STURLA Böðvarsson samgönguráðherra hefur falið Flugmálastjórn að grípa til ýmissa ráðstafana til að efla eftirlit með flugrekendum á Íslandi, einkum þeim sem reka minni flugvélar. Í bréfi samgönguráðherra til Flugmálastjórnar kemur fram að í skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa vegna flugslyssins þegar TF-GTI brotlenti í Skerjafirði í fyrra, hafi komið fram að ákvæði reglugerðar um flutningaflug hafi verið brotin og alvarleg vanræksla hafi komið fram á faglegum grundvallarþætti í flugrekstri Ísleifs Ottesen.
Lagt er fyrir Flugmálastjórn að setja fram áætlun um hvernig hún hyggist bregðast við þeim sex tillögum í öryggisátt sem rannsóknarnefndin beindi til Flugmálastjórnar í skýrslunni. Ráðuneytið mun á næstunni skipa starfshóp til að gera tillögur um ákveðnari úrræði til að svipta flugrekstraraðila leyfum, tímabundið eða endanlega og er Flugmálastjórn beðin að skipa fulltrúa sinn í starfshópinn. Þá er Flugmálastjórn gert að hafa sérstakt eftirlit með flugrekendum sem reka flugvélar í flutningaflugi sem eru undir 10 tonnum að þyngd og geta flutt 19 farþega eða færri til 1. júní 2002 þegar svonefndar JAR OPS 1-reglur ganga að fullu í gildi.
Samgönguráðuneytið hefur komist að samkomulagi við Leiguflug Ísleifs Ottesen um að samningi við ráðuneyti heilbrigðismála og samgöngumála skuli ekki fram haldið. Segir ráðherra það gert með sérstökum samningi eftir athugun lögfræðinga í stað þess að rifta samningnum. Slíkt hefði getað þýtt að ríkið yrði krafið um miklar fébætur.