LÍFFRÆÐIFÉLAG Íslands stendur fyrir ráðstefnu laugardaginn 7. apríl um innfluttar tegundir og stofna plantna og dýra. Fjallað verður um efnið á breiðum grundvelli af helstu sérfræðingum landsins á þessu sviði.

LÍFFRÆÐIFÉLAG Íslands stendur fyrir ráðstefnu laugardaginn 7. apríl um innfluttar tegundir og stofna plantna og dýra. Fjallað verður um efnið á breiðum grundvelli af helstu sérfræðingum landsins á þessu sviði. Lögð er áhersla á að bæði fræðileg og hagnýt sjónarmið tengd innflutningi tegunda komi fram, segir í fréttatilkynningu.

Meðal þess sem fjallað verður um eru þarfir atvinnulífsins fyrir innflutning tegunda, áhrif framandi stofna og tegunda á villta stofna dýra og plantna, sjúkdómshætta tengd innflutningi, notkun innfluttra tegunda til líffræðilegrar stjórnunar í gróðurhúsum, og lagaumhverfið hvað þetta varðar hér á landi.

"Í ljósi umræðu undanfarinna missera, t.d. um innflutning fósturvísa og laxa, og breytts lagalegs umhverfis hér á landi telur stjórn Líffræðifélagsins að full þörf sé á ráðstefnu sem þessari og er það von stjórnarinnar að ráðstefnan stuðli að málefnalegri umræðu um þetta mikilvæga mál," segir ennfremur.

Nálgast má dagskrá ráðstefnunnar á vefslóðinni: http://notendur.centrum.is/~biologia/.

Ráðstefnan verður haldin í Norræna húsinu nk. laugardag og hefst stundvíslega kl. 9 og lýkur kl. 18. Aðgöngugjald er 500 kr. og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.