Michael Jackson. Ný plata í vor ef veður leyfir.
Michael Jackson. Ný plata í vor ef veður leyfir.
HINN sjálfkrýndi konungur poppsins, sjálfur Michael Jackson, mun gefa út glænýja hljóðversskífu í vor. Titilslaus er hún sem stendur en síðasta plata Jackson sem innihélt einungis nýtt efni kom út fyrir heilum átta árum - platan Dangerous .

HINN sjálfkrýndi konungur poppsins, sjálfur Michael Jackson, mun gefa út glænýja hljóðversskífu í vor. Titilslaus er hún sem stendur en síðasta plata Jackson sem innihélt einungis nýtt efni kom út fyrir heilum átta árum - platan Dangerous. Plötuna nýju vinnur hann með upptökustjóranum Rodney Jerkins, sem hefur getið sér orð innan R'n'B-tónlistargeirans fyrir skeleggt takkafikt en hann hefur unnið með stjörnum eins og Mary J Blige, Whitney Houston, Jennifer Lopez og Will Smith. Jerkins er hæstánægður með að vinna með goðsögninni. "Þetta er ótrúlegt. Maður hefur unnið með fjölmörgum listamönnum sem eru að reyna að ná í hans hæðir en í þetta skiptið er ég að vinna með manninum sjálfum! Þetta er búið að vera afar lærdómsríkt - lykilorðið hér er "þolgæði". Við erum búnir að vinna að þessu í tvö ár og ég er ekki nándar nærri orðinn þreyttur - enn."

Haft var eftir Michael sjálfum að hann hefði spilað sex lög af plötunni fyrir yfirmenn Sony Music og þeir hefðu verið í skýjunum - klappað og hvað eina.

Platan er væntanleg í vor en takið öllu með fyrirvara, kæra fólk. Jackson er þekktur fyrir fullkomnunaráráttu og allt getur breyst með minnsta fyrirvara.