Heimspekiskóli Hrannars og Angelesar heitir Cefilni, centro de filosofia para ninas y ninos og er rekinn á neðri hæðinni í húsinu sem þau leigja á í Merída: http://members.xoom.com/hraba/cefilni/cefilni.htm.
Heimspekiskóli Hrannars og Angelesar heitir Cefilni, centro de filosofia para ninas y ninos og er rekinn á neðri hæðinni í húsinu sem þau leigja á í Merída: http://members.xoom.com/hraba/cefilni/cefilni.htm.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Barnaheimspeki/ Hjónin Hrannar Baldursson og Angeles Alvarez Laso stofnuðu heimspekiskóla fyrir börn í Yucatán-fylki í Mexíkó. Gunnar Hersveinn spurði Hrannar um hugsjónirnar á bak við skólann og hugsanlega gagnsemi kennslunnar.
Þrítugur íslenskur heimspekingur býr í Merída í Yucatán-fylki í Mexíkó, hálftíma akstur frá gígnum Chicxulub í skóginum sem loftsteinninn myndaði þegar hann skall á jörðina fyrir 60 milljónum ára og kom risaeðlunum á óvart. Hann heitir Hrannar Baldursson, menntaður í heimspeki við Háskóla Íslands og er með mastersgráðu í heimspeki fyrir börn. Hrannar er kvæntur Maria de los Angeles Alvarez Laso (35 ára) og eiga þau óskabörnin Iðunni Rún Angeles Hrannarsdóttur Alvarez, 3ja ára, og Angel Hrannar Hrannarsson Alvarez,1 árs.

Hrannar og Angeles kynntust við nám í barnaheimspeki við Montclair State University í Bandaríkjunum árið 1994, en Angeles er núna prófessor í sálarfræði við tvo ólíka háskóla í Merída: Universidad Marista og Universidad del Mayab. Hún hefur einnig verið að kenna nemendum í meistaranámi í heimspeki fyrir Universidad del Mayab. Auk þessa hefur hún réttindi sem klínískur sálfræðingur og hefur skjólstæðinga í meðferð, þegar tími gefst til.

Angeles hefur BA-gráðu í sálarfræði frá Universidad IberoAmericana, master í uppeldisfræði frá Universidad Anahuac og aðra mastersgráðu í uppeldisfræði frá Montclair State University. Auk þess hefur hún tekið fjöldamörg námskeið með áherslu á fræði sem tengjast gagnrýnni hugsun. Hún hefur tekið þátt í ráðstefnum með fremstu uppeldisfræðingum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Heimspekiskóli, barnaheimili og leikskóli

Hrannar kennir aftur á móti við kaþólskan gagnfræða- og framhaldsskóla í Merída, sem heitir Instituto Cumbres. "Þar kenni ég heimspeki í framhaldsskólanum, áfanga um tengsl einstaklings og samfélags á heimspekilegum grunni, aðferðafræði vísinda og námstækni. Í grunnskólanum kenni ég almenna landafræði sem byggist á vangaveltum um orsakir landfræðilegra fyrirbæra, og einnig nokkra tölvufræði," segir hann. Hrannar starfar einnig við Vísindavefinn, sem rekinn er af Háskóla Íslands. Hann þjálfar líka nokkra unga skákmenn við skólann sinn en Hrannar hefur ævinlega iðkað skáklistina, hann var í Taflfélagi Kópavogs.

Angeles og Hrannar reka svo saman skóla í barnaheimspeki, halda saman námskeið fyrir börn og einnig þjálfunarnámskeið fyrir kennara og foreldra í barnaheimspeki. Jafnframt hafa þau nýlega lagt drög að barnaheimili og leikskóla sem verður starfrækt alla virka daga. "Við fengum réttindi til að stofna miðstöð fyrir barnaheimspeki í SA-Mexikó, en umsóknin þurfti að fara í gegnum nokkra skriffinnsku með aðstoð lögmanns. En allt fór eftir bókinni, og með mastersgráður frá virtum háskóla í Bandaríkjunum, var leikur einn að fá þessi réttindi, miðað við hvernig það er á Íslandi.

Angeles fékk ekki réttindi á Íslandi

En það tók mig fjóra mánuði að fá kennararéttindi mín samþykkt af menntamálaráðuneytinu á Íslandi eftir að ég kom heim úr mastersnámi. Bróðir minn, Ragnar Baldursson, lögmaður í Reykjavík, hjálpaði mér og eftir mikið þóf og skriffinnsku, fékk ég réttindabréf sem framhaldsskólakennari," segir Hrannar.

