Ólafur Hjálmarsson
Ólafur Hjálmarsson
Á sviði byggingarverkfræðinnar stendur upp úr, segir Ólafur Hjálmarsson, sú hugkvæmni og það verksvit sem beitt var við geysilega erfiðar grundunaraðstæður í miðborg Berlínar.

MJÖG fróðlegt hefur verið að fylgjast í návígi með gífurlegri uppbyggingu nýrrar höfuðborgar Þýskalands á liðnum árum. Engum blöðum er um það að fletta að margt hefur verið stórvel gert, annað heldur síður eins og gengur, þó auðvitað ráði persónulegur smekkur nokkru um slíkt mat. Á sviði byggingarverkfræðinnar stendur upp úr sú hugkvæmni og það verksvit sem beitt var við geysilega erfiðar grundunaraðstæður í miðborg Berlínar. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að hér hafi hreinlega ný fræðigrein innan verkfræðinnar verið innleidd. Vegna gömlu byggðarinnar sem stendur að verulegu leyti á gömlum tréstaurum svo og vegna gróðursins í náttúruvininni Tiergarten mátti svo til ekkert eiga við grunnvatnsborð sem er um 1 til 2 m undir jarðvegsyfirborði. Þegar haft er í huga að grunnar margra nýbyggginga náðu um 30 til 40 m niður í grunnvatnið má hverjum manni vera ljós sá vandi sem við var átt í þéttri byggð og því ánægjulegt að verða vitni að því hversu vel til tókst. Af þessari sögu að dæma er verk- og tæknifræðingum fyllilega treystandi til þess að takast á við ný og krefjandi verkefni á nýrri öld.

Önnur málefni tengd uppbyggingunni fundust greinarhöfundi ekki jafn ánægjuleg og urðu þau m.a. hvati þessara hugleiðinga um hvert stefni og hvaða vinnuumhverfi bíði tæknimanna framtíðarinnar. Það voru ekki einungis erfiðar grundunaraðstæður sem verkfræðingar hér í Berlín áttu við að glíma. Við endurbætur gömlu bygginganna, sérstaklega í austurborginni, fundust ekki teikningar sem gátu hafa tapast í stríðinu. Verra gat þó verið þegar engar teikningar fundust af síðari tíma breytingum. Á tímum skiptingar þýsku ríkjanna voru þær á tíðum unnar af vanefnum. Af þessu leiddi töluverð óvissa við hönnun og upphaf framkvæmda.

Eins og gefur að skilja gat margur og ófyrirséður vandi komið upp við framkvæmdir, sem taka þurfti á af skynsemi og festu. Góð samvinna á byggingarstað var því sérstaklega mikilvæg. Vikulegir verkfundir eru ákjósanlegur staður til þess að taka slík mál upp og koma til leiðar. Við margar opinberu byggingarnar sem stjórnin (þá í Bonn) stóð að, var þessum vettvangi ekki að heilsa. Ástæðan var sú að af hálfu verkkaupa var meiri áhersla lögð á að senda sérfræðinga í kostnaðareftirliti og byggingarrétti til funda. Skýringin kann að hafa verið opinber gagnrýni á sólundun almannafjár í fjárfrekar framkvæmdir. Hér voru ekki verk- eða tæknifræðingar á ferðinni heldur gátu á sama verkfundinum setið allt að þrír lögfræðingar fyrir hönd verkkaupa. Af sjálfu leiðir að þessir ágætu menn og konur voru engir sérfræðingar í að leysa erfið verkfræðileg viðfangsefni sem upp hlutu að koma, og því vildu verkfundir snúast um eitthvað allt annað en kjarna vandans og lausn hans.

