56 milljóna króna tap varð á rekstri Kaupfélags Héraðsbúa á síðasta ári, sem er helmingi meira en árið áður. Helstu skýringar á verri afkomu eru vaxtakostnaður, tap á kjötafurðum og söluskála á Egilsstöðum og að kostnaðarhækkanir fóru úr böndum.
Velta ársins var 2.157 milljónir króna, sem er svipað og árið 1999. Rekstrartekjur námu 2,1 milljarði króna. Veltufé frá rekstri var neikvætt um 8,5 milljónir, en var jákvætt árið áður um 15 milljónir.
Eignir KHB námu um áramót 1.639 milljónum króna og var eiginfjárhlutfall 22,5%. Skuldir eru tæpar 1.300 milljónir. Þá voru afskriftir 47 milljónir króna og fjármagnskostnaður 69 milljónir króna, en var 14 milljónir árið á undan.
Talsverðar breytingar hafa orðið í rekstri félagsins, sem m.a. kemur fram í því að meðalfjöldi starfsmanna miðað við heilsársstörf var 120 árið 2000 en árið á undan 168.
Á síðasta ári seldi KHB sláturhús sín til Goða hf. og hætti jafnframt slátrun. Brauðgerð KHB á Egilsstöðum var leigð til starfsmanna. Bókaverslunin Eskja á Eskifirði var seld og tekin á leigu verslun Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga. Þá var samið við Samkaup um keðjusamstarf. Nú eru því reknar 5 sparkaupsverslanir og ein samkaupsverslun á Austurlandi. Þá keypti KHB Mólkursamlagið á Neskaupstað í fyrra, en þau kaup færast á árið 2001.
Aðalfundur Kaupfélags Héraðsbúa var haldinn á Egilsstöðum sl. laugardag. Ingi Már Aðalsteinsson kaupfélagsstjóri sagði reksturinn hafa verið þungan á síðasta ári, en hann reiknar með að rekstur þessa árs verði hallalaus.
Málefni afurðastöðva voru í brennidepli á aðalfundinum. Töluverður hiti var í mönnum á vegna málefna Goða hf., en félagsmenn hafa margir áhyggjur af þátttöku KHB í fyrirtækinu og miklum fjárútlátum vegna slæmrar stöðu Goða. Einn stjórnarmanna sagði það hugsanlega hafa verið dómgreindarleysi að ganga inn í fyrirtækið. Fundurinn samþykkti áskorun til stjórnar um að vinna málefni Goða á sem farsælastan hátt fyrir KHB.
Þá var samþykkt svohljóðandi ályktun til landbúnaðarráðherra og yfirdýralæknis: "Aðalfundur KHB, haldinn 31. mars 2001, vekur athygli landbúnaðarráðuneytisins og embættis yfirdýralæknis á því, að innan fárra vikna hefjist siglingar farþegaferjunnar Norrænu til Seyðisfjarðar. Fundurinn hvetur til að þegar verði hafinn undirbúningur að róttækum aðgerðum til að hindra að gin- og klaufaveiki berist til landsins með Norrænu."
Húsasmiðjan hyggst opna verslun á Egilsstöðum innan skamms og kom fram á fundinum að sem mótvægisaðgerð hefur verið gengið frá samstarfssamningi milli byggingavörudeildar KHB og BYKO. Hefur 36 milljónum verið varið til undirbúnings byggingar 1000 ferm húss á lóð timbursölu KHB til að bæta þar aðstöðu.
Stjórn Kaupfélags Héraðsbúa skipa nú Aðalsteinn Jónsson, Jón Júlíusson, Jónas Guðmundsson, Sveinn Þórarinsson og Þórdís Bergsdóttir. Í varastjórn sitja Björn Ármann Ólafsson, Jónas Hallgrímsson og Lárus Sigurðsson.
Egilsstöðum. Morgunblaðið.