Angeles fékk á hinn bóginn ekki að miðla þekkingu sinni á Íslandi. "Hún rakst á "fræðilega" veggi," segir Hrannar, "nám hennar erlendis var ekki tekið gilt á Íslandi og henni gafst ekki tækifæri til að deila þekkingu sinni með Íslendingum. Þar misstum við af gullnu tækifæri, að mínu mati, til að auðga þekkingu okkar og skilning á nýjum straumum og stefnum í uppeldisfræðum."

Heimspekiskóli Hrannars og Angelesar heitir Cefilni, centro de filosofia para ninas y ninos og er rekinn á neðri hæðinni í húsinu sem þau leigja í Merída. Fyrsta skólaárið vou þau með sex nemendur en eru núna með um 30 og kenna þeim á þriðjudögum kl. 16-20 í þremur hópum: 3-6 ára, 7-12 ára og 13 til 18 ára. Bækurnar sem þau kenna eru flestar eftir dr. Matthew Lipman (Montclair háskólanum í New Jersey): Uppgötvanir Ara (rökfræði), Lisa (siðfræði), Elfie (málspeki), Mark (félagsheimspeki), Suki (fagurfræði og Pixie (samhengi tilverunnar).

Einnig þálfa þau kennara í kennslufræðinni á mánudögum kl. 16-20.

En hver er hugsjónin á bak við þetta starf? Þroski barnsins? Vitsmunaþáttur og tilfinningaþáttur mannsandans eru sitt hvað (a.m.k. tvennt eða tvíeitt). Vitsmunir eru oft kallaðir greind. Gerðar hafa verið fjölmargar tilraunir til að mæla vitsmuni eða greind fólks og barna, gallinn er bara sá að vitsmunir og greind eru svo nátengdir persónubundinni reynslu, að túlkun á greindarprófum getur verið vafasöm. Einnig má geta þess að á síðari árum hafa verið skrifaðar lærðar bækur um tilfinningagreind (Emotional IQ). Þá má loks nefna kenningar Howard Gardners um fjölgreind (sjá Mbl. 23/01/01).

Vitsmunaþroski barna og gildi reynslunnar

En hvaða vitsmunaþáttur og/eða tilfinningaþáttur er það nákvæmlega sem heimspekikennsla með börnum stefnir á að þroska? "Heimspeki með börnum hjálpar þeim til að átta sig á hlutunum, að leita merkingar þess sem er óljóst, og að sætta sig við það þegar þau vita ekki endanlegt svar, eins og við hinni vinsælu spurningu, "Hvað er hinum megin við alheiminn ef hann er endalaus?"" svarar Hrannar og að í heimspekikennslu með börnum sé ein frumforsendan sú að þátttakendur eru manneskjur, með eigin gildi og viðhorf, sem hafa vægi í sjálfum sér. "Oft eiga hinir eldri erfitt með að gera sér grein fyrir að börn eru fullgild í lífinu. Þau lifa í reynsluheimi og hafa þekkingu á eigin umhverfi, á sjálfum sér, og fjölskyldutengslunum sem þau búa við, og öllu því sem þau snerta," segir Hrannar. "En þegar börn setjast í hring og fá tækifæri til að ræða þá þekkingu sem þau hafa áunnið sér, kemur margt á óvart, því að reynsluheimur annarra barna er oft gjörólíkur."

Hrannar segir að þegar börnin fái tækifæri til að ræða um eigin reynsluheim (með aðstoð heimspekikennarans) safna þau í sig ólíkum viðhorfum og eiga auðveldara fyrir vikið með að mynda sér sitt eigið viðhorf, á góðum og traustum forsendum. "Heimspekikennarinn leiðir börnin vísvitandi í gegnum völundarhús heimspekinnar, án þess að fræða þau beinlínis um heimspekinga, heimspekistefnur eða heimspekisögu, heldur með því að tengja saman hefð heimspekilegrar hugsunar og reynsluheim barnanna," segir hann. "Heimspekin er slíkt hafdjúp af hugmyndum að barnæskan endist ekki til að snerta þær allar, né heldur mannsævin. Hins vegar hefur snerting við heimspekina þau ótvíræðu áhrif að hún hjálpar fólki að hugsa skýrar og að gera greinarmun."

Að kenna börnum gagnrýna og skapandi hugsun

Það virðist einnig vera sameiginleg niðurstaða flestra rannsókna sem gerðar hafa verið á áhrifum barnaheimspekinnar, að hún skerpi hugsun þátttakenda til muna. Hreinn Pálsson, stofnandi Heimspekiskólans í Reykjavík, gerði t.d. könnun á áhrifum heimspekikennslu við Síðuskóla á Akureyri. Niðurstaðan var ótvíræð.

