AFTURHVARF er yfirskrift sýningar sem opnuð verður á morgun, laugardag, kl. 15-17, í Listasafni Borgarness. Þar sýnir Hrefna Harðardóttir leirverk sín sem eru innblásin af hugmyndum lettneska mál- og fornleifafræðingsins Mariju Gimbutas (1921-1994) um gyðjudýrkun á forsögulegum tíma og einnig verða til sýnis leirvasar sem nefnast Steinar.
Hrefna Harðardóttir stundaði nám á myndlistarbraut MA og í Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1992-95 og útskrifaðist úr leirlistadeild. Hún hefur sótt námskeið í grafík, ljósmyndun og leirlist í Frakklandi, Ítalíu, Ungverjalandi og Englandi og tekið þátt í mörgum samsýningum en þetta er önnur einkasýning hennar. Hrefna er félagi í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og Samlaginu Listhúsi á Akureyri. Hrefna er búsett á Akureyri.
Listasafn Borgarness er til húsa í Safnahúsi Borgarfjarðar, Bjarnarbraut 4-6, Borgarnesi, og verður sýningin opin á afgreiðslutíma þess, 13-18 alla virka daga og 20-22 á fimmtudagskvöldum. Sýningin stendur til 4. maí.