DÓMSTÓLL í Bretlandi dæmdi í gær hollenska flutningabílstjórann Perry Wacker í 14 ára fangelsi fyrir "kaldranalegt" manndráp á 58 ólöglegum, kínverskum innflytjendum sem fundust látnir í bíl hans.

DÓMSTÓLL í Bretlandi dæmdi í gær hollenska flutningabílstjórann Perry Wacker í 14 ára fangelsi fyrir "kaldranalegt" manndráp á 58 ólöglegum, kínverskum innflytjendum sem fundust látnir í bíl hans.

Fyrir dómnum var borið að Wacker hefði smalað innflytjendunum inn í loftlausan gám og síðan, þegar hann hafi farið að óttast að innflytjendaeftirlitið myndi finna þá, lokað eina loftopinu á gámnum. Tveir innflytjendanna í gámnum komust lífs af og báru vitni við réttarhöldin.

Búist er við fleiri dómum í tengslum við þetta mál, sem vakti óhug víða um heim sl. sumar og afhjúpaði miskunnarlaus heimsviðskipti í smygli á fólki. Wacker var handtekinn 18. júní sl. í Dover á Englandi eftir að embættismenn, sem leituðu í bíl hans, fundu lík innflytjendanna.

Ying Guo, kínverskur túlkur frá Essex, var einnig fundin sek og dæmd í sex ára fangelsi. Hún var tengill smyglhringsins sem fékk greitt fyrir að smygla fólkinu til Englands.Var hún fundin sek um samsæri.

Við réttarhöldin hélt Wacker því fram að hann hefði ekki haft hugmynd um að fólk væri í bílnum hans. En DNA-sýni af sígarettustubb sem fannst í vöruhúsinu í Rotterdam í Hollandi, þar sem fólkið var sett í bílinn og lokað inni ásamt kössum með tómötum, var samstætt sýni úr Wacker.

Átta menn eru í varðhaldi í Hollandi í tengslum við málið og hefjast réttarhöld yfir þeim í næsta mánuði. Hópur manna í Rotterdam, undir stjórn tveggja Tyrkja, sá um evrópska þáttinn í smyglstarfseminni, en aðrir glæpaflokkar sáu um að koma fólkinu frá Kína til Evrópu.

Maidstone á Englandi. AFP.