HELLAMYNDIR sem fundist hafa í Mið-Síberíu sýna að hundasleðaakstur á rætur að rekja 4.000 ár aftur í tímann.

HELLAMYNDIR sem fundist hafa í Mið-Síberíu sýna að hundasleðaakstur á rætur að rekja 4.000 ár aftur í tímann. Fyrir indíána og eskimóa sem bjuggu í Síberíu, Alaska, Kanada og Grænlandi var hundasleðaakstur mikilvægur ferða- og flutningsmáti og lífsnauðsyn í veiðum.

14. mars 1895 er merkistími í norskri sögu, en þá stóðu Fridtjof Nansen og Hjalmar Johansen á ísnum með rússneska samojed-hunda spennta fyrir sleðann. Ætlunin var að verða þeir fyrstu á norðurpólinn og án hundanna mundi það vera vonlaust. Þeir náðu að vísu aldrei á pólinn en ferð þeirra markaði þó viss tímamót í norskri pólsögu. Þessi tilraun þeirra til að komast á pólinn er talin hafa opnað augu Norðmanna fyrir notkun sleðahunda.

Roald Amundsen notaði einnig sleðahunda í kapphlaupinu við Robert Scott á suðurpólinn 1911 í kunnustu heimskautsferð Norðmanna, þar sem Amundsen kom á undan Scott á pólinn. Scott notaði hins vegar smáhesta og vélknúin farartæki.

Þriðji Norðmaðurinn, Leonard Seppala, naut þess heiðurs að verða goðsögn í Alaska, í heimalandi hundasleðaíþróttarinnar. Árið 1900 fluttist Seppala til Alaska 23 ára gamall eftir að Norðmaðurinn Jafet Lindeberg ásamt tveim Svíum hafði fundið mikið af gulli í Nome í Alaska. Seppala vildi freista gæfunnar. Hann fann hana ekki í gulli, heldur í hundunum. 1925 varð afrek Leonard Seppala á hvers manns vörum í Alaska þegar hann og hundarnir hans náðu í lyf til að stöðva útbreiðslu skæðrar barnaveiki í gullgrafarabænum Nome. Forustuhundurinn Balto fann leiðina til baka gegnum stórhríð og náttmyrkur og síðar var reist stytta af honum í Central Park í New York. Þetta sögulega hlaup með mótefnið milli Anchorage og Nome varð seinna að hundasleðahlaupinu Iditarod - The Last Great Race on Earth - sem keppt var í fyrst 1973.