1. febrúar 2001 | Akureyri og nágrenni | 631 orð | 1 mynd

Þorsteinn Vilhelmsson um viðskilnað sinn við Samherja í viðtali við Ak-tímarit

Fannst ég fá rýting í bakið

Forsíða Ak-tímarits sem kemur út í dag.
Forsíða Ak-tímarits sem kemur út í dag.
ÞORSTEINN Vilhelmsson, skipstjóri og fyrrverandi einn aðaleigenda Samherja, segir í viðtali við Ak-tímarit sem kemur út í dag, 1.
ÞORSTEINN Vilhelmsson, skipstjóri og fyrrverandi einn aðaleigenda Samherja, segir í viðtali við Ak-tímarit sem kemur út í dag, 1. febrúar, að aðalástæða þess að hann hætti hjá Samherja í júní árið 1999 hafi verið yfirgangur eins manns gagnvart öllu og öllum.

"Mér leið ekki orðið vel í vinnunni á þessum tíma, ég sá að samstarfið myndi ekki veita mér neina ánægju og gramdist hvernig staðan var orðin innan fyrirtækisins, segir hann í viðtalinu og lýsir því síðan að þeir frændur, hann og Þorsteinn Már Baldvinsson hafi farið í langan bíltúr eftir sjómannadaginn það ár. "Hann endaði á þann veg að ég spurði hvort ekki væri best að Þorsteinn Már gerði bara við mig starfslokasamning. Þannig fór ég út úr bílnum. Tveimur og hálfum tíma seinna hringdi stjórnarformaður Samherja í mig og vildi klára starfslokasamninginn og var greinilegt að sú ákvörðun hafði verið tekin án þess að reynt væri að koma á sáttum.

Sögur um orsök samstarfsslitanna fóru strax af stað og ein sú lífseigasta var að Þorsteinn Már hefði verið gjarn á að eigna sér hugmyndir Þorsteins. Um það segir Þorsteinn að ágreiningsatriðin hafi verið mörg og nefnir að stjórnskipulag hafi verið þannig í fyrirtækinu að allt hafi verið laust í reipunum og hann sem útgerðarstjóri þess aldrei vitað hverju hann mátti ráða og hverju ekki.

Skipstjórakvótinn stór hluti af byrjuninni hjá Samherja

Í viðtalinu segir Þorsteinn að hann hafi viljað sjá hlutina fara á annan veg en raun varð á. Hann hafi litið á sig sem hluta af heild hjá Samherja og frá störfum sínum við uppbyggingu þess eigi hann góðar minningar. Hins vegar sé ekki sama á hvern hátt menn yfirgefa fyrirtæki sem þeir eiga hlut í og hafa byggt upp. "Ég get ekki sagt annað en mér hafi fundist ég fá rýting í bakið," segir Þorsteinn og nefnir sérstaklega í því sambandi á hvern hátt hann kom inn í fyrirtækið, þ.e. með áunninn skipstjórakvóta sem hann vann sér inn sem skipstjóri á Kaldbak. "Það hlýtur að segja sig sjálft að það var stór hluti af byrjuninni hjá Samherja."

Þorsteinn segir að fréttatilkynning um brotthvarf sitt hjá Samherja hafi ekki verið sannleikanum samkvæm. Ástæða hafi verið erfitt samstarf þeirra frænda og nafna, en svo hafi verið láta líta út sem hann ætlaði sér að snúa sér að öðru. Hann segir rangt af sér að hafa skrifað undir tilkynninguna.

Þorsteinn seldi hlut sinn í Samherja fyrir réttu ári, 1. febrúar árið 2000, og fengust fyrir hann rúmir þrír milljarðar. Hann segist vel skilja að fólk velti fyrir sér hvernig sé að eiga svo mikla peninga. Hann hafi þó ekki fengið allt þetta fé upp í hendurnar, heldur fengið stærsta hlutann greiddan í hlutabréfum. Þá hafi hann síðasta árið fjárfest í ýmsum sjávarútvegsfyrirtækjum. "Ég reyni að láta gott af mér leiða í sjávarútveginum. Ég sit ekki á þessum peningum og finnst að það mætti virða það við mig að ég hef fjárfest í fyrirtækjum sem veita mörgum vinnu í stað þess hlutar sem ég átti í Samherja," segir hann.

Rangt að lofa því að Guðbjörgin yrði alltaf á Ísafirði

Í viðtalinu ber hann til baka sögur um að fjárfestingar hans á Ísafirði hafi verið greiði á móti því að Samherji eignaðist Hrönn sem átti Guðbjörgu og seldi hana skömmu síðar. "Ég tek það hins vegar fram að mér fannst rangt af Máa á sínum tíma að lofa því að Guðbjörgin yrði alltaf á Ísafirði því við sameiningu lofar maður ekki slíkum hlutum. Ég er ósáttur við þau ummæli enda stóðust þau engan veginn."

Ak-tímarit hóf göngu sína á Akureyri í september síðastliðnum og er ætlunin að það komi út 10 sinnum á ári. Útgefendur eru þau Halla Bára Gestsdóttir blaðamaður og Gunnar Sverrisson ljósmyndari. Þau eru um þessar mundir að flytja starfsemi útgáfunnar í húsakynni í Kaupvangsstræti 1 og hyggjast færa út kvíarnar enda segja þau viðtökurnar hafa verið afskaplega góðar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.