UPPGANGA á hátindana sjö, sem er næsta viðfangsefni Haralds Arnar Ólafssonar, telst án efa eitt eftirsóknarverðasta takmark fjallgöngumanna innan alþjóðafjallgöngusamfélagsins. Keppnin um að komast á alla tindana hófst fyrir alvöru skömmu eftir 1980.

UPPGANGA á hátindana sjö, sem er næsta viðfangsefni Haralds Arnar Ólafssonar, telst án efa eitt eftirsóknarverðasta takmark fjallgöngumanna innan alþjóðafjallgöngusamfélagsins. Keppnin um að komast á alla tindana hófst fyrir alvöru skömmu eftir 1980. Segja má að keppninni hafi lokið með sigri Bandaríkjamannsins Dick Bass þegar hann komst á síðasta tindinn í röðinni, sjálfan hátind Everest 30. apríl 1985.

Fram til ársins 1999 eru skráðir 65 fjallgöngumenn sem komist hafa á hátindana sjö, hæsta tind hverrar heimsálfu. Þess ber þó að geta að tveir tindar virðast jafngjaldgengir sem einn Hátindanna sjö, eftir því hvernig menn hafa skilgreint hugtakið heimsálfa. Þannig er viðurkennt ef valinn er Kosciuszko-tindur (2.228 m) í Ástralíu í stað Carstensz Pyramid (4.884 m) í Nýju Gíneu í Eyjaálfu - eða öfugt. Margir fjallgöngumenn hafa hins vegar leyst málið með því að ganga á báða þessa tinda.

Erfitt að komast að Vinson

Á árunum 1970 til 1980 var farið að horfa til hátindanna sjö sem sjálfstæðs fjallgönguverkefnis en aðalþröskuldur fjallgöngumanna var einn tindanna, Vinson á Suðurskautslandinu. Í ljósi afar takmarkaðra samgangna á því svæði var uppganga á tindinn bæði fjárhagslega og tæknilega erfið í samanburði við uppgöngu á hina tindana sex.

Meðal þeirra sem hafa komist á hátindana sjö er breski fjallgöngumaðurinn Doug Scott sem er íslenskum fjallgöngumönnum að góðu kunnur. Hann var hér á landi fyrir skömmu til tilefni fjallgöngumyndasýninga í Reykjavík og kom fram í viðtali við Morgunblaðið 20. mars.

Um einn tugur kvenna hefur náð því að ganga á hátindana sjö, þar af tvær sem komust í heimsfréttirnar í maí árið 1996 þegar báðar voru að ljúka verkefninu með uppgöngu á sjöunda og síðasta fjallið, Everest. Þetta voru þær Yasuko Namba frá Japan og Sandy Hill Pittmann frá Bandaríkjunum. Uppgangan kostaði Namba lífið og gekk nærri af Pittmann dauðri í fárviðri sem kostaði á annan tug mannslífa á fjallinu á einum sólarhring.

Í sömu ferð dó Ný-Sjálendingurinn Rob Hall sem var níundi maðurinn í heiminum til að komast á hátindana sjö árið 1990 með uppgöngu á Aconcagua, hæsta tind S-Ameríku.

Nokkrir íslenskir fjallgöngumenn hafa klifið einn til tvo hátindanna sjö. Fyrsti tindurinn, Kilimanjaro, féll að fótum Agnars Kofoeds-Hansens 18. nóvember 1966 og fram á þennan dag hafa alls fimm tindanna verið klifnir af Íslendingum, allir nema Vinson-Massif og Carstenzs Pyramid. Skemmst er að minnast vel heppnaðs Everest-leiðangurs þeirra Björns Ólafssonar, Einars Stefánssonar og Hallgríms Magnússonar sem komust á tind Everest 21. maí 1997.