Dagur Kári: Tökur á Vestfjörðum.
Dagur Kári: Tökur á Vestfjörðum.
NÓI ALBINÓI , ný íslensk bíómynd eftir Dag Kára og sú fyrsta sem hann gerir í fullri lengd, mun fara í tökur undir lok marsmánaðar og er gert ráð fyrir að þær fari að mestu fram á Vestfjörðum; Ísafirði, Bolungarvík, Hnífsdal, Þingeyri og Flateyri.
NÓI ALBINÓI, ný íslensk bíómynd eftir Dag Kára og sú fyrsta sem hann gerir í fullri lengd, mun fara í tökur undir lok marsmánaðar og er gert ráð fyrir að þær fari að mestu fram á Vestfjörðum; Ísafirði, Bolungarvík, Hnífsdal, Þingeyri og Flateyri. Tökur standa í um sjö vikur.

Undirbúningur er í fullum gangi en enn hefur ekki verið gengið frá samningum við leikara í aðalhlutverkin, sem eru þrjú til fjögur. Að sögn Skúla Fr. Malmquist hjá Zik Zak-kvikmyndum, sem framleiða Nóaalbínóa, fjallar handritið, sem er eftir leikstjórann Dag Kára , um "vandræðaunglinginn Nóa sem býr í afskekktu þorpi úti á landi. Það eru áhöld um hvort Nói er úrhrak eða undrabarn og í myndinni er fylgst með hvernig ýmsir þættir í umhverfinu þrengja sífellt meira að honum. En í lokin gerast voveiflegir atburðir, sem verða farseðill hans út úr þessum kringumstæðum. Nóialbínói er dramatísk mynd með gráglettnu yfirbragði."

Nóialbínói hlaut 25 milljóna króna styrk við síðustu úthlutun úr Kvikmyndasjóði Íslands en að sögn Skúla er kostnaðaráætlun ríflega hundrað milljónir. Meðframleiðendur Zik Zak eru fyrirtæki í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og Danmörku og segir Skúli að fransk-þýska sölufyrirtækið Co-Production Office hafi greitt fyrir Nóaalbínóa hærri upphæð sem lágmarkstryggingu en áður hafi þekkst fyrir íslenska kvikmynd á handritsstigi.

Tökumaður myndarinnar, Rasmus Videbæk , kemur frá Danmörku og hefur áður unnið með Degi Kára að stuttmynd hans Lost Weekend, sem tekið hefur þátt í ellefu alþjóðlegum kvikmyndahátíðum og unnið til verðlauna á þeim öllum.