[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir okkur er augljóslega ómetanlegt að njóta varna öflugasta ríkis veraldar, segir Björn Bjarnason, menntamálaráðherra m.a. í grein á heimasíðu sinni.

Tímamót

Í grein sinni segir Björn m.a.:

"Þess verður minnst í byrjun maí, að 50 ár eru liðin frá því, að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna var gerður. Í viðtali við Morgunblaðið föstudaginn 16. mars sagði Michael T. Corgan, Fulbright-prófessor í alþjóðamálum, að þessi samningur hefði mikla sérstöðu fyrir Bandaríkin, því að hinir áhrifamiklu frumkvöðlar þeirra, George Washington og Thomas Jefferson, hefðu mælt gegn því, að Bandaríkjamenn blönduðu sér í málefni annarra þjóða með varnarsamningi. Corgan segir: "Evrópustórveldin voru alltaf að berjast og hvað áttu Bandaríkjamenn að vera að skipta sér af því? Samið var við Frakka 1778 til að fá hernaðartaðstoð þeirra í stríðinu við Breta en síðan ekki söguna meir fyrr en 1951 þegar samningurinn var gerður við Íslendinga. Hann var því tímamótaákvörðun ekki síður fyrir okkur en Íslendinga. Ekki einu sinni í heimsstyrjöldunum voru gerðir formlegir og skriflegir samningar við aðra bandamenn um varnir heldur stuðst við munnlegt samkomulag."

"Varnarsamningurinn frá 1951 gildir, þar til annar hvor aðili hans riftir honum. Á síðasta áratug var hins vegar tekið til við að skiptast á orðsendingum um framkvæmd samningsins og rennur gildistími síðustu slíkrar orðsendingar út á þessu ári og er nú unnið að endurnýjun hennar.

Gildi aðstöðunnar hér fyrir Bandaríkjamenn felst í því, að hún skapar dýpt í varnir þeirra á Norður-Atlantshafi og tengingu við bandamennina í Evrópu. Fyrir okkur er augljóslega ómetanlegt að njóta varna öflugasta ríkis veraldar og verður ekki sagt, að þessi skipan hafi þrengt að okkur í utanríkismálum síðustu 50 ár, þvert á móti er auðvelt að rökstyðja, að svigrúm íslenskra stjórnvalda til hvers kyns ákvarðana um utanríkismál hafi verið meira en ella í skjóli varnarsamningsins."

"Eftir að þáttaskilin miklu urðu í alþjóðamálum við hrun Sovétríkjanna, eru umræður um utanríkis- og varnarmál með allt öðrum blæ hér en áður. Hér hefur ekki heldur verið fjallað á jafngagnrýnan hátt um hlut þeirra, sem voru málsvarar sovéskra hagsmuna eins og víða annars staðar. Hef ég oft bent á það, að hér hafi ekki farið fram hið sama uppgjör við þessa pólitísku fortíð og kynnast má í öðrum löndum, þótt fræðimenn og fjölmiðlamenn hafi hin síðari ár birt okkur ýmsar nýjar upplýsingar, einkum um tengsl kommúnista hér við Sovétríkin. Til marks um það í hve furðulegan farveg umræður af þessum toga geta þróast, má benda á langar greinar eftir Halldór Jakobsson, málsvara góðra tengsla við Sovétríkin, í Morgunblaðinu, þar sem hann leitast við að gera alla tortryggilega, sem draga staðreyndir um íslensku sovéttengslin fram í dagsljósið."

Hvati

Í lokin segir Björn:

"Afmæli varnarsamningsins við Bandaríkin og sérstaða hans bæði fyrir okkur og Bandaríkjamenn ætti að verða hvati til að ræða um utanríkis- og öryggismál okkar í víðara samhengi en aðeins með hliðsjón af Evrópuþróuninni. Við höfum frá því að Ísland varð lýðveldi ekki átt nánara samstarf við nokkra aðra þjóð en Bandaríkjamenn og reynsla okkar af því hefur eflt með þjóðinni sjálfstraust og sjálfsöryggi í samskiptum við allar þjóðir."