Leikstjóri: Pierre Jolivet. Handrit: Pierre Jolivet og Simon Michael. Aðalhlutverk. Vincent Lindon, François Berléand, Roschdy Zem, Zabou og Catherine Mouchet. 96 mín. Bac Films 1999.

YVAN baslar dag hvern við að halda fyrirtæki sínu á floti; trésmíðaverkstæði sem afi hans stofnaði fyrir heimsstyrjöldina síðari. Þegar kviknar í því kemst Yvan að því að hann er, tryggingarlega séð, í verri málum en hann grunaði og nú þarf hann að redda sér með hjálp allra sem hann þekkir.

Þetta er gamanmynd með alvarlegum undirtón, en ekki meira en svo, grínið og farsinn ráða ferðinni. Plottið sjálft er frekar venjulegt, góði gæinn sem neyðist til að brjóta lög, en það sem gerir myndina heillandi eru persónurnar. Þær eru sérlega raunsæjar og leikararnir meira en smellpassa í hlutverkin sín og eru svo trúverðugir að maður lifir sig auðveldlega inn í þeirra heim þótt maður þekki hann ekkert.

Flestar kómískar aðstæður skapast beint út frá karakter persónanna eða sambandi þeirra á milli og margt kemur skemmtilega á óvart. Sumir útúrdúranna eru skemmtilega súrrealískir. "Hvað var nú þetta?" spyr maður sig en samt eru þeir alltaf innan þessa raunsæja ramma.

Vincent Lindon, sem fer með aðalhlutverkið, er þekktur og vinsæll leikari í Frakklandi og það hreinlega geislar af honum í þessum jarðbundna en jafnt kómíska hlutverki sem Yvan meðaljón. Sama má segja um Francois Berléand í hlutverki Maxime sem leitar rússnesks uppruna síns.

Það er einhver góðlátleg stemmning í þessari mynd, svona létt kæruleysisleg og skemmtileg, sem gerir að hún og hennar ágætu persónur grípa mann strax og halda manni föngnum allan tímann.

Hildur Loftsdóttir