Á TÍMUM harðnandi samkeppni í smásölu bóka og enn harðari samkeppni við aðra afþreyingu hafa útgefendur fræðibóka orðið undir. Bækur þeirra enda í auknum mæli í háum hlöðum á borðum bókamarkaða og virðist orðið erfitt að selja þær þar.

Á TÍMUM harðnandi samkeppni í smásölu bóka og enn harðari samkeppni við aðra afþreyingu hafa útgefendur fræðibóka orðið undir. Bækur þeirra enda í auknum mæli í háum hlöðum á borðum bókamarkaða og virðist orðið erfitt að selja þær þar. Því hafa útgefendur orðið að leita nýrra leiða til að selja bækur sínar.

Hafa þeir farið margar ótroðnar slóðir og hafa markaðsmenn þeirra greinilega áttað sig á því að ein lægsta hindrunin er á heimili fólks. Ef sölumaðurinn kemst inn á heimilið á hann mun auðveldara með að "pranga" vörunni inn á viðskiptavininn.

Hver þekkir ekki símtölin þar sem ljúf rödd býður okkur að "fulltrúi" þeirra sem verði staddur í hverfinu næstu kvöld líti í heimsókn og færi viðkomandi bókagjöf. Heppnin er með sölumanninum ef sá sem svarar er aldraður einstæðingur, því þá er líklegt að heimsókninni sé fagnað, enda einmanaleikinn ríkjandi.

Þarna liggur kjarni málsins. Hvar er siðferðisþröskuldur sölumannsins í slíkri stöðu?

Sölumaðurinn vinnur samkvæmt fyrirfram skipulögðu mynstri sem byggist á því hvernig komast skal yfir þær hindranir sem liggja í kauphegðun fólks til þess að loka sölunni. Einn stór liður í því er að festa öngulinn strax í upphafi með því að bjóða heimsókn, bókagjöf og kynningu á vörunni. Erfitt getur verið fyrir marga að hafna sölutilboði í lok heimsóknar, ekki síst þegar gjöfin hefur verið afhent. En hvar liggur siðferði sölumannsins í þessu öllu?

Sölumenn bókaforlaganna ganga hús úr húsi og reyna að lækka háa stafla bókaflokka sem ekki hafa selst í almennri sölu. Má þar nefna: Saga mannkyns, Þjóðmenning fyrri alda, Njarðvíkursaga, Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar. Þannig mætti lengi telja. Eitt eiga allir þessir flokkar sameiginlegt. Kostnaðurinn við að eignast þá hleypur á tugum þúsunda. En það er ekki vandamál, því sölumennirnir eru með sölusamninga meðferðis þar sem dreifa má greiðslunum nánast til jafnmargra mánaða og þúsundin eru mörg. Sölunni skal loka.

Þá komum við að kjarna málsins: Hvar liggur siðferði sölumannsins?

Oft og tíðum eru þeir sem liggja í valnum eftir þessa sölumenn eldri borgarar þessa lands. Þeir hafa ekki alist upp við það að vísa fólki á dyr, hvað þá þegar það hefur fært því gjafir. Síðan þegar það þarf nú ekki að borga "nema" 2.000 kr. á mánuði í 24-36 mánuði munar nú kannski ekki mikið um það þegar sölumaðurinn var nú svo almennilegur að færa viðkomandi bókagjöf.

Alltof mörg dæmi eru um það að sölur sem þessar komi þeim sem síst mega við því í fjárhagsleg vandræði. Einhver kann að hugsa hvað muni um 2.000 kr. á mánuði? Fyrir marga er þetta matur í eina viku. Lækniskostnaður í þrjú til fjögur skipti. Sími í tvo mánuði. Strætisvagn í mánuð - og þannig mætti lengi telja. Þegar síðan fer að halla undan og ekki tekst að greiða skuldina eru bókaforlögin óvægin að beita hörðustu innheimtuaðferðum sem þekkjast. Samningarnir eru sendir í innheimtu með öllum tilheyrandi kostnaði. Er þá nema von að gamla fólkið verði hissa. Það er ekki vant því að þeir sem færi þeim gjafir komi svona fram.

Það er tími til kominn að við tryggjum að ekki sé farið svona með það fólk sem hefur skapað okkur þann lífsgrundvöll sem við unga fólkið búum við í dag. Ef ég man rétt varð mikil réttarbót þegar kaupandanum var gefinn frestur til að skila vörunum fyrir ákveðinn tíma eftir kaup. En ekki er það alltaf unnt eða viðkomandi áttar sig ekki á því fyrir ákveðinn tíma.

Því verður að reyna að höfða til siðferðiskenndar sölumanna sem eru tilbúnir að festa sér hlut til lengri tíma í ellilífeyri vel meinandi eldri borgara með þessum bíræfna hætti.

Útgefendur, ráðist á okkur sem höfum burði og þol til að takast á við skuldbindingarnar, en ekki ráðast á þá sem síst mega við því og hafa enga burði til að standa undir greiðslum af þessu tagi.

Siðferði sölumannsins berst við budduna í þessu tilviki. Sölumaður, láttu samviskuna vera hreina, ekki hafa á samviskunni að hafa "tekist" að blekkja gömlu konuna til að kaupa af þér bækur sem þú veist að eru bara fjárhagslegur baggi fyrir viðkomandi og nýtast lítið. Það er sala sem enginn getur verið stoltur af.

SKÚLI SKÚLASON,

Grettisgötu 83, Reykjavík.

Frá Skúla Skúlasyni: