Minning: Ásgeir Blöndal Magnússon Fæddur 2. nóvember 1909 Dáinn 25. júlí 1987 Þegar ég kom að Orðabók Há skólans árið 1955, voru þeir þarfyrir, Jakob Benediktsson og Ás geir Blöndal Magnússon. Unnum við svo saman þrír hin margvíslegustu orðabókarstörf um nær aldarfjórðungsskeið. Nú er hinn fyrsti okkar fallinn frá. Ekki verður því neitað, að það vakti sérstaka tilfinningu hjá mér, þegar mér barst fréttum andlát Ásgeirs Blöndals norður í land, þar sem ég er á ferð. Þó var mér vel ljóst að hverju stefndi, þegar ég kvaddi hann á Borgarspítalanum fáum dögum áður. Minningarum samvinnu okkar Ásgeirs Blöndals hrönnuðust upp, þótt segja megi, að náinn kunningsskapur hafi aldrei myndazt milli okkar.

Fyrstu kynni okkar Ásgeirs Blöndals Magnússonar urðu annars haustið 1942, er við settumst báðir í heimspekideild Háskóla Íslandsog tókum að leggja stund á íslenzk fræði. Ásgeir Blöndal var þá töluvert eldri en aðrir nýstúdentar. Kom það líka þegar í ljós, að hann stóð öðrum nýstúdentum langtum fremur í þessum fræðum og var óvenjuvel lesinn í öllum greinum þeirra. Svo fór einnig, að hann lauk prófifrá Háskólanum vorið 1945 með loflegum vitnisburði.

Árið 1947 gerðist Ásgeir Blöndal starfsmaður Orðabókar Háskólans og var það óslitið, þar til hann varðað láta af störfum sjötugur í árslok 1979. Síðustu tvö ár starfsferils síns var hann forstöðumaður Orðabókarinnar eftir dr. Jakob Benediktsson.

Ég sagði hér framar, að Ásgeir Blöndal hefði verið óvenjuvel undir háskólanám búinn haustið 1942. Ég varð þess líka fljótt áskynja, þegar við urðum samverkamenn við Orðabók Háskólans, að þar fór frábærlega vel menntaður maður sem Ásgeir var og fjölfróður um flesta hluti. Ekki bar samt mikið á, enda var honum sízt í huga að láta mikið yfir þekkingu sinni. Hann var og hlédrægur alla þá tíð, sem ég hafði af honum kynni, og flíkaði aldrei lærdómi sínum að fyrrabragði.

Vafalaust hefur mörgum fundizt Ásgeir Blöndal fáskiptinn við fyrstu kynni, og þannig var mín reynsla í upphafi samstarfs okkar. Aftur á móti varð mér fljótlega vel ljóst, að hann var allra manna hjálp fúsastur, þegar leitað var til hans, og um það get ég borið glöggt vitni. Þar var nær aldrei komið að tómum kofunum, og þekking hans á íslenzkum orðabókum og íslenzkum orðaforða var með ólíkindum. Ég held t.d., að það hafi tæplega komið fyrir, að Ásgeir færi skakkt með eða misminnti, hvort eitthvert orð eða orðasamband kæmi fyrir í orðabók Sigfúsar Blöndals eða ekki. Þeir voru fleiri en ég, sem undruðust þetta minni hans.

Það var þess vegna ekki ófyrirsynju, að Ásgeiri Blöndal var falin endurskoðun nýrrar útgáfu orðabókar Menningarsjóðs á sínum tíma með frumhöfundi hennar. Sú útgáfa ber víða merki hins fjölfróða orða bókarmanns.

Haustið 1956 tókum við áðurnefndir þremenningar við Orðabók Háskólans að okkur þáttinn Ís lenzkt mál í Ríkisútvarpinu. Einsog alþjóð veit hefur hann síðan verið í höndum okkar orðabókarmanna. Í upphafi kom hér einnig fram mikil þekking Ásgeirs Blöndals á íslenzku talmáli. Tengdi hann manna bezt þætti sína við sögulegan uppruna orða og merkingu þeirra og aftur nútímanotkun. Undraðist ég oft, hversu vel honum fór þetta úr hendi og þá ekki sízt að gera fræðilega hluti ljósa öllum hlustendum sínum. Þeir muna þetta vafalaust og sakna nú örugglega þess, að hann er horfinn frá hljóðnemanum með sinn lipra stíl og notalega tungutak.

Eitt er það verk, sem lengst mun halda minningu Ásgeirs Blöndals Magnússonar á lofti, en það er mikil orðsifjabók yfir íslenzka tungu. Að þessu verki vann hann um mörg ár í hjáverkum með störfum sínum við Orðabók Háskólans, en af miklum krafti, er hann hafði látið af embætti. Lauk hann viðþetta verk og hafði næstum lesið fyrstu próförk, er hann féll frá. Þvímiður auðnaðist Ásgeiri ekki að sjá verk sitt koma út fullfrágengið. Hins vegar varð honum það örugglega ánægjuefni, að Orðabók Háskólans, sú stofnun, sem hann helgaði beztu starfsár sín, gefur þetta verk út. Ekki er þetta okkur, sem eftir stöndum, minna gleðiefni, því að hér hefur Ásgeir Blöndal leyst af hendi hið gagnmerkasta verk í sögu íslenzks orðaforða. Þó að ekki væri fyrir annað, ber forráðamönnum Orðabókarinnar að þakka þann heiður og þá velvild, sem hinn látni starfsmaður hennar sýndi henni með þessu.

Hér hefur ekki verið rakinn æviferill Ásgeirs Blöndals Magnússonar. Þessi orð mín eru einungis sett saman til þess að þakka honum áratuga samvinnu. Enda þótt hann léti af störfum í árslok 1979, hélt hann sambandi sínu við Orðabókina til hinzta dags og var nær daglegur gestur á stofnuninni. Þannig fylgdist hann með vexti og viðgangi hennar, þótt hann yrði lögum samkvæmt að víkja úr sæti sínu.

Að endingu sendi ég konu hans, sonum hans og öðru skylduliði samúðarkveðjur stjórnar og starfsliðs Orðabókar Háskólans.

Jón Aðalsteinn Jónsson