AÐALFUNDUR Íslandssíma hf. var haldinn í gær. Þar kom fram í ræðu stjórnarformanns, Páls Kr. Pálssonar, að heildarvelta samstæðunnar hefði í fyrra verið um 790 milljónir króna, sem sé umfram þau markmið sem félaginu hafi verið sett í lok árs 1999. Árið í fyrra var fyrsta heila rekstrarár félagsins, en árið á undan voru tekjur félagsins 12 milljónir króna.
Eyþór Arnalds, forstjóri Íslandssíma, sagði í skýrslu sinni til fundarins að markmið félagsins væri að vera með yfir hálfan annan milljarð króna í tekjur á yfirstandandi ári. Þá væri gert ráð fyrir hagnaði á árinu, en í fyrra var tap félagsins tæpur hálfur milljarður króna.
Eignir fjórfölduðust milli ára
Mikil uppbygging hefur átt sér stað hjá félaginu. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum nam rúmum hálfum öðrum milljarði króna, þar af fóru um 80% í fjarskiptabúnað. Innborgað hlutafé nam tæpum 1,1 milljarði króna á árinu og ný langtímalán voru tekin að upphæð rúmar 250 milljónir króna. Stærsti þáttur fjármögnunar var hækkun skammtímaskulda upp á tæpa 1,4 milljarða króna. 880 milljónir króna af þessari upphæð var breytanlegt skuldabréf hjá Landsbanka Íslands. Bankinn hefur heimild til að breyta höfuðstóli lánsins í hlutafé að nafnverði allt að 55 milljónir króna og gildir heimildin til loka júní á þessu ári. Hlutafé er nú 388 milljónir króna.Alls jukust eignir félagsins úr rúmum einum milljarði króna í tæpa fjóra milljarða króna. Hluti aukinna umsvifa félagsins fólust í fjárfestingum þess í öðrum félögum. Hæst ber fjárfestingar í Íslandssíma GSM ehf., Interneti á Íslandi hf. og Fjarskiptafélaginu Títan hf., samtals að fjárhæð tæplega 1,2 milljarðar króna.
Ýmis sóknarfæri fyrir hendi erlendis
Á fundinum kom fram að Íslandssími hafi hafið útrás með stofnun TeleF í Færeyjum, en Íslandssími á 50% í því félagi. Forstjóri sagði ýmis önnur sóknarfæri vera fyrir íslensk fjarskiptafyrirtæki erlendis og mikil þekking sé á þessu sviði hér á landi. Íslandssíma bjóðist ýmis tækifæri um þessar mundir. Þá sé ekki síður áhugaverður kostur að flytja þekkingu út beint og Íslandssími hafi þróað reikninga- og þjónustukerfi, cWell, í samstarfi við IBM og Ericsson. Kerfið sé að fullu í eigu Íslandssíma en þrír aðilar noti það í dag. Mikil fjölgun smærri fjarskiptafyrirtækja í Evrópu sé viðskiptatækifæri fyrir cWell sem vert sé að skoða af fullri alvöru og hafi stjórnin ákveðið að setja þetta verkefni í sjálfstætt fyrirtæki, sem miklar vonir séu bundnar við.
8% hlutdeild í hefðbundinni símaþjónustu heimila
2.000 GSM-farsímasamningar hafa verið gerðir frá því farið var að bjóða þá þjónustu fyrir nokkrum vikum. Forstjóri félagsins segir að viðskiptavinir ættu að óbreyttu að vera orðnir 20.000 í árslok. Fyrirtæki í heildarþjónustu eru nú yfir 200, sem er meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þar af eru 34 af 100 stærstu fyrirtækjum landsins og þrjú af stærstu sveitarfélögunum í viðskiptum við Íslandssíma. Íslandssími er með 10% hlutdeild í símtölum út úr landinu og 20% inn í landið. Hlutdeild Íslandssíma í hefðbundinni símaþjónustu við heimili er nú um 8%, en þjónustan var fyrst boðin í nóvember í fyrra.Hluthafar voru 751 í lok síðasta árs og hafði þeim þá fjölgað um 706 á árinu. Aðeins Burðarás ehf. og 3P Fjárhús hf. eiga yfir 10% í Íslandssíma, en þau eiga 14% hvort félag.
Líkur á tveimur skráðum fjarskiptafyrirtækjum fyrir árslok
Stjórnarformaður greindi frá því að unnið sé að undirbúningi fyrir skráningu félagsins á aðallista Verðbréfaþings Íslands. Tekin hafi verið ákvörðun um að ljúka þessu ferli fyrir mitt ár samhliða útboði á nýju hlutafé. Hann sagði miklar líkur vera til þess að fyrir lok þessa árs muni almenningi og fagfjárfestum bjóðast hlutabréf í tveimur skráðum fjarskiptafyrirtækjum á Verðbréfaþingi Íslands. Það muni efla bæði innlendan hlutabréfamarkað og fjarskiptaiðnað.Á aðalfundinum, þar sem mætt var fyrir 67,19% hlutafjár, var samþykkt samhljóða að greiða ekki út arð fyrir síðasta ár. Fundurinn kaus félaginu nýja stjórn. Í henni sitja Páll Kr. Pálsson, Kristján Gíslason, Margeir Pétursson og Vilhjálmur Þorsteinsson, sem allir áttu sæti í fyrri stjórn. Eyþór Arnalds hætti í stjórn en Stefán H. Stefánsson kom nýr inn.