Þrír ungir vísindamenn fengu viðurkenningar fyrir störf sín á ráðstefnu um rannsóknir í læknadeild Háskóla Íslands. Frá vinstri: Marta Guðjónsdóttir, Håvard Jakobsen og Ragnhildur Þóra Káradóttir.
Þrír ungir vísindamenn fengu viðurkenningar fyrir störf sín á ráðstefnu um rannsóknir í læknadeild Háskóla Íslands. Frá vinstri: Marta Guðjónsdóttir, Håvard Jakobsen og Ragnhildur Þóra Káradóttir.
ÞRÍR ungir vísindamenn fengu viðurkenningar fyrir störf sín í lok ráðstefnu um rannsóknir í læknadeild Háskóla Íslands sem haldin var í Odda 4. og 5. janúar.

ÞRÍR ungir vísindamenn fengu viðurkenningar fyrir störf sín í lok ráðstefnu um rannsóknir í læknadeild Háskóla Íslands sem haldin var í Odda 4. og 5. janúar. Marta Guðjónsdóttir, sem lýkur senn doktorsprófi í klínískri lífeðlisfræði, og Ragnhildur Þóra Káradóttir, sem er að hefja doktorsnám í taugalífeðlisfræði, fengu hvatningarverðlaun til heiðurs Jóhanni Axelssyni, prófessor emeritus, en verðlaunin eru styrkt af lyfjafyrirtækinu Novartis-Thorarensen lyf. Þá fékk Håvard Jakobsen, doktorsnemi við læknadeildina, verðlaun menntamálaráðherra.

Marta og Ragnhildur Þóra fengu 100 þúsund krónur hvor og afhenti Jóhann verðlaunin, sem veitt eru ungum vísindamanni sem hefur unnið að rannsóknum með framúrskarandi hætti í lífeðlisfræði eða skyldum greinum. Hann sagði að hágæðavinna, sjálfstæði og brautryðjendakraftur einkenndi vinnubrögð vísindamannanna.

Marta lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands og árið 1995 hóf hún doktorsnám við læknadeildina í samvinnu við rannsóknarstofnun í Verona og háskólann í Ferrara. Marta hefur verið meðhöfundur 12 útdrátta á árinu 1997 og þær 5 greinar sem eru uppistaða doktorsritgerðar Mörtu birtust allar á árunum 1998 til 2000. Ragnhildur Þóra útskrifaðist í lífefnafræði frá Háskóla Íslands á síðasta ári. Á því ári flutti hún erindi um óvæntar niðurstöður sínar varðandi samband köngulhormónsins melatóníns og skammdegisþunglyndis á alþjóðlegri ráðstefnu í Noregi. Ragnhildur er nú að hefja doktorsnám í taugalífeðlisfræði, eins og áður kom fram.

Á ráðstefnunni voru einnig afhent verðlaun menntamálaráðherra, en þau eru veitt ungum vísindamanni sem að mati dómnefndar kynnir athyglisverðustu rannsóknina á ráðstefnunni. Það var Håvard Jakobsen, doktorsnemi við læknadeildina, sem hlaut verðlaunin, en þau voru afhent af Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra.