DR. GUNVOR Andersson prófessor heldur opinberan fyrirlestur laugardaginn 7. apríl kl. 14.15 í Lögbergi, stofu 101, í boði félagsráðgjafar við Háskóla Íslands og Endurmenntunarstofnunar HÍ.

DR. GUNVOR Andersson prófessor heldur opinberan fyrirlestur laugardaginn 7. apríl kl. 14.15 í Lögbergi, stofu 101, í boði félagsráðgjafar við Háskóla Íslands og Endurmenntunarstofnunar HÍ. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku og ber yfirskriftina "Child welfare and foster care seen from different perspectives".

Gunvor Andersson er meðal fremstu sérfræðinga á Norðurlöndum á sviði rannsókna á fósturbörnum, segir í fréttatilkynningu. Hún er stödd hér á landi til að halda fyrirlestra fyrir starfsfólk í félagsþjónustu sem stundar þriggja anna nám í barnaverndarstarfi við Endurmenntunarstofnun HÍ.

Gunvor Andersson er prófessor í félagsráðgjöf við Háskólann í Lundi. Hún er höfundur fjölmargra greina og bókakafla og starfaði um árabil sem klínískur sérfræðingur að málefnum barna og fjölskyldna í félagsþjónustu. Hún hefur m.a. stundað langtímarannsóknir á fóstri barna utan heimilis og athugað þau mál frá sjónarhóli barnanna, fósturforeldra, foreldra og starfsmanna. Hún hefur fjallað mikið um nauðsyn þess að skoða barnaverndarmál frá sjónarhóli barnanna sjálfra og um þarfir og réttindi ungra barna sem barnaverndaryfirvöld hafa afskipti af. Í fyrirlestrinum mun prófessor Andersson ræða um fóstur barna og hvernig það hefur birst í rannsóknum hennar frá ólíkum sjónarhólum. Hún leggur sérstaka áherslu á rödd barnsins þar sem m.a. er byggt á umfjöllun í nýrri bók hennar um efnið.

Fyrirlesturinn er opinn öllum sem áhuga hafa á málefninu en hann á einkum erindi við fagfólk, foreldra og aðra sem vilja fylgjast með rannsóknum og nýjustu sjónarmiðum í fósturmálum og barnavernd.