LIVERPOOL á góða möguleika á að tryggja sér sæti í úrslitum UEFA-keppninnar í knattspyrnu í vor. Liverpool sótti Barcelona heim á Camp Nou-leikvanginn glæsilega í Barcelona í gærkvöldi og hélt jöfnu en ekkert mark leit dagsins ljós Hitt spænska liðið í undanúrslitunum, Alaves, á hins vegar greiða leið í úrslitaleikinn eftir stórsigur á Kaiserslautern, 5:1.

Leikur Börsunga og Liverpool var frekar tilþrifalítill enda lítið um opin marktækifæri. Liverpool setti öryggið á oddinn og lék stífan varnarleik allt frá byrjun og liðsmönnum Bacelona tókst ekki að finna glufur á vel skipulagðri og sterkri vörn þrátt fyrir öflugan stuðning 90.000 áhorfenda. Börsungar áttu nokkur hálffæri en sóknarmennirnir Rivaldo og Patrick Kluivert voru ekki á skotskónum frekar en félagar þeirra því heimamenn náðu aðeins að koma einu skoti á mark Liverpool allan leikinn.

"Við getum ekki verið annað en ánægðir með þessi úrslit og ég er bjartsýnn á að okkur takist að vinna Barcelona á heimavelli eftir hálfan mánuð," sagði Finninn Sami Hyypia eftir leikinn en hann stjórnaði vörn Liverpool eins og hershöfðingi.

Leik Alaves og Kaiserslautern verður aðallega minnst fyrir stórsigur Alaves og að fjögur af sex mörkunum í leiknum komu af vítapunktinum. Alaves skoraði þrjú mörk úr vítaspyrnum og liðið gerði út um leikinn strax í fyrri hálfleik með því að skora þrjú mörk en Þjóðverjar náðu ekki að komast á blað fyrr en í seinni hálfleik þegar leikurinn var gjörtapaður.