SKÝRSLA Byggðastofnunar um áhrif fiskveiðistjórnunarkerfisins á byggðaþróun á Íslandi, sem birt var fyrir skömmu, kom mjög til umræðu í utandagskrárumræðu á Alþingi í gær. Guðjón A.

SKÝRSLA Byggðastofnunar um áhrif fiskveiðistjórnunarkerfisins á byggðaþróun á Íslandi, sem birt var fyrir skömmu, kom mjög til umræðu í utandagskrárumræðu á Alþingi í gær. Guðjón A. Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda flokksins og málshefjandi umræðunnar, sagði að í umræðunni um skýrsluna hafi sjávarútvegsráðherra brugðist við með því að segja að lög um frjálst framsal aflaheimilda hefðu haft lítil áhrif á byggðaröskun í landinu.

Þessa fullyrðingu ráðherrans sagði Guðjón vera öfugmæli. Hann sagði að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hafi strax árið 1990 lýst yfir áhyggjum sínum af því lögin um frjálst framsal aflaheimilda myndi leiða af sér byggðaröskun, misvægi milli einstakra útgerðarflokka og auka tekjumun milli sjómanna. Hann sagði að skýrsla Byggðastofnunar staðfesti í mörgu þau varnaðarorð sem sögð voru fyrir meira en áratug síðan. "Margir þingmenn hafa á liðnu árum áttað sig á því að lögin um frjálsa kvótaframsalið frá árinu 1990 eru einhver verstu lög sem sett hafa verið á Alþingi og eru tilbúnir að breyta þeim, afnema braskið og færa réttinn aftur til fólksins í sjávarbyggðunum. Engan afturbata er hinsvegar að sjá hjá hæstvirtum sjávarútvegsráðherra og mörgum stjórnarþingmönnum. Ráðherrann minnir í þessu máli á frosið tré í þéttum skógi, þar sem ekki er nægilegt rými til að skipta um skoðun, enda þétt að honum staðið af eintrjáningum stórgreifanna sem telja meira en sjálfsagt að hagræðingin sé aðeins fyrir stórfyrirtækin og á kostnað fólksins í sjávarbyggðunum," sagði Guðjón.

Ýmsar aðrar breytingar haft áhrif á byggðaþróun

Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, sagði að skýrsla Byggðastofnunar væri um margt athyglisverð. Hins vegar væri hann ósammála þeirri fullyrðingu skýrsluhöfundar um að frjálst framsal veiðiheimilda hefði víðtækar afleiðingar á þróun byggðar í landinu. Ekki væri reynt að draga ályktun af efni skýrslunnar til að standa undir þessari fullyrðingu. Með þessu væri hann hinsvegar ekki að segja að breytingar í sjávarútvegi og starfsumhverfi sjávarútvegs hafi ekki haft áhrif á þróun byggðar í landinu. Sagði Árni að framsal hafi verið virkt í kvótakerfinu allt frá upphafi en ýmsar aðrar breytingar hafi einnig átt sér stað í kerfinu. Þannig hafi orðið töluverður samdráttur í afla, útflutningur á fiski hafi verið gefinn frjáls sem og verðmyndun á fiski. Þessar breytingar hafi allar kallað á meiri samkeppni um hráefni en áður og þyngdarpunkturinn í íslenskum sjávarútvegi hafi flust af vinnslunni yfir til útgerðarinnar. "Þessar breytingar urðu bæði á landvinnslunni sjálfri og eins að vinnslan fluttist í meira magni út á sjó. Þetta þýddi að það urðu færri árskverk í fiskvinnslu en áður. Þessar breytingar tel ég að skipti miklu meira máli en framsalið gerði. Jafnvel þó að framsalið hefði beinlínis verið bannað, hefði orðið tilflutningur á aflaheimildum og það hefði orðið hagræðing með sameiningum fyrirtækja. Ef þessi sveigjanleiki hefði ekki verið hefðum við fryst atvinnugreinina eins og hún var á tilteknum tíma og hún hefði þá ekki getað brugðist við og skapað þau verðmæti sem hún hefur skapað okkur frá því að við hófum þessar breytingar," sagði Árni.

