SAMKEPPNISRÁÐ hefur sektað þrjú fyrirtæki á grænmetis- og ávaxtamarkaði fyrir brot á samkeppnis-lögum.
Þetta eru Sölufélag garðyrkjumanna, Ágæti
og Mata.
Þau eru sökuð um að hafa haft samráð um verð og skiptingu á markaði.
Er það í fyrsta sinn sem samkeppnisráð sektar fyrirtæki fyrir brot á lögum.
Samkeppnis-stofnun hóf rannsóknina í september. Í skýrslunni kemur fram að samráð fyrirtækjanna byrjaði á árinu 1995. Markmiðið var að draga úr samkeppni og hækka verðið umtalsvert á grænmeti, kartöflum og ávöxtum. Rannsóknin byggist meðal annars á minnisblöðum sem fundust við húsleit. Á einu þeirra greinir frá leynifundi framkvæmda-stjóra Mata og Sölufélagsins fyrir tveimur árum. Þar segir: "Hitti Pálma á labbi í Öskjuhlíð. Hann lagði mikla áherslu á að enginn frétti þetta sem hann sagði við mig."
Georg Ottósson, stjórnarformaður Sölufélags garðyrkjumanna, sagði að ákvörðun samkeppnisráðs kæmi á óvart. Að hans mati væri skýrsla ráðsins ófaglega unnin og yrði málinu áfrýjað.
Í skýrslunni er bent á að stjórnvöld verndi innlenda framleiðslu með því að leggja toll á innflutt grænmeti. Guðni Ágústsson landbúnaðar-ráðherra segir að unnið sé að því að endurskoða lög um innflutning á grænmeti til að auka samkeppni og lækka verð.