Veraldar börn og Bjarna Bækur Kjartan Árnason Bjarni Bjarnason: Urðafjóla, ljóð, 37 bls. Í Óralandi, prósi, 130 bls. Útgefandi: Augnhvíta, 1990.

Veraldar börn og Bjarna Bækur Kjartan Árnason Bjarni Bjarnason: Urðafjóla, ljóð,

37 bls. Í Óralandi, prósi, 130 bls. Útgefandi: Augnhvíta, 1990.

Veröldin er ástkona mín/ og börn okkar það sem ég skrifa", segir Bjarni Bjarnason í ljóðinu Ástarsögu í nýrri ljóðabók sinni, Urðafjólu. Með þessum orðum þykir mér hann lýsa skáldskap sínum betur en ég gæti gert í langri grein. Sá sem elskar veröldina, honum þykir líka vænt um mennina með öllum þeirra breyskleika og virðir jafnframt lífið einsog það er. Þannig birtast mér þessi börn Bjarna og veraldar.

Eftir því sem ég best veit gaf Bjarni út sína fyrstu bók fyrir tveimur árum en í ár sendir hann frá sér fjórðu og fimmtu bók sína. Í seinni bók sinni í fyrra, Ótal kraftaverkum, þótti mér tónn Bjarna heldur myrkur. Í ár er tónninn hinsvegar bjartur, stundum skínandi. Það er nokkuð einkennandi fyrir skáldskap Bjarna að hann er sjálfur býsna nálægur, jafnvel svo að stundum minnir á Þórberg. Þegar ritarinn segir ég" dettur manni gjarna í hug Bjarni Bjarnason. Hann er þó hreint ekki að trana sér fram heldur tekur þátt og fulla ábyrgð. Þessi nærvera getur einnig ýtt af stað skemmtilegu samtali milli höfundar og lesanda.

Ljóðabókin Urðafjóla er þrjátíu ljóða bók. Völuspá er hér í baksviði án þess að sýni sig þó beinlínis, það glittir í hana við og við. Hún reynist traustur bakhjarl, leggur til dul an andblæ, ógn og von. Samhengi er áberandi í Urðafjólu, jafnvel framrás. Ljóðin kallast á eða eitt ljóð bætir einhverju við það semsagt var í öðru. Annars er mikið elskað í ljóðunum en ástin er víða einsog tregablandin og sár; hún er þó hlý og einlæglega djúp. Ljóðin bjóða, þrátt fyrir andrúmsloft yfirvofandi ógnar, sátt milli lífs og dauða, frið og kyrrð - en ekki án fyrirhafnar: en ást okkar á sér ekki stað/ í þessum heimi/ en í hvaða heimi?/ hann verð ég aðfinna/ því verð ég farinn þegar þú vaknar".

Í Óralandi er safn ellefu smásagna. Smásaga" er e.t.v. ekki alltaf rétta skilgreiningin, einn textinn er t.d. bréf Bjarna Bjarnasonar til karlmanna framtíðarinnar. En hvað sem bókmenntalegum merkingum líður, er Bjarni á býsna óvenjulegu róli í þessari bók. Hann heldur annarri hendi um naflastreng alheimsins, hinni um Parker pennann og hoppar á jörðinni stundum í jarðsambandi, stundum ekki. Skáldskapur Bjarna einsog svífur - þó ekki í lausu lofti - er einskonar hugmynd um skáldskap. Og þetta ber vel að merkja ekki að skilja neikvæðum skilningi. Raunar á ég í nokkrum vandræðum með að finna samsvörun við þennan hugmyndalega skáldskap, hann skrifar sig ekki beinlínis inní hefð - a.m.k. ekki neina ríkjandi hefð. Og þetta eru að mínu mati góðar fréttir.

Bjarni sækir mikið til heimspeki og hugmynda um Útópíu sem sá enski Thomas More er talinn einn af upphafsmönnum að í samnefndri bók, ásamt öllu eldri manni, þ.e. Platoni, sem ritaði um slíkan stað í Ríkinu. Skáldskaparheimur Bjarna Bjarnasonar rís líka upp af þeirri meginstoð að mannkynið hafi alla burði til að elska, þroskast og öðlast hlutdeild í guðdómnum. Hvaða guðdómi? Þeim guðdómi sem alheimurinn hefur innréttað í brjósti hvers manns. En þessi bók firrir persónur sínar ekki ábyrgð, reynir ekki að varpa henni yfirá þjóðfélag, örlög, foreldra, vini heldur er hvert skref hér stigið til fulls - þótt sársaukinn sé nístandi. Maður verður jafnvel að ráða sig af dögum í táknrænum skilningi til að öðlast lífið til fullnustu, sbr. orð Krists.

Bjarni sýnir ótvírætt í þessari bókað hann er lipur penni og langar heimspekilegar orðræður í sögunum eru það vel stílaðar að lesandinn þarf ekki að vakna útí móa - textinn rennur vel. Bjarni hefur líka kímnigáfu sem hann beitir þó sparlega: alls óvænt á hann til að vera drepfyndinn.

Ég tel að það yrði skáldskap Bjarna enn frekari lyftistöng ef hann legði meiri rækt við persónur sínar og mótun þeirra eða söguþráðinn ef hann ætlar að hafa hann á annað borð. Þá finnst mér athugandi hvort ekki megi skrifa heimspekina meira inní sögurnar í stað þess að setja hana fram með beinum hætti.

Bjarni Bjarnason