Lögfræðingarnir vildu eðlilega vinna fyrir kaupinu sínu og fundu þeir leið til þess: Með tilvísun í lög og reglugerðir um skyldur og ábyrgð hönnuða var tilkominn vandi algerlega á þeirra ábyrgð og skyldu þeir því leysa hann, sem í sjálfu sér var eðlilegt að ætlast til, í samvinnu við verktaka. Verra var hins vegar að án viðhlítandi skilnings á eðli vandans, töldu lögmennirnir fulla ástæðu til þess að verkfræðiráðgjafar veittu afslátt af þóknun sinni fyrir slæleg vinnubrögð og fyrir að hafa ekki fylgt tilteknum reglugerðum til hlýtar. Um þetta var deilt og varð því lítið úr verkfundum. Hin raunverulegu vandamál þurfti því að leysa annars staðar. Líkum má að því leiða að hliðstæðar aðstæður geti beðið íslenskra tæknimanna á nýrri öld.

Geta staðlar komið í stað hönnunar?

Samfélagið á að gera miklar kröfur til tæknimanna og ætlast til þess að þeir vandi til vinnu sinnar því miklir fjármunir, jafnvel mannslíf, eru í húfi kasti þeir til höndum. Bregðist þeim bogalistin eiga þeir að sjálfsögðu að vera bótaskyldir. Það fer þó ekki hjá því að inngangsorð veki spurningar um tilgang byggingarlaga, staðla og reglugerða og hvort löggjafinn hafi ætlað að þeim yrði beitt af hvílíku skilningsleysi.

Þjóðverjar hafa verið öðrum duglegri við að smíða staðla og reglugerðir utan um byggingariðnaðinn. Það er ekkert leyndarmál að til þess að hanna brú hér í landi, þyrfti hönnuður að lesa í hálft ár, bara til þess að komast í gegnum staðlana og reglugerðirnar sem um brúarsmíði gilda. Það gerir náttúrulega ekki nokkur maður enda verður engin brú byggð úr tómum bókstöfum. Til þess þarf hug- og verksvit. Staðlar geta aldrei verið annað en til stuðnings og það þarf þekkingu og skilning á náttúruöflunum til þess að beita þeim fróðleik sem í þeim er að finna.

Yfirvöld í Þýskalandi virðast líta málið öðrum augum. Þannig fjölgar þeim sem telja að með hérlendum reglugerðum og stöðlum hafi verið gengið of langt og renna því margir hýru auga til sameiginlegra Evrópustaðla. Hættan er nefnilega sú, eins og ágætur prófessor hér í Berlín sem hannað hefur á annan tug brúa í Þýskalandi benti á, að gengið sé of langt; litið svo á að hönnuður hafi brotið af sér, hafi hann ekki fylgt oft á tíðum misvísandi reglugerðum í þaula. - Jafnvel þótt ekkert sé út á hönnun hans og fullbúið mannvirki að setja. - Prófessorinn nefndi dæmi af eigin verkum sem gengið höfðu að óskum en síðar hefði hann séð, jafnvel fengið ábendingar frá kollegum þar að lútandi, að hann hefði brotið ýmis reglugerðarákvæði við útfærslu og hönnun. Með skilningi lögfræðinganna sem að framan getur ætti nú nefndur prófessor að greiða skaðabætur eða lækka þóknun sína. Þar er ekkert spurt um hvort mannvirkið sé vel eða illa hannað. Aðalatriðið er að ákvæði reglugerða voru ekki uppfyllt, jafnvel þótt vitað sé að ýmis þeirra stangist á.

Annað mál þessu tengt og í raun mun alvarlegra. Sú blinda bókstafstrú sem hér er til umræðu er mikill dragbítur framfara. Mörg dæmi eru um að hönnuðir treysti sér ekki til þess að brydda á skynsamlegum nýjungum sökum óhemjukostnaðar við að láta þrautreyna þær á sérstökum viðurkenndum stofnunum eða af ótta við skaðabótakröfur. Það er því æði oft gripið til lausna gærdagsins. Í mörgum tilvikum skikka jafnvel verkkaupar hönnuði til þess að nota þær í hönnun sinni. - Hvernig skyldi iðnbyltingin hafa gengið fyrir sig í slíku umhverfi og ætli veröldin væri ekki nokkru einhæfari ef allir væru steyptir í sama mót og nægði að endurbyggja mannvirki gærdagsins? Og það sem verst er: Í slíku umhverfi er list ekki til!

