Sigrún Jónsdóttir fyrir framan Skaftfelling VE, en grind hefur verið reist  yfir dekkið og plast breitt yfir.
Sigrún Jónsdóttir fyrir framan Skaftfelling VE, en grind hefur verið reist yfir dekkið og plast breitt yfir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vestmannaeyjum -Vélbáturinn Skaftfellingur sem í eina tíð var gerður út frá Vestmannaeyjum og var í eigu Helga Benedikssonar hefur alla tíð átt hug og hjarta Kirkjulistakonunnar Sigrúnar Jónsdóttur sem er Skaftfellingur í húð og hár.
Vestmannaeyjum -Vélbáturinn Skaftfellingur sem í eina tíð var gerður út frá Vestmannaeyjum og var í eigu Helga Benedikssonar hefur alla tíð átt hug og hjarta Kirkjulistakonunnar Sigrúnar Jónsdóttur sem er Skaftfellingur í húð og hár.

Listakonan sagði að áhugamannafélag Skaftfellings vildi fá skipið heim í Vík eins og Sigrún orðaði það en hún er fædd í Vík og segist því vera þorpari. Sigrún sem sjálf hefur barist fyrir verndun Skaftfellings í 30 ár og á þeim tíma tvisvar fengið banvænt krabbamein, segir að hún og Skaftfellingur eigi það sameiginlegt að þau verði ekki felld svo auðveldlega.

Kristján Ólafsson hefur séð um að hreinsa bátinn og þrífa til að varna enn frekari skemmdum. Hann segir að fljótlega verði tekin ákvörðun um hvenær hægt verði að koma skipinu austur í Vík. Eftir allan þennan óratíma í slippnum hefur hann látið mikið á sjá. Lokað hefur verið fyrir stærstu rifurnar á bátnum og grind reist yfir dekkið klædd plasti og neti.

Eldhugur Skaftfellinga með Sigrúnu Jónsdóttur í broddi fylkingar er engu líkur og þegar hefur hópurinn fengið hús undir bátinn í Vík. Það er gamla Kaupfélagspakkhúsið sem stendur við hlið á Bryde-safninu. En það er ekki ljóst enn hvernig báturinn verður fluttur enda stór 80 tonna bátur og honum er ekki hent milli staða.

Kirkjulistakonan Sigrún Jónsdóttir átti fleiri erindi til Eyja en að líta eftir Skaftfellingi. Hún var hér á ferð ásamt rithöfundinum Þórunni Valdemarsdóttur, sem hefur nýlokið við að skrifa ævisögu listakonunnar sem ber heitið. "Engin venjuleg kona." Þær stöllur notuðu ferðina til að lesa upp úr bókinni í Akoges húsinu þar sem listakonan sat fyrir svörum áheyrenda. Bókin kom út um miðjan nóvember og er óhætt að segja að hún beri nafn með rentu.