"ÉG hef haft þetta á þrjóskunni," segir Guðmundur Engilbert Guðmundsson sem reif sig upp úr hjólastól og er nú orðinn þrefaldur Svíþjóðarmeistari í íþróttinni boccia sem er eins konar "kúlukast" og einkum stunduð af fötluðum.
"Það blés ekki byrlega fyrir mér þegar ég fékk æxli við heilann árið 1980 og lamaðist allur vinstra megin með þeim afleiðingum að ég varð fastur í hjólastól. En ég ákvað að gefast ekki upp og úr hjólastólnum fór ég í göngugrind, ýtti henni svo frá mér og gekk við staf um tíma. Nú er ég líka búinn að kasta honum og hleyp um allt á tveimur jafnfljótum eins og ekkert hafi í skorist. En ég verð að fara varlega því þar sem ég missti næstum sjónina á vinstra auga og alveg heyrn á vinstra eyra er jafnvægisskynið ekki upp á það besta. Ég get til dæmis ekki borðað með vinstri hendinni, því ef ég reyni það hitti ég ekki á munninn," segir hann með glettnisglampa í augum enda kemur fljótlega í ljós að hann hefur kímnigáfuna í lagi.
"Ég tapaði aldrei góða skapinu í þessum veikindum og húmorinn hefur hjálpað mér mikið," segir Engilbert en undir því nafni er hann þekktur í Svíþjóð meðal þeirra sem eitthvað þekkja til boccia-íþróttarinnar. "Spaugsemin hefur reyndar líka komið mér í koll og oft hefur litlu munað að ég hafi fengið á kjaftinn þegar ég hef verið að gantast eitthvað og viðkomandi kannski ekki haft húmor fyrir því."
Heillaðist af boccia
Engilbert fæddist á bænum Kálfsholti í Holtum í Rangárvallasýslu 10. janúar árið 1932. Hann flutti ungur til Reykjavíkur þar sem hann ólst upp og stundaði almenna vinnu, meðal annars sem suðumaður í Landssmiðjunni. Árið 1969 vantaði trésmiði og járniðnaðarmenn í skipasmíðastöðina Kocums í Malmø og Engilbert slóst í för með Íslendingum sem réðu sig þar í vinnu. Hann ílentist í Svíþjóð og undi hag sínum vel, en svo kom áfallið. "Ég varð auðvitað að hætta að vinna og var í mörg ár að rífa mig upp úr þessu. En ég vissi að það er hægt að gera ólíklegustu hluti ef viljinn er fyrir hendi og þar sem ég er þrár að eðlisfari fór ég kerfisbundið að þjálfa mig til að ná mér upp aftur og naut þar aðstoðar öryrkjasamtakanna í Svíþjóð sem eru vel skipulögð.Ég stundaði líkamsþjálfun og sund og ég syndi mikið enn mér til ánægju og heilsubótar. Í gegnum öryrkjasamtökin komst ég í kynni við þessa íþrótt, boccia, og heillaðist gjörsamlega af henni. Þetta var upp úr 1990 og í fyrstu gat ég auðvitað ekkert en með þrotlausri þjálfun fór þetta að koma smátt og smátt. Það er nefnilega hægt að þjálfa sig upp í öllum andskotanum. Svo hefur auðvitað mikið að segja að hafa góða meðspilara og góða klúbbfélaga en ég keppi fyrir íþróttaklúbb, sem heitir HIS, þar sem ríkir mjög góður félagsandi."
Engilbert vill ekki gera mikið úr íþróttaafrekum sínum og kveðst "ekkert vilja vera að monta sig af þessu í Mogganum." En Daglegu lífi tókst að verða sér úti um afrekaskrá hans sem er óvenju glæsileg. Í fyrstu keppninni, sem hann tók þátt í 1992, sveitakeppni í skánsku deildinni, varð hann í sjöunda sæti en tveimur árum síðar vann hann gullverðlaun í sömu keppni. Eftir það hefur leiðin legið upp á við og hann hefur unnið gullverðlaun í nánast öllum keppnum sem hann hefur tekið þátt í síðan. Hann hefur verið Svíþjóðarmeistari í boccia undanfarin þrjú ár. "Það er yfirleitt mikið um dýrðir þegar verðlaunaafhendingin fer fram. Mikil veisla, eins konar "gala-dinner", og ekki ósvipað athöfninni í Hollywood þegar Óskarsverðlaunin eru afhent," segir hann glaðbeittur.
Engilbert er nú staddur hér á landi til að vera við fermingu sonarsonar síns. Hann hefur áhuga á að keppa einhvern tíma hér á landi en taldi ólíklegt að úr því yrði að þessu sinni. Hann varð með tímanum sænskur ríkisborgari og kveðst þar með hafa útilokað möguleika sína á að keppa nokkurn tíma fyrir hