Jón Páll fer með tvö hlutverk í uppsetningu Young Vic leikhússins á Skyttunum þremur.
Jón Páll fer með tvö hlutverk í uppsetningu Young Vic leikhússins á Skyttunum þremur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ungur íslenskur leikari stendur nú á sviði eins virtasta leikhúss Lundúna þar sem hann staðfestir með framgöngu sinni fyrirfram gefnar hugmyndir útlendinga um hina sérkennilegu, náttúrulegu orku Íslendinga. Sigríður Dögg Auðunsdóttir hitti hann að máli í heimsborginni.

JÓN Páll Eyjólfsson fer nú með hlutverk í viðamikilli sýningu á "Skyttunum þremur" í einu virtasta leikhúsi Lundúna, Young Vic, sem stofnað var fyrir tilstuðlan Sir Lawrence Olivier fyrir um þrjátíu árum. Jón Páll lauk námi í leiklistarskólanum East 15 í Lundúnum sl. sumar og er hlutverk hans sem hertogans af Buckingham í Skyttunum þremur fyrsta hlutverk hans að lokinni útskrift en auk þess fer hann með lítið hlutverk sem einn af skylmingaþrælum kardinálans í sömu uppsetningu.

Aðspurður segist Jón Páll yfir sig ánægður með að hafa verið ráðinn í sýninguna enda sé afar þýðingarmikið fyrir unga leikara að fá að taka þátt í verkefnum hjá jafnþekktum leikhúsum og Young Vic svo skömmu eftir útskrift. Margir af þekktustu leikurum Bretlands hafa hafið feril sinn á Young Vic og er jafnan fylgst vel með leikurum sem tekið hafa þátt í uppsetningum leikhússins. Vonast Jón Páll því til þess að þátttaka sín í Skyttunum þremur opni honum einhverjar dyr í leikhúslífi borgarinnar.

Við æfingar verksins var haldið til í mjög vinsælu æfingahúsnæði í nálægð við leikhúsið þar sem þekktir leikarar á borð við bandarísku leikkonuna Jessicu Lange æfðu rullur sínar. "Það var óneitanlega skemmtilegt að fara í mat og kaffihlé og hitta fyrir í mötuneytinu leikara sem maður hefur dáðst að alla sína tíð og lítur upp til," segir Jón Páll.

Hann segir íslenskuna alls ekki hafa verið sér fjötur um fót í leiklistinni í London og að hann hafi aldrei hlotið gagnrýni fyrir íslenska hreiminn sem ómögulegt sé þó að forðast fullkomlega. "Það kemur alltaf eitthvað til með að vega upp á móti skortinum á fullkomnun tungumálsins," segir hann. "Norrænir leikarar, og þá ekki síst íslenskir, virðast eiga mun auðveldara með að sýna tilfinningar á sviði en til að mynda breskir leikarar. Mér hefur verið sagt að einhver sterk og mikil orka fylgi okkur, einhvers konar sérkennileg og náttúruleg orka. Ég andmæli því alls ekki og stend í þeirri trú að Íslendingar búi í eðli sínu yfir sérkennilegri blöndu af ákveðni og sveigjanleika," segir hann af nokkrum sannfæringarkrafti. "Okkur hefur verið lýst sem hrjúfum á yfirborðinu, en að jafnframt sé grunnt inn að kviku og nýtist sá eiginleiki eflaust vel í leiklistinni. Fjöldi þeirra leikstjóra sem ég hef unnið með í skólanum og svo leikstjóri verksins sem ég tek þátt í nú hefur sagt að það einkenni okkur sem leikara hversu auðvelt við eigum með að opna okkur á sviðinu. Hve létt það virðist fyrir okkur að láta skína í kvikuna og láta tilfinningarnar flæða."

Íslenskar bókmenntir þær bestu í heimi

Þegar hann er spurður um draumahlutverkið brosir hann við og segir að öll hlutverk eigi að vera draumahlutverk leikarans. "Er ekki sagt að það séu engin lítil hlutverk til, bara litlir leikarar?" svarar hann. "Að öllu gamni slepptu held ég að málið sé að beina orkunni fram á við og takast á jákvæðan hátt við hvert eitt það hlutverk sem manni er fengið." Hann segist samt ekki geta neitað því að hann dreymi um að taka þátt í stóru íslensku verki og óskahlutverk hans væri eitthvert íslenskt safaríkt illmenni, eins og hann orðar það.

"Ég var sífellt að ota íslenskum bókmenntum að kennurunum mínum í leiklistarskólanum í von um að þeir hrifust af og settu á svið. Ég mun halda áfram að reyna að stuðla að aukinni vegsemd íslenskra bókmenntaverka enda um bestu bókmenntir heims að ræða," segir hann, ákaflega fylginn sér.

Jón Páll hefur reyndar ekki látið mikið á sér kræla í íslensku leikhúslífi til þessa en eftir útskrift sína úr leiklistarskólanum í vor hélt hann til Akureyrar þar sem hann aðstoðaði við uppsetningu á samstarfsverkefni Leikfélags Akureyrar og Óperu Norðurlands. "Ég hef þó verið að troða upp alla mína ævi," segir hann, "og hef ávallt haft mikinn áhuga á leiklist. Ég tók þátt í öllum skólaleikritum sem ég mögulega gat og var einnig þátttakandi í áhugaleikhópum." Hann reyndi eitt sinn við inntökupróf í Leiklistarskóla Íslands og komst í 16 manna úrtak. Þegar hann var ekki í hópi átta útvaldra ákvað hann því að stefna að því að nema leiklist í London. Vorið 1997 hóf hann síðan nám í East 15-leiklistarskólanum í London en auk hans numu við skólann Íslendingarnir Sigurður Eyberg og Magnús Valdimarsson Danks sem starfa nú einnig við leiklist í London.

Leiksýningar eiga ekki að vera andleg þrekþjálfun áhorfenda

Jón Páll er fyrsti Íslendingurinn sem fær hlutverk á fjölum Young Vic en leikfélag hússins hefur sett upp fjöldann allan af verðlaunasýningum sem fengið hafa mikla aðsókn og jákvæða gagnrýni. Árlega eru settar upp jólasýningar í leikhúsinu þar sem ekkert er til sparað í umgjörð og efnum enda eru þær einn hápunkta leikársins breska, Skytturnar þrjár eru jólasýning þessara jóla og munu sýningar standa út janúar. Að sögn Jóns Páls er ósjaldan farið með jólasýningar Young Vic í leikferð, ekki eingöngu um Bretland heldur oft um heim allan, en ekki hefur enn verið afráðið hvert haldið verður með Skytturnar þrjár.

Hann segist aðhyllast leikhús í anda Young Vic, þar sem enginn greinarmunur er gerður á sýningum fyrir börn og fullorðna. "Leiksýningar eiga að höfða til allra aldurshópa og geta skemmt fólki á hvaða aldri sem það er. Þær eiga ekki að vera andleg þrekþjálfun áhorfenda heldur miklu fremur skemmtun sem hentar öllum. Ég er ekki sérstaklega hlynntur því að setja upp sérstakar sýningar fyrir börn og tel þær hreinlega móðgun við andlegan þroska þeirra. Ég efast jafnvel um að börn skemmti sér sérstaklega vel á slíkum sýningum."