Eyjakonur voru ekki öfundsverðar að taka á móti Haukum eftir að hafa tapað stórt í Hafnarfirðinum í fyrsta leiknum.Það var þó ekki að sjá á leik liðsins í upphafi fyrri hálfleiks. ÍBV kom ákveðið til leiks og var yfir fram undir miðbik hálfleiksins. Þá komu Haukar sterkir til baka og náðu að komast yfir með marki Brynju Steinsen í stöðunni 4:4. Í kjölfarið kom góður leikkafli hjá Haukum með Brynju beitta í sókninni og Jennýju Ásmundsdóttur góða í markinu. Eyjastúlkur voru óheppnar með stangarskot í fyrri hálfleik og fóru ófá skot þeirra í markrammann. Að sama skapi voru Haukastúlkur að klúðra vítaköstum.
ÍBV lék vel í upphafi síðari hálfleiks og í þrígang gat liðið komist í tveggja marka forystu en Jenný, markvörður, kom í veg fyrir það. Vendipunkturinn í leiknum var þegHarpa Melsteð, skoraði úr hraðaupphlaupi í stöðunni 16:17 fyrir Hauka og 5 mínútur lifðu leiks. Í framhaldi jókst bilið á milli liðanna og ÍBV reyndi án afláts að halda í við Hauka en án árangurs.
Lykilmenn hjá ÍBV stóðu sig engan veginn í leiknum og virtist sem svo að þeir væru ekki nógu hungraðir í að vinna. Upp úr stóð frammistaða Vigdísar Sigurðardóttur í markinu sem kom í veg fyrir að tapið yrði ekki stærra.
Hjá Haukum ber fyrst að nefna frammistöðu Jennýjar Ásmundsdóttur í markinu sem var hreint frábær á köflum. Þá voru það fyrirliðinn Harpa Melsteð, Brynja Steinsdóttir og Inga Fríða Tryggvadóttir sem stóðu sig vel. Ef Haukar spila eins vel og þeir hafa gert í þessum tveimur leikjum er fátt sem getur komið í veg fyrir að ÍBV verði að láta Íslandsmeistaratitilinn af hendi á Ásvöllum á morgun.
"Við vorum svolítið seinar í gang og við vissum að þær myndu bíta frá sér eftir útreiðina í Hafnarfirðinum. Við misstum trú á að vinna þær í smástund, síðan um miðjan síðari hálfleik áttuðum við okkur á því að við gætum unnið og einhverjir aukabensíndropar komu okkur aftur í gang. Við ætlum svo sannarlega að klára þessa rimmu í Hafnarfirði á laugardaginn og taka við Íslandsmeistaratitlinum. Ef við spilum eins og í kvöld hef ég litlar áhyggjur að okkur takist það ekki," sagði Harpa Melsteð, fyrirliði Hauka.
"Staðan er tvö núll en þessi rimma er upp í þrjú þannig að þetta er ekki búið ennþá. Þetta verður virkilega erfitt fyrir okkur en við erum ekkert búnar að gefast upp ennþá, en að fara 2:0 undir í Hafnarfjörðinn á laugardag er ekki öfundsvert. Við spiluðum ágætlega í fyrri hálfleik en vorum svolítið óheppnar með stangarskot. Í síðari hálfleik kom upp einhver þreyta í stelpunum og þær sýndu ekki sitt rétta andlit. Ég er virkilega ósáttur við mitt lið hvað leikinn í kvöld varðar en það þýðir ekkert að hengja haus," sagði Sigbjörn Óskarsson, þjálfari ÍBV, við Morgunblaðið eftir leikinn.
Skapti Örn Ólafsson skrifar