Kópavogskirkja - Kirkjan á Borgunum.
Kópavogskirkja - Kirkjan á Borgunum.
Frelsi til skoðana, tjáningar og trúar er hornsteinn nútíma þegnréttar. Stefán Friðbjarnarson staldrar við trúfrelsi og íslenzkt samfélag.

OFT er vitnað til hinnar fornu lögbókar þjóðarinnar, Grágásar, sem rituð var nálægt árinu 1250. Til hennar er litið sem lagasafns þjóðveldisins. Fyrst og fremst í þessari fornu lögbók er Kristinna laga þáttur. Þar standa þessi athyglisverðu orð:

"Það er upphaf laga vorra að allir menn skulu kristnir vera á landi hér og trúa á einn Guð, föður og son og heilagan anda."

Þessi texti kemur heim og saman við lög er Þorgeir Ljósvetningagoði las upp á Lögbergi við Öxará á Jónsmessu árið 1000. Þar og þá var fest í lög "að allir menn skyldu kristnir vera og skírn taka..." Ljósvetningagoðinn taldi það forsendu friðar í landinu að Íslendingar hefðu "ein lög og einn sið".

Kristni hefur í þúsund ár mótað til góðs menningu okkar og löggjöf - mannúð og réttlætiskennd. Það er fátt mikilvægara, ef nokkuð, en að varðveita kristið leiðarljós þjóðarinnar á vegferð hennar inn í framtíðina, inn í nýtt árþúsund, sem nú er hafið.

En "margt hefur breytzt frá því byggð var hér reist" segir í ljóði Davíðs Stefánssonar. Ísland í dag er allt annað en það var frá upphafi byggðar og fram undir 20. öldina. Meðal þess sem breytzt hefur er "samsetning" landsins barna.

Hingað hefur flutzt fjöldi fólks úr flestum heimshornum. Fólk með aðra siði, aðra menningu, önnur trúarviðhorf. Það er ekki við því að búast að allir þessir nýju landsmenn axli kvaðir fornra laga, þess efnis, að allir menn "skuli kristnir vera og skírn taka".

Okkur er skylt að virða menningar- og trúarviðhorf sérhverrar mannesku sem fer með friði og að lögum í samfélagi okkar. Sú skylda styðst við samtíma landslög. Sem og við almenn mannréttindi, sem samfélag þjóðanna virðir hvarvetna í orði og víðast hvar einnig á borði. Frelsi til skoðana, tjáningar og trúar er hornsteinn lýðræðis og þegnréttar. Sú kvöð að virða menningar- og trúarviðhorf annars fólks helgast þó fyrst og síðast af kristnu viðhorfi til náungans, hver sem hann er, hvaðan sem hann kemur og hver sem menningarlegur bakgrunnur hans er.

Fjarskipta- og samgöngutækni nútímans hefur galopnað íslenzkt samfélag fyrir utanaðkomandi "menningarstraumum". Fjölmargt - máski flest - hefur nýtzt okkur til góðs. Það hefur t.d. reynzt vel hve víða, austan hafs og vestan, Íslendingar hafa leitað fanga í sérhæfðu námi margs konar. Breiddin og arðsemin í hæfni og þekkingu fólks er umtalsvert meiri fyrir vikið. Fjölmargir Íslendingar af erlendu þjóðerni - trúlega flestir - hafa og reynzt hinu nýja föðurlandi sínu nýtir þegnar. En í innstreymi erlendra áhrifa - við mót árþúsunda - gætir einnig göróttra fyrirbrigða, sem sporna þarf duglega gegn. Eiturlyf, ofbeldi og ofstæki hafa færzt í aukana. Eru nánast síbylja í aðkomnu sjónvarpsefni.

Við eigum, sem fyrr segir, að virða mannréttindi sérhverrar manneskju, m.a. menningar- og trúarviðhorf hennar. Við eigum að umgangast annað fólk með sama hætti og við viljum að það umgangist okkur. Við sækjum menntun, atvinnu og afþreyingu til nánast allra heimshorna. Og á síðustu áratugum hafa þúsundir Íslendinga sezt að til skemmri dvalar eða framtíðarbúsetu erlendis, einkum á Norðurlöndum, en jafnframt í fjærstu heimshornum, t.d. Ástralíu. Afkomendur Íslendinga, sem fluttust til Bandaríkjanna og Kanada á síðustu áratugum 19. aldar, eru trúlega yfir eitt hundrað þúsund í dag. Það á því ekki að koma neinum í opna skjöldu þótt hið gagnstæða beri við, að utanaðkomandi fólk kjósi að setjast að á landinu bláa. Það á ekki að raska ró okkar, ef með friði er farið og landslögum fylgt.

Breyttar aðstæður gera á hinn bóginn auknar og brýnni kröfur til okkar sem Íslendinga. Við verðum að slá skjaldborg um íslenzka menningararfleifð, íslenzka tungu og íslenzk þegnréttindi. Við verðum að standa traustan vörð um kirkju og kristni í landinu - mannúð og miskunnsemi, sem móta eiga samfélag okkar.

Það er upphaf laga okkar, segir í hinni fornu lögbók, Grágás, að landsmenn skuli kristnir vera og trúa á einn Guð - föður, son og heilagan anda. Það forna leiðarljós, sem í þessum orðum felst, þarf að ganga boðleið frá kynslóð til kynslóðar. En því aðeins erum við kristin í raun og sann að við virðum mannréttindi, menningar- og trúarviðhorf annars fólks, jafvel þótt viðhorf þess séu önnur en okkar.