Nokkrir erlendu arktitektanna sem tóku þátt í uppbyggingunni í Berlín rákust á veggi þýsku reglugerðanna við sköpun sína og þurftu að breyta henni til verri vegar. Sem dæmi má nefna Lafaeyette-bygginguna við Friedrichstrasse og Sony-Center við Potzdamer Platz. Í báðum tilvikum snerist málið m.a. um að samkvæmt þýskum stöðlum er gler óburðarhæft byggingarefni. Þar breytir engu þótt Bandaríkjamenn hafi sýnt fram á annað fyrir a.m.k. 15 til 20 árum. Það er kaldhæðni örlaganna að Þjóðverjar lentu síðar af sömu ástæðu í því að geta ekki byggt verðlaunatillögu að þýska skálanum fyrir heimssýninguna í Hannover. Hinar þátttökuþjóðirnar lentu sömuleiðis í fjölmörgum árekstrum þar sem fullgild vinnubrögð heima fyrir voru ekki tekin góð og gild af þýskum embættismönnum.

Enginn skal fara í grafgötur með að mikil reynsla liggur að baki þýsku stöðlunum og þar er að finna óhemju mikinn fróðleik. Það verður hins vegar að kunna með hann að fara. Stöðlun má ekki þýða stöðnun.

Nýir Evrópustaðlar

Áður er vikið að því að ófáir þýskir tæknimenn, og reyndar miklu fleiri, bundu töluverðar vonir við Evrópuvæðingu byggingarstaðlanna. Með henni væri hægt að koma mörgu til betra horfs, auka svigrúm og þar með möguleika til samkeppni og síðast en ekki síst; koma þegar áunninni þekkingu betur að. Margt hefur verið vel gert. Of margt veldur hins vegar áhyggjum.

Þegar blásið var í lúðra sameinaðrar Evrópu voru fremstu sérfræðingar álfunnar kallaðir til að búa henni hæfandi lagaumgjörð. Það gilti um byggingariðnaðinn sem önnur svið mannlífsins. Til þess að gera sameiginlegt efnahagssvæði að veruleika, hvar allir skyldu hafa jafna möguleika, var þörf á samræmingu. Að sjálfu leiðir, það var ekki auðvelt verk.

Á þeim sviðum sem greinarhöfundur hefur haft tækifæri til að fylgjast með hefur margt verið fært til betri vegar með nýjum Evrópustöðlum. Þar veldur hins vegar áhyggjum að stærri og stærri hluti framsettrar þekkingar er byggður á beinum niðurstöðum tilrauna og sömuleiðis er í ákveðnum tilvikum óheppilegt að í stöku grundvallaratriðum er litið á Evrópu sem eitt veðurfars- og álagssvæði. Hér eru stórar fullyrðingar á ferðinni og skal því málið betur skýrt.

Vegna takmarkaðra auðlinda er eðlilegt að kröfum um aukna hagkvæmni sé mætt með efnissparnaði. Í byggingariðnaði er því gengið nær byggingarefnum en áður var. Til þess að gera það mögulegt er tilrauna þörf. Og eðlilega fylgja staðlar kröfum samtíðar. Það er hins vegar alveg ómöguleg þróun að ný þekking og nýir staðlar byggi alfarið á bestunarlínum við tilraunaniðurstöður. Jafnvel þótt í fljótu bragði sýnist nokkuð megi með því vinna. Þaulseta nefndarmanna endar örugglega með formúlum sem lýsa prófunarniðurstöðum hið allra besta. Hvað hjálpar það hins vegar hinum starfandi verk- eða tæknifræðingi? Jú, hafi hann í hyggju að byggja nákvæmlega samskonar mannvirki og undir nákvæmlega sama álagi og prófað var, þá er hann í góðum málum. En hvað nú ef mannvirkið sem tæknimaðurinn glímir við fær annað álag á sig og lítur öðru vísi út? Hvað hjálpa þá tilraunaniðurstöður sem ekki eiga við? Gæti jafnvel farið svo að tæknimaðurinn átti sig ekki á mismuninum og beiti samt sem áður nefndum staðalákvæðum?

