FRÍMERKJAKAUPMENN hafa á liðnum árum vikið að því við mig, að á það skuli bent í frímerkjaþætti, að menn fari gætilega að, þegar verið sé að taka til í gömlum dánarbúum og henda því, sem menn telja fánýtt og jafnvel einskis virði.

FRÍMERKJAKAUPMENN hafa á liðnum árum vikið að því við mig, að á það skuli bent í frímerkjaþætti, að menn fari gætilega að, þegar verið sé að taka til í gömlum dánarbúum og henda því, sem menn telja fánýtt og jafnvel einskis virði. Skiptir þá litlu eða jafnvel engu, hvort um er að ræða muni, sem er ekki lengur þörf fyrir eða í tízku í nútímaþjóðfélagi, en menn vilja samt ógjarnan fleygja út á haug eða í Sorpu, svo að notað sé nútíðarmál. Menn hafa líka séð, að þessir munir hafa margir hverjir sögulegt gildi. Má þar minna á gömul búsáhöld og amboð, sem forfeður okkar notuðu við dagleg störf sín. Sem betur fer er margt af þessu komið á byggðasöfn, þar sem ókomnar kynslóðir geta virt þessa gömlu muni fyrir sér og þá jafnvel í sögulegum húsum, sem flutt hafa verið á safnsvæðið, oft um langan veg. Hef ég þá m.a. í huga hið mikla björgunarstarf vinar míns, Þórðar Tómassonar í Skógum undir Eyjafjöllum.

Vissulega er mörgum vorkunn, ekki sízt á þeim velferðartímum, sem við lifum á, þegar flestir virðast hafa allt til alls, að átta sig á, hvað gera skuli við "allt þetta drasl", sem safnazt hefur saman í áranna rás og fer oft heldur illa í sambúð í nútíma heimilum. Þá verður þrautalending eftirkomendanna oft sú að losa sig við sem mest "á einu bretti" og farga því með einum eða öðrum hætti. En hér er samt margs að gæta, enda mætti segja mér, að menn geti síðar séð eftir því að hafa verið heldur fljótir á sér við "hreingerninguna".

Hér vil ég vekja athygli á einum þætti þessa oft viðkvæma máls, en það er varðveizla bréfasafna, sem margur lætur eftir sig að vegferð lokinni. Ég hef grun um, að margur erfinginn vilji helzt ekki, að þau bréf komist í hendur óviðkomandi, einkum mjög persónuleg bréf, og það er í raun ofur skiljanlegt. Hinu verður samt ekki neitað, að bréf þeirra manna, sem voru eða eru fyrirferðarmiklir í lífi sínu og koma víða við, eru oft betur geymd en gleymd fyrir samtímasögu þeirra og eins þjóðarsöguna. Dettur mér hér í hug maður eins og Einar Benediktsson, sem var mikill athafnamaður um næstliðin aldamót og á fyrstu áratugum síðustu aldar. Oft hefði verið erfitt að skrifa sögu hans og rekja jafn nákvæmlega og Guðjón Friðriksson hefur gert, ef bréfa- og skjalasafn Einars og margra samstarfsmanna hans hefði ekki varðveitzt að öllu eða einhverju leyti.

En frímerkjasafnarinn lítur ekki alveg sömu augum á silfrið. Hann hugsar einkum um umslögin utan af bréfunum og þeim frímerkjum og stimplum, sem þar eru á, enda þótt bréfin mættu gjarnan fylgja með.

Hér er ég kominn að því, sem ég vil segja í frímerkjaþætti við alla þá, sem handleika gömul bréf og umslög: Farið að öllu með gát og hendið þeim ekki eða rífið frímerkin af þeim. Ráðfærið ykkur við frímerkjakaupmenn eða safnara, áður en þið gerið það. Þetta segi ég að fenginni reynslu og eins af sögusögnum um mörg umslögin, sem hafa af hugsunarleysi farið forgörðum.

Fyrir mörgum árum skrifaði ég frímerkjaþátt, þar sem var einmitt bent á þetta mál. Síðan hef ég haft af því spurnir, að einhverjir lesendur hafi tekið til greina það, sem þar sagði, og með góðum árangri. Þetta vil ég því endurtaka hér og ekki sízt, þar sem enn er verið "að taka til" í gömlum dánarbúum.

Fyrir og um næstliðin aldamót og raunar lengur var það algengur siður, að menn geymdu bréf frá vinum og kunningjum í umslögunum og skrifuðu jafnvel aftan á þau, hvenær þeir fengu þau í hendur. Hið sama mun hafa gilt um viðskiptabréf fyrirtækja. Síðan munu þessi söfn oft hafa verið bundin saman eftir árum og þeim svo komið fyrir til geymslu á stöðum, þar sem þau voru ekki fyrir, en þó aðgengileg, ef á þyrfti að halda. Þannig mynduðust margir "árgangar" af bréfum.

Ýmsum sögum hefur farið um örlög þessara hluta, þegar fram liðu stundir, og því miður margt farið í glatkistuna í áranna rás. Þó má sjá í frímerkjasöfnum, að mörgu hefur verið bjargað, trúlega oft fyrir hreina tilviljun. Jafnvel hafa umslög verið komin út í ruslatunnur, en dregin þaðan upp af athugulum eða forvitnum mönnum og síðan orðið þeim til hagsbóta, söfnurum til gleði og póstsögu til framdráttar. Hér má enn minnast á Einar Benediktsson. Hann gaf fyrstur manna út dagblað á Íslandi, Dagskrá, nokkru fyrir aldamótin 1900. Hann stóð því í sambandi og bréfaskriftum við umboðsmenn og áskrifendur víða um land. Hann virðist hafa geymt bréfasafn sitt frá þeim árum, því að umslög og bréfspjöld til hans og blaðsins má sjá í ýmsum ágætum íslenzkum frímerkjasöfnum. Fylgir hér mynd af einu slíku umslagi.

Af sjálfu sér leiðir, að í upphafi 21. aldar verður æ sjaldgæfara að finna óvænt slík bréfasöfn, a. m. k. jafn áhugaverð fyrir frímerkjasafnara og hér hefur verið vikið að. Engu að síður er sjálfsagt, að menn hafi augun opin, ef eitthvað slíkt kemur fyrir sjónir þeirra. Þá er sjálfsagt að velta fyrir sér fallega frímerktum og vel stimpluðum umslögum frá fyrri hluta síðustu aldar og eins eftir árið 1944, þ. e. frá fyrstu áratugum lýðveldisins, áður en Sorpa gleypir þau.

Að endingu er hér enn ein ábending til safnara og póstnotenda. Eins og kunnugt er, hefur Íslandspóstur hf. markvisst unnið að því að útrýma frímerkjum á póstsendingum sínum og nota þess í stað gúmstimpla, sem eru einskis virði að mínum dómi. Hins vegar leiðir af þessu, að umslög og kort með þeim frímerkjum, sem nú eru gefin út og eru fallega stimpluð, verða góðir safngripir, þegar fram líða stundir. Hvet ég því alla, sem áhuga hafa á frímerkjum, að halda þeim póstsendingum til haga og nota jafnframt frímerki sem mest á bréf sín og sendingar til vina og kunningja. Þau umslög og kort eiga eftir að gleðja margan safnarann á nýrri öld.

Jón Aðalsteinn Jónsson