvalt þetta,

þá mun verða betur bjart

og byrði af herðum detta.

Þá var komið þess mitt ár

þriðja og sjötuganda,

því mun Drottinn hjálpar hár

hefja mig snart úr vanda.

Falls er von að fornu tré;

fausknum ber þess gæta,

að varbúinn ei við því sé,

sem vill hönum eittsinn mæta.

En lærðu að trúa og lifa vel,

líkt þá færðu deyja;

hér við má þitt hjartans þel

í huganum glaðvært þreyja.

Reynslan kennir mönnum margt,

má þess síðan gæta;

en dauðanum fylgir önnur art,

eitt sinn skal honum mæta.

Trúin verður að taka við

og treysta Guði sínum;

hans mun ekki losna lið

né leiðsla í dauða þínum.

Niðurlagi kvæðisins (9.-17. erindi) er sleppt hér.

Glefsur úr Bréfum Gunnars Pálssonar I.

Úr bréfi til Hálfdans Einarssonar, rektors á Hólum, 1778:

Það má annars Grímseyingum nyrðra til hróss telja, að árið 1744, þegar páskavillan varð í því danska alm(anaki), héldu þeir páskana rétt af því það ekki fengu, en héldu sér við rím, hvað eð fréttist þá þeir um vorið í land komu.

Bréf GP I, bls. 357.

Úr sama bréfi:

Það kom eitt sinn í tal í kvöldvöku í ungdæmi mínu um hagmælta menn og á hendur lagtæka, hvað margir mundi vera stökufærir í þeirri sveit (Svarf(aðar)dal), og varð það fullur helmingur karlmanna, er hagmæltir töldust, fyrir utan kvenfólk og unglinga, er ei var skipt sér af.

Án þessarar gáfu eru ei heldur alltíð allgrunnhyggnir menn eður vitsmunagrannir, jafnvel á hvað annað; hvílíkur var einn Halldór Jónsson í Svarfaðardal (kallaður nurta), er eg nærfellt barn að aldri fullorðinn man, en dó þá eg var nokkuð yfir 20. Var frómur og meinlaus, en lítt kunnandi til verka, utan þófari og þvíumlíkt, svo lítt var í vistum fastur; einfaldur, svo hann mátti ganta nærfellt hvör sem vildi og í því er vildi. Hann hafði hljóða megn ei alllítið og kvað margt í rímum og kvæðum, einninn andligs efnis, og aflagaði víst ekki meir en margur hvör annar; en það hagmæltur, að gjört gat ferskeyttar vísur ... og rétt skotið inn alþekktum kenningum, ut (eins og) lindin orma stétta etc., svo sumir skýrari, þótt nokkurn lit geti sýnt, kveða ei jafnrétt og sumir réttan leirburð eður Hakabrag.

Bréf GP I, bls. 358-359

Úr bréfi til sama 1782:

Fínn í mörgu var þessi karl (þ. e. Jón Hallsson á Brimnesi á Upsaströnd), frómur, tryggur, en nokkuð í bland fornligur. Sagt var, að eitt sinn, þá hann kom út um kvöld, var þar bjarndýr undir veggnum, og þá kvaddi karl það með þessum orðum: Ef þú skilur mannsmál, þá farðu í burt í J(esú) Kr(ists) nafni, og lötraði þá bangsi þaðan.

Bréf GP I, bls. 393.

Upphaf bréfs til séra Ólafs Einarssonar, prófasts á Ballará, 1784:

Má það yfir margan gengur, er forn orðskviður, og so verður að segja hvörja sögu sem gengur, hljóðar annar; hvað eg nú heimfæri til míns eigin nærverandi ástands, þar sem auk undanfarins langvarandi báginda stríðs í búskaparlaginu, ei síður fyrir mér en öðrum, nú loksins á nærst afliðnum vetri féll í grunn niður það lítið, sem eg og mínir áttu við að styðjast af lifandi peningi, sem nú vill verða ómögulegt aftur að fá, einkum þar vantar öll efni til kvikfjár innkaups, so við nokkra búskapar mynd haldið geti eða látið manneskjur (þó í færsta lagi væri) til fyrirvinnu hjá mér vera, sem eg þó stórum meðþyrfti, einkum þar kona mín háöldruð orðin er ei einasta frá verkum og umsjón innanstokks, heldur og so af vissu þungu áfalli sína lífstíð sjáanlega karlæg. Ei fæst heldur í þessari óárs tíð neinn bóndi til að búa hér á staðnum og mig með konu og kapellán í húsmennsku taka. Þar fyrir eru það nú mín úrræði í Herrans nafni, þar ei hæfir þegjandi frá að ganga slíkum hlutum, að segja mig aldeilis frá staðnum so sem bjargþrota fyrir mig og mína.

Bréf GP I, bls. 425-426.

Úr bréfi til Gríms Thorkelíns í Kaupmannahöfn 1784:

Nú sýnir sig hvar komið er, þar eg em búinn mig frá kallinu að segja, hafandi öngva skepnu við að styðjast og öngvan fiskugga frá sjó nú í ár og ei enn vitandi, hvar í vetur kann fá mér niður komið, og kona m(ín) þar fyrir utan karlæg. Og þetta er þá ávöxturinn minnar þénustu, hvað ei er undra, þótt einhverjir kynni til orða taka. En þótt verkið hafi ei mikið verið, hefir samt mátt fyrir það eitt og annað til síðu setjast og ólíkt fyrir sælan eður vesælan við að fást.

Bréf GP I, bls. 429.

Heimildir:

Bréf Gunnars Pálssonar. II. Athugasemdir og skýringar (Rv. 1997), sjá t.d. tilvísanir við æviágrip á bls. 9-14. Einnig er margt tekið úr fyrra bindi bréfanna (Rv. 1984) og auk þess úr ýmsum öðrum heimildum, sem of langt yrði að rekja hér.

Höfundurinn, 1926-2000, var mag.art. og lengst af skjalavörður á Þjóðskjalasafni.