UNGUR piltur liggur nú á lýtalækningadeild Landpítalans við Hringbraut með 2.-3. stigs brunasár á baki sem hann hlaut við gerð stuttmyndar í Kópavogi á þriðjudagskvöld. Að sögn vakthafandi læknis er líðan hans nokkuð góð eftir atvikum. Pilturinn er brunninn víðast hvar á bakinu en meginhluti brunasáranna er 2. stigs bruni. Að sögn læknis er óljóst hvort þörf sé á aðgerð en þörf sé á nokkurra vikna sjúkrahúslegu.
Rannsóknadeild lögreglunnar í Kópavogi hefur tekið tildrög slyssins til rannsóknar, sem bar að með þeim hætti að grillolíu var hellt á piltinn og kveikt í við gerð stuttmyndar. Fjórir piltar á aldrinum 17 til 18 ára, að hinum slasaða meðtöldum, voru staddir á svæði vestan við gervigrasvöllinn í Kópavogsdal og voru að yfirgefa staðinn á bifreið þegar lögregluna bar að eftir tilkynningu kl. 20.30 um eld í manni, frá vegfarenda að því er talið var. Einn piltanna í bifreiðinni kvartaði undan sviða í baki og kom í ljós að hann hafði brennst. Hann var fluttur á slysadeild og síðar á lýtalækningadeild.
Eftir því sem lögreglan kemst næst voru piltarnir að taka upp stuttmynd með áhættuatriði. Grillolíu mun hafa verið hellt á piltinn og eldur borinn að. Á meðan þessu fór fram tók einn piltanna atburðinn upp á myndbandsupptökuvél. Eftir að kviknaði í piltinum mun hann hafa hent sér á jörðina til að slökkva í sér með aðstoð annars pilts. Eldurinn kviknaði síðan aftur og náðist þá að slökkva hann á sama hátt. Lögreglan lagði hald á myndbandið úr tökuvélinni og mun skoða það.
Varðstjóri lögreglunnar sagði aðspurður of snemmt að segja til um hvort myndbandið yrði skoðað með tilliti til þess hvort málið yrði sett í ákærumeðferð. Hann sagði lögregluna engu að síður líta slík atvik mjög alvarlegum augum og sagði það einkennilegt að þeir sem í hlut áttu skyldu ekki gera sér betur grein fyrir afleiðingum gerða sinna, en eldvarnarföt af því tagi sem þjálfaðir áhættuleikarar nota hefðu ekki verið notuð.