ERYKAH Badu vakti gríðarlega athygli fyrir fyrstu breiðskífu sína Baduizm sem kom út fyrir rúmum þremur árum.

ERYKAH Badu vakti gríðarlega athygli fyrir fyrstu breiðskífu sína Baduizm sem kom út fyrir rúmum þremur árum. Hún þótti stinga í stúf við það sem aðrar R&B söngkonur höfðu fram að færa um það leyti, tónlistin innihaldsríkari og fjölbreyttari og söngurinn framúrskarandi. Það tók Badu þrjú ár að ljúka við næstu skífu, Mama's Gun, sem kom út í haust.

Baduizm sló rækilega í gegn og Badu segir frægðina hafa góðar hliðar og slæmar; þær slæmu eru meðal annars að skyndilega er hún undir smásjá fjölmiðla sem láta hana ekki í friði, en á móti kemur að hún hefur peninga til að gera það sem henni sýnist, þar á meðal taka sér tíma til að annast um son sinn Steve sem hún átti með Dre út OutKast. Hún tók sér þannig tveggja ára hlé frá tónlist að miklu leyti og eyddi tímanum með Steve, en segist þó hafa verið með hugann við verkið allan tímann.

Baduizm kom út fyrir þremur árum, en til að halda mönnum við efnið sendi Badu frá sér tónleikaskífu sem þótti sérdeilis vel heppnuð. Hún segir að hún hafi löngu verið farin að spá í nýja hljóðversskífu en það hafi tekið sinn tíma, meðal annars var hún með drenginn á brjósti og vildi njóta þess sem lengst og svo taki það hana jafnan tíma að koma tónhugsun sinni frá sér þar sem hún kunni ekki að skrifa út tónlist og lesa nótur. "Þar sem ég sem lögin og sé um allar útsetningar sjálf, tekur það mig tíma að koma því til skila hvernig ég vilji að lögin hljómi."

Eins og getið er hefur frægðin haft óþægindi í för með sér fyrir Badu, ekki síst eftir að hælbítar fóru á kreik því margur hefur legið henni á hálsi fyrir ímyndina og sakað um sölumennsku. Hún svarar jóssinu fullum hálsi, meðal annars á skífunni, en þar tekur hún einnig samband sitt við Dre fyrir á opinskáan hátt.