FLUGMÁLASTJÓRN Íslands hefur verið falið að grípa til ýmissa ráðstafana til að efla eftirlit með flugrekendum á Íslandi, einkum þeim sem reka minni flugvélar, auka eftirlit með skoðunum á vettvangi og að tilnefna mann í starfshóp sem gera á tillögur um...

FLUGMÁLASTJÓRN Íslands hefur verið falið að grípa til ýmissa ráðstafana til að efla eftirlit með flugrekendum á Íslandi, einkum þeim sem reka minni flugvélar, auka eftirlit með skoðunum á vettvangi og að tilnefna mann í starfshóp sem gera á tillögur um hvernig auka má úrræði til sviptingar flugrekstrarleyfis endanlega eða tímabundið.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti í gær fjölmiðlum bréf sem hann sendi Flugmálastjórn í gær í framhaldi af skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa frá 23. mars vegna flugslyssins í Skerjafirði 7. ágúst í fyrra. Segir þar að í skýrslunni og bréfi flugmálastjóra 29. mars sl. hafi komið fram að ákvæði reglugerðar um flutningaflug, nr. 641/1991, hafi verið brotin og að alvarleg vanræksla hafi komið fram á faglegum grundvallarþætti í flugrekstri Leiguflugs Ísleifs Ottesen. Síðan segir í bréfi samgönguráðherra:

"Ráðuneytið lítur mál þetta allt mjög alvarlegum augum og telur brýnt að eftirlit með flugrekendum á Íslandi, einkum þeim sem reka minni flugvélar, verði eflt og mun fyrir sitt leyti stuðla að því að svo geti orðið," og er flugmálastjóra síðan falið að grípa til ýmissa ráðstafana sem taldar eru upp í sex liðum.

Minnt er í fyrsta lagi á auglýsingu um að 1. október næstkomandi verði tekin upp svonefnd JAR OPS 1-reglugerð fyrir flugrekendur með flugvélar í flutningaflugi sem eru undir 10 tonnum að þyngd og geta flutt 19 farþega eða færri. "Flugmálastjórn ber að tryggja að þau tímamörk sem flugrekendum eru sett í auglýsingunni verði virt," segir í bréfi ráðherra.

Þá segir að flugrekendur þessara minni flugvéla skuli sæta sérstöku eftirliti fram til 1. júní 2002 þegar JAR OPS 1 hafi að fullu tekið gildi fyrir þessa aðila. Óskar ráðuneytið eftir að fá senda greinargerð um niðurstöðu eftirlitsins.

Þá vísar samgönguráðherra í sex tillögur í öryggisátt sem rannsóknarnefnd flugslysa setti fram í skýrslu sinni og leggur til við Flugmálastjórn. Fjalla þær m.a. um að verklagsreglur flugöryggissviðs Flugmálastjórnar er varða skráningu notaðra loftfara verði endurskoðaðar, að komið verði á gæðakerfi fyrir flugöryggissvið stofnunarinnar, að flugrekstrardeild flugöryggissviðs geri áætlun um formlegar úttektir á flugrekendum, að hún leggi áherslu á að viðhaldsaðilar flugvélar haldi nákvæma skráningu um viðhald sem framkvæmd er, að sett verði ákvæði í flugrekstrarhandbækur um aðgang farþega að framsæti við virk stýri þegar einn flugmaður stýrir flugvél og að hún efli eftirlit með flugi tengdu þeim miklu mannflutningum sem eiga sér stað í tengslum við þjóðhátíðina í Eyjum. "Ráðuneytið óskar eftir áætlun Flugmálastjórnar um á hvern hátt stofnunin muni bregðast við framangreindum tillögum rannsóknarnefndar flugslysa," segir í bréfinu. Þá segir í bréfinu að í umfjöllun um málið hafi Flugmálastjórn sett fram þá skoðun að stofnunin telji þau úrræði vera ófullnægjandi sem loftferðalög heimila henni að grípa til vegna sviptingar flugrekstrarleyfis, endanlega eða tímabundið. Samgönguráðherra sagði að ráðuneytið muni á næstunni skipa starfshóp til að gera tillögur um að koma á öflugri ákvæðum varðandi þessi atriði og er í bréfinu óskað eftir tilnefningu Flugmálastjórnar á fulltrúa í starfshópinn.

Flugvakt flugmanns TF-GTI í ferðinni 7. ágúst er einnig gerð að umtalsefni í bréfi samgönguráðherra. Er vísað í skýrslu RNF þar sem segir að vakt hans hafi verið orðin 13 klukkustundir og ferðin hafi verið sú 22. yfir daginn. "Þar sem hér er um brot á vinnutímareglum að ræða óskar ráðuneytið eftir upplýsingum um hvernig eftirliti er háttað með vinnutíma flugmanna."

Sjötta atriðið sem Flugmálstjórn er gert að grípa til er eftirfarandi: "Til að auka enn frekar öryggi í flugi telur ráðuneytið mikilvægt að eftirlit Flugmálastjórnar byggist í auknum mæli á skoðunum á vettvangi og úttektum á öryggisþáttum flugreksturs og loftfara."

Óskað greinargerðar eftir úttekt ICAO

Niðurlag bréfs samgönguráðherra er svofellt: "Það er grundvallaratriði að trúnaðarsamband ríki milli flugmálayfirvalda og almennings og flugfarþegar geti treyst því að öryggisreglum sé réttilega framfylgt og að öryggiseftirlit sé fullnægjandi. Tryggja þarf að öllum aðilum sem flug stunda sé ljóst það hlutverk og sú ábyrgð sem viðkomandi gegna í flugöryggismálum og efla þarf samvinnu allra hlutaðeigandi með það að markmiði að tryggja skilvirkari framkvæmd öryggismála í flugi.

Af þessu tilefni mun ráðuneytið leita til Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) um greinargerð sem felur í sér mat á stöðu flugöryggismála á Íslandi byggt á úttekt ICAO sem gerð var í september 2000."