Hér eru mörg ef á ferðinni. Sannleikur sögunnar lýgur hins vegar ekki. Mörg verstu og mannfrekustu verkfræðimistök sögunnar má rekja til ónógs skilnings. Þeirri staðreynd má ekki gleyma. Í tækninámi verður því aldrei of rík áhersla lögð á skilning á náttúrunni og lögmálum hennar. Það þykir þeim miður sem hér skrifar að ekki sé í ríkari mæli reynt að smíða tilgátur sem byggjast á dýpri skilningi en tölfræðilegri greiningu tilraunaniðurstaðna - Með fullri virðingu fyrir tölfræðinni - Til þess að dýpka skilning er tilgáta nauðsynleg. Réttmæti hennar má sannreyna eða afsanna með tilraunum. Í eðli sínu er tilgáta miklu almennari en nokkur tilraunaniðurstaða. Í því felst skilningurinn.

Vonin um aukna hagsæld og bætt mannréttindi er drifkraftur samræmdrar löggjafar Evrópu til jöfnunar aðstöðumunar og þar með aukinnar samkeppni. Hugsjónin er góð. Hún gengur hins vegar ekki með því að líta svo á að Evrópu megi lýsa sem meðaltali efnahagsrisanna í kringum Brussel. - Grískar aðstæður séu að jafnaði eins og þær íslensku, þær norsku eins og þær portúgölsku o.sv.frv. - Þegar náttúruöflin eru annars vegar getur slíkur meðaltalsreikningur verið banvænn, eins og hið hörmulega slys á Alexander Kjelland-borpallinum ætti að leiða flestum tæknimönnum fyrir sjónir. Flestir Íslendingar vita að járni er hættara í kulda og trekki en við glæðurnar, enda Íslandssagan full af frásögnum sem staðfesta það. Engu að síður fór svo í nýjum Evrópustaðli fyrir stálvirki (sem fyrir allnokkru var lögfestur á Íslandi), að fyrir köldu svæðin í Evrópu voru kröfur til efniseiginleika stáls ekki nógu strangar. Þar virðist hafa ráðið meiru að leyfa öllum að vera með fremur en að tryggja mannslíf í Norðurhöfum sem tæknilega þarf ekki að kosta meira og ekkert er til fyrirstöðu. Af biturri reynslu hlustar Statoil í Noregi ekki á slíkt og kaupir aðeins stál sem framleitt er eftir eigin stöðlum. Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg?

Niðurlag

Í inngangsorðum er skýrt frá þeirri hugkvæmni og því verksviti sem tæknimenn reyndust megnugir að hrista fram úr erminni við uppbyggingu Berlínar. Á opnu hafi, þ.e. án nokkurra viðhlítandi byggingarstaðla eða reglugerða, þróuðu þeir skilvirkar og öruggar vinnuaðferðir við ótrúlega erfiðar grundunaraðstæður. Það er ekki nokkur vafi í huga greinarhöfundar að tæknimönnum er treystandi til þess að leysa ný og krefjandi verkefni nýrrar aldar. Almennt eru þeir vel meðvitaðir um ábyrgð sína og mikilvægi starfa sinna í þágu almannaheillar. Það er því miður hversu lítill gaumur störfum þeirra er gefinn.

Það má aldrei verða að staðall verði fremur til að tryggja hagsmuni úreltrar framleiðslu eða framleiðlsuaðferða en almannahag. Áður er sagt frá kröfum samfélagsins til aukinnar hagkvæmni og svari yfirvalda með nýjum stöðlum. Með auknu vægi tilrauna hafa mörg fyrirtæki séð sér leik á borði og látið þrautreyna eða votta framleiðslu sína og í kjölfarið fengið gæðastimpil staðlanna. Frá sjónarhorni leikmannsins er um algóða vöru að ræða, en eðli málsins samkvæmt er hún í sumum tilvikum góð, í öðrum á hún alls ekki við. Við verðum því að treysta menntun og þekkingu tæknimanna til að greina þar á milli.

Höfundur er verkfræðingur.