TILLAGA Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar, Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, til þingsályktunar um endurskoðun á starfsemi og stöðu Þjóðhagsstofnunar, fékkst ekki rædd á Alþingi í gær, þrátt fyrir sérstakar óskir flutningsmanna þar um.

TILLAGA Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar, Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, til þingsályktunar um endurskoðun á starfsemi og stöðu Þjóðhagsstofnunar, fékkst ekki rædd á Alþingi í gær, þrátt fyrir sérstakar óskir flutningsmanna þar um.

Forsætisnefnd Alþingis hafnaði ósk um að meðferð þingmálsins yrði hraðað og vísaði Guðjón Guðmundsson, starfandi forseti þingsins, til þess að samkomulag hefði náðst milli formanna allra þingflokka um tilhögun starfa þingsins í vikunni. Þá benti hann á að yfir fimmtíu þingmannamál biðu enn afgreiðslu og umrædd tillaga fengi því hefðbundna meðferð.

Steingrímur sagðist við upphaf þingfundar í gær harma þessa afstöðu og gat þess um leið að hann hefði hafnað því að ræða málið utan dagskrár í dag, föstudag. Sagðist hann heldur kjósa að málið fengi hefðbundna þinglega meðferð, en óskir um flýtimeðferð væru vitaskuld bornar fram í ljósi tíðinda af afskiptum forsætisráðherra af Þjóðhagsstofnun.

Bar Steingrímur fram þær óskir að forseti kæmi þeim skilaboðum til forsætisráðherra að engar ákvarðanir eða frekari aðgerðir framkvæmdar um Þjóðhagsstofnun fyrr en þetta mál hefði verið rætt á þingi.

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, tók undir kröfur vinstri grænna og sagði ástæðu til að víkja frá samkomulagi um störf þingsins, þar eð það hefði verið gert áður en forsætisráðherra hefði gripið inn í málefni Þjóðhagsstofnunar og síðan lýst því yfir að hann hygðist leggja niður stofnunina án þess að breyta lögum.

"Mikið er langlundargeð þitt, Framsókn"

"Það vill svo til að í gildi eru lög um Þjóðhagsstofnun. Í þau lög er bundið sérstakt ákvæði um hvaða verkefni stofnunin á að vinna. Það er því ekki hægt að flytja verkefni frá stofnuninni nema að breyta lögum," sagði Össur og bætti við: "Þegar forsætisráðherra og starfsmenn hans gefa til kynna opinberlega að í reynd eigi að flytja verkefni frá stofnuninni, flæma starfsfólkið í burtu og skilja stofnunina sjálfa eftir sem tóma og dauða skel er hann að lýsa því yfir að hann hyggist brjóta lög."

Enginn þingmaður Framsóknarflokksins tók til máls í umræðunni, frekar en áður um málefni Þjóðhagsstofnunar, og þótt sérstaklega væri eftir því kallað. Ögmundur Jónasson gerði þátt framsóknarmanna í málinu að umtalsefni og sagði síðan: "Mikið er langlundargeð þitt, Framsókn."