Ekki lengur hægt að búa við óbreytt kerfi

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, sagði skýrslu Byggðastofnunar staðfesta að gjörbreyting hafi orðið á starfsumhverfi íslensks sjávarútvegs á síðustu árum. Hann sagði framkvæmd laga um stjórn fiskveiða hafa leitt til mikils tilflutnings á fiskveiðiheimildum milli byggðarlaga, þar sem ákveðin landsvæði og einstaka byggðarlög hafi borið skarðan hlut frá borði. Hann sagði íbúa við strendur landsins búa við mikið óöryggi, enda hefðu þeir ekkert að segja um ráðstöfun fiskveiðiheimildanna eða aflann þegar hann kemur að landi. Skýrsla Byggðastofnunar undirstriki það að ekki sé lengur hægt að búa við óbreytt kerfi.

Karl V. Matthíasson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði skýrslu Byggðastofnunar taka af öll tvímæli um að framkvæmd fiskveiðistjórnunarkerfisins hafi verið mörgum byggðum landsins mjög dýrkeypt. Nokkur byggðarlög hafi tapað miklum kvóta og þar með hafi fólk sem unnið hefur við fiskvinnslu misst vinnu sína. "Í beinu framhaldi af því hafa tekjur sveitarfélaganna minnkað. Margföldunaráhrifin eru mikil og þjónusta sveitarfélaganna verður minni en skuldirnar meiri og meiri eftir því sem svikamylla kerfisins malar og malar," sagði Karl.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði sjávarútvegsstefnuna hafa afgerandi áhrif á aðstæður og framtíðarmöguleika byggðarlaga við sjávarsíðuna, einkum þeirra smærri. Sagði Steingrímur nauðsynlegt að vinda ofan af kerfinu. Eina varanlega lausnin væri tengja einhvern grundvallaratvinnurétt við byggðarlögin.

Vilhjálmur Egilsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að til að byggja upp samkeppnishæfan atvinnuveg þurfi að vera samkeppni á milli fyrirtækja í greininni. Það hafi í för með sér samkeppni á milli byggðarlaga sem byggist á atvinnugreininni. "Það er verkefni stjórnenda í sjávarútvegsfyrirtækjunum að rísa undir kröfum fólks um bætt lífskjör. Stjórnendur fyrirtækja hafa sannarlega verið að rísa undir þessum kröfum og fært landsmönnum 25% kaupmáttaraukningu á fimm ára tímabili milli áranna 1995 og 2000. Fyrirtæki sem ekki rísa undir þessum kröfum líða undir lok, missa sitt starfsfólk og fá ekki fjármagn. Það er ekki hægt að vernda byggðir með því að hamla gegn framförum og afnema samkeppni í helstu atvinnugrein viðkomandi byggða. Frjálst framsal er einn af mörgum þáttum sem skapa virka samkeppni innan sjávarútvegsins," sagði Vilhjálmur.

Árni R. Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að skoða yrði fleiri þætti en flutning aflaheimilda þegar rætt væri um byggðarþróun í landinu. Hann sagði að til dæmis hefði samruni sjávarútvegsfyrirtækja haft mikil áhrif á byggðaþróun í landinu. Einnig hafi fiskiskip skipt um eigendur og fyrirtækin hagrætt í rekstri sínum. Árni sagði að ekki síst hafi orðið flutningur á fyrirtækjum á milli landshluta og byggðarlaga. Einnig benti Árni á að stór hluti afla smábáta er sendur frá löndunarstað til vinnslu.

Eina leiðin að bjóða heimildirnar upp

Svanfríður Jónasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að eina leiðin til að tryggja að sambærilegt jafnræði gæti orðið meðal þegnanna, og áður en aðgangurinn að auðlindinni var takmarkaður, væri að bjóða upp veiðiheimildirnar og gefa þannig öllum kost á að nálgast þær. Með því fengju sjávarbyggðirnar aftur notið sérstöðu sinnar. Þannig kæmist líka aftur á eðlilegt rekstrarumhverfi í stað þess einokunarkerfis sem nú ríkir. Svanfríður sagði að fyrst þyrfti að vinda ofan af gildandi úthlutunarkerfi með því að innkalla skipulega þann kvóta sem útgerðin hafi nú til ráðstöfunar. Hann yrði síðan boðinnupp jafnharðan og á ákveðnum tíma yrðu allar veiðiheimildir komnar á markað og útgerðaraðilar þannig jafnt settir að allir þurfi að greiða fyrir veiðiréttinn. Andvirðið rynni til þjóðarinnar og mætti til dæmis verja til endurskipulagningar atvinnulífsins svo byggðir geti haldið áfram að blómstra þó áfram fækki fólki við veiðar og vinnslu.