VERÐ á grænmeti hefur á síðustu 12 mánuðum lækkað um 10,9%. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,9%. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands en hún fylgist með smásöluverði frá einum mánuði til annars. Miklar sveiflur eru á verði grænmetis. Í maí sl. var verð á grænmeti 24,7% hærra en það var í ársbyrjun 1997. Verðið var hins vegar aðeins 9,5% hærra í síðasta mánuði miðað við það grænmetisverð sem var fyrir fjórum árum. Hafa þarf í huga að á fyrstu mánuðum ársins er stærstur hluti þess grænmetis sem er á markaðinum erlent grænmeti sem flutt er inn á lágum tollum.
Stærsti einstaki liðurinn í neysluverðsvísitölunni eru ferðir og flutningar (19,3%) og húsnæði, rafmagn og hiti (19,1%). Matur og drykkjarvara er 17,2% af neysluverðsvítitölunni. Þar af er grænmeti, kartöflur og fleira 1,3% af vísitölunni og ávextir eru 1%. Verð á ávöxtum og grænmeti er mjög breytilegt innan ársins. Verð á grænmeti er t.d. tiltölulega hátt yfir sumartímann en lækkar síðan í lok ársins þegar innflutt grænmeti kemur inn á markaðinn. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er verðið lægst á fyrstu mánuðum ársins en hækkar síðan mikið í maí en þær tölur byggja á verði eins og það var í apríl. Í lok mars og byrjun apríl leggjast einmitt háir tollar á innflutt grænmeti.
Samkvæmt síðustu tölum Hagstofunnar er verð á grænmeti 9,5% hærra en það var í mars árið 1997. Sé hins vegar miðað við verð á grænmeti eins og það var í október sl. var verðið 23% hærra en það var í mars 1997.
Fiskur hefur hækkað um 59,4% á fjórum árum
Almenn matvara hefur á síðustu fjórum árum hækkað um 15%. Kjöt hefur t.d. hækkað um 10,5%. Fiskur sker sig alveg úr þegar verðbreytingar eru skoðaðar á síðustu fjórum árum. Á þessu tímabili hefur fiskur hækkað um 39,8% og þar af hefur nýr fiskur og frosinn hækkað um 59,4%.Neysluverðsvísitalan hefur áhrif á verðtryggð lán og þess vegna hafa allar verðbreytingar áhrif á lánasummuna. 9,5% hækkun á verði grænmetis á fjórum árum hefur t.d. hækkað lánskjaravísitölu um 0,1%.