Sveinn Arnbjörnsson er flugstjóri hjá Calm Air í Winnipeg en býr á Gimli.
Sveinn Arnbjörnsson er flugstjóri hjá Calm Air í Winnipeg en býr á Gimli.
SUMS staðar má ganga út frá því sem vísu að finna Íslendinga, eins og í Manitobafylki í Kanada. En að hitta þar fyrir íslenskan flugstjóra hjá Calm Air-flugfélaginu, sem er að hluta í eigu Air Canada, gegnir öðru máli.

SUMS staðar má ganga út frá því sem vísu að finna Íslendinga, eins og í Manitobafylki í Kanada. En að hitta þar fyrir íslenskan flugstjóra hjá Calm Air-flugfélaginu, sem er að hluta í eigu Air Canada, gegnir öðru máli. Hann er þar samt, Hornfirðingurinn Sveinn Arnbjörnsson, sem vann meðal annars í vegagerð á Hornafirði, Djúpavogi og í nærliggjandi sveitum áður en hann flutti vestur fyrir 14 árum.

Að vísu hafa íslenskir flugmenn tengst Gimli á liðnum árum en saga Sveins er með nokkuð óvenjulegum hætti. Aldrei stóð til hjá honum að hafa flug að aðalstarfi en aldrei skal segja aldrei. "Reyndar hef ég alltaf haft áhuga á flugi og tók einkaflugmannspróf á Íslandi 1985," segir hann. "Ég átti hlut í vél og flaug mikið en þegar ég kom hingað vissi ég ekki hvað ég átti að taka mér fyrir hendur. Mér bauðst strax vinna í flugskýli í litlu fyrirtæki hérna fyrir norðan, Northway Aviation, sem Geiri Johnson á í Árnesi. Þar fór ég strax á samning, tók flugvirkjun, og vann við hana stöðugt í sjö ár. Ég tók atvinnuflugmannspróf hérna vorið 1990 og ári síðar fékk ég flugvirkjaréttindi. Ég vann bæði við að fljúga og gera við en flugið takmarkaðist við álíka langar flugleiðir og eru á Íslandi, eða mest um 300 mílur frá Winnipeg. Þessi tími var nokkuð skemmtilegur, þar sem ég var að fljúga Cessnu Caravan, eins hreyfils Otter og Beaver á hjólum, skíðum og flotum. Ég flaug líka PA31 og BN Islander, sem hafði verið keypt frá Íslandi.

Haustið 1997 byrjaði ég hjá Calm Air og það er allt annað. Bæði er flogið á mun stærri vélum, 52 manna Hawker Siddley 748 vélum, og eins er farið út um allt fylkið og næstu nágrannafylki, þar á meðal langt norður fyrir heimskautsbaug. En það er ekki alltaf hlaupið að því. Kuldinn og snjórinn gera það oft að verkum að ekki er hægt að lenda og vegna sömu atriða gengur ekki að hafa langa viðdvöl, ekki lengri en 20 til 30 mínútna. Vélarnar eru vandmeðfarnar og ef dvölin er lengri þarf að gera viðhlítandi ráðstafanir, hafa þær í gangi og svo framvegis. Vegalengdirnar eru líka þannig að ein áætlunin er til dæmis um 2.200 mílur og tekur um 16 klukkutíma með 11 áfangastöðum, en í því tilfelli þarf auðvitað að skipta um áhöfn á leiðinni. Þetta er svona svipað og að fljúga frá Keflavík til Englands og þaðan til Parísar, snúa við og fara sömu leið til baka með 11 viðkomustöðum."

Ólíkt flugi á Íslandi

En ferðirnar eu ekki alltaf norður í óbyggðir. Einn hringurinn er til dæmis frá Winnipeg til Dryden og Thunder Bay í Ontario og til baka. Þá er lagt af stað klukkan tvö að degi til og Sveinn er kominn heim um miðnættið. "Við megum vinna 14 tíma í beit og ef á þarf að halda er önnur áhöfn tilbúin á einhverjum áfangastaðnum," segir hann.

Manitoba er þekkt fyrir slétturnar og ekki er fjöllum fyrir að fara. "Það er mikill munur að fljúga hér og á Íslandi. Mesti munurinn liggur í veðráttunni, en hérna fyrir norðan er blindbylur í hverri viku á veturna og það er ansi kalt í 35 hnúta vindi og 40 stiga frosti. Reynt er að forðast að lenda á stöðum þar sem líkur eru á að teppast en það kemur fyrir að bíða þurfi af sér veðrið einhvers staðar. Aðflugið er eins og í fjallalandi en lágmarkshæðirnar eru töluvert lægri hér og aldrei þarf að hafa áhyggjur af fjöllum hér á sléttunni - engin hætta er á að rekast á. Annars er þetta eins og að vera kominn til Íslands þegar komið er á norðurhluta Baffin-eyju, en þar eru fjöllin mjög svipuð og á Íslandi."

Góður staður

Sveinn Arnbjörnsson, sem er 38 ára, kvæntist Marie á Gimli í Manitoba 1985 og eiga þau þrjú börn, Jónas 4 ára, Heiðu 7 ára og Dönu 10 ára. Marie, sem er af úkraínskum ættum og starfar við ungbarnaeftirlitið, fór til Íslands 1982 til að læra málið, vann í fiski á Höfn sem og á hótelinu á staðnum en þau kynntust fyrir austan og fluttu til Gimli 1987. "Hún vann líka á dagheimili og þar komst hún ekki upp með annað en tala málið sem börnin skildu. Hún talar mjög góða íslensku og er "íslenskari" en margir af íslenskum ættum, en það er erfitt að kenna börnunum málið. Rétt eins og erfitt er fyrir íslenska krakka að halda málinu því allt fer fram á ensku. Börnin okkar skilja samt svolítið í málinu."

Sveini finnst ekkert að því að búa á Gimli en sækja vinnu til Winnipeg. "Þó ég þurfi að keyra nær 100 kílómetra til að fara í vinnuna finn ég ekki fyrir því. Í fyrsta lagi þarf ég ekki að fara nema tvisvar til þrisvar í viku en það eru margir sem fara oftar til Winnipeg án þess að það sé vegna vinnu. Yfirleitt vinn ég 14 til 16 daga í mánuði og er oft að heiman í tvo til þrjá daga í einu, en nýt þess svo að vera hérna þess á milli. Það er mjög gott að búa á Gimli. Þetta er fámennur staður, lítið sveitarfélag, og hér býr mjög gott fólk. Sérstaklega er gaman hérna á sumrin og þá setur athafnalífið við höfnina og fjölmennið á ströndinni mikinn svip á umhverfið. En því er ekki að leyna að það tók mig þrjá vetur að venjast kuldanum og ég þurfti líka að venjast moskítóflugunum. Það þarf bara að láta þær sækja á sig á vorin því þá verða þær ekki slæmar þegar líður á sumarið."

Sveinn segir að almennt sé fólk mjög virkt í félagslífi á Gimli og þar sé gott að ala upp börn. "Hér eru engir glæpir og ástæðulaust að óttast um börnin, en til marks um vinsældir staðarins má nefna að fólk sem þarf að flytja víða starfs síns vegna leggur gjarnan áherslu á að eiga hér húsnæði þegar það er hætt að vinna og komið á ellilaun. Það segir ansi margt."