Annar, af tveimur hópum sem rannsakaðir voru, fékk kennslu í heimspeki, en hinn ekki. Einkunnir þeirra, sem fengu heimspekikennsluna, hækkuðu í öðrum fögum frá því sem áður var, en hinn hópurinn stóð í stað. Þessi niðurstaða hefur margoft verið staðfest af rannsóknum á vegum I.A.P.C. við Montclair State háskólann í New Jersey, en þar starfar Matthew Lipman, frumkvöðull barnaheimspekinnar, við rannsóknir og kennslu.

"Heimspeki skerpir hugsun barna, jafnvel þótt tekið sé tillit til þess að það hugsa ekki allir á sama veg. Heimspekin hvetur börnin til að hugsa dýpra og til að finna fleiri spurningar þegar þau hafa uppgötvað eitthvað," segir Hrannar. "Börnin hugsa skýrar og verða fyrir vikið gagnrýnni á skoðanir og fullyrðingar, sem þýðir þó ekki að þau fari sjálfkrafa að efast um allt, t.d. tilvist Guðs eða jólasveinsins. Í heimspekitímum eru þau t.d. hvött til að rifja upp liðna atburði og skýra frá þeim. Það eitt að segja frá eigin hugmynd krefst gagnrýninnar og skapandi hugsunar af þátttakandanum."

Samhljómurinn ber sigurorð af kaldhæðni

Börn eru mjög næm fyrir háði. Þess vegna lærist þeim fljótt gildi þess að vera einlæg í heimspekilegri samræðu. Reyndar verður heimspekikennarinn oft að leiða börn inn á veg einlægninnar, en börn, eins og fullorðnir, eiga það til að vera kaldhæðin, óvönduð og hvöss í máli, sem hjálpar ekki við heimspekilega samræðu. "Það tekur yfirleitt nokkrar kennslustundir að fá nemendur til að finna samhljóminn," segir Hrannar. "Kennarinn verður að gera sitt ítrasta til að börnin geti byggt upp traust og einlæg samskipti, sem verða svo til þess að gildi samræðunnar eykst. Þessi leið til einlægra samskipta er alls ekki auðveld, og þarf kennarinn oft að leggja sig allan fram ef hann vill ná þessu stigi."

Samlestur er mikið notaður til að styðja þessa þróun. Ef börn lesa saman, (eitt tekur við af öðru við að lesa ákveðna sögu), kynnast þau smám saman rödd hvert annars og komast ekki hjá því að hlusta. Samræðan er eðlilegt framhald samlestur, sem byggist oftast á efni lestursins. Þannig hefur sérhver heimspekitími góð áhrif á lestur, samræðuhæfni og persónuleg samskipti. "Þegar vel er gert og hópurinn nær vel saman, fara börnin að sýna umhyggju, sem er ákveðin tengsl milli vitsmuna og tilfinninga," segir hann. "Þessi umhyggja hefur góð áhrif á alla þátttakendur. Þegar börnin sjá að þeim er sýnd umhyggja af félögum sínum, eykst sjálfstraust þeirra, og möguleikar til meiri vitsmuna- og tilfinningaþroska opnast upp á gátt."

Uppgötvun sem birtist í samræðunni

Á mörkum vitsmuna og tilfinninga liggur uppgötvunin. Þegar börnin ræða heimspeki sína saman og sjá ný tengsl sem auka á skilning þeirra, eykst áhugi þeirra til muna og verður bæði að innri og ytri hvatningu fyrir aðra í hópnum. "Það má í stuttu máli fullyrða að heimspeki þroski með börnum gagnrýna og skapandi hugsun annarsvegar, og umhyggju og sjálfstraust hinsvegar. Svo má auðvitað ekki gleyma þeirri þekkingu og skilningi sem börnin öðlast vegna innihalds samræðnanna sjáfra," segir hann og að börn séu að vissu leyti speglar í orðum sínum þegar þau ræða saman. "Þegar barn segir t.d. frá undrun sinni yfir að fólk sé stundum ósammála, gæti kviknað á perunni hjá öðru barni sem lýsir því að það hafi alltaf haldið að allir fullorðnir væru alltaf sammála. Samræða gæti svo spunnist út frá þessu sem varpaði ljósi á það af hverju fólk er stundum ósammála, og gæti jafnvel leitt út í dýpri sálma, eins og takmörk mannlegrar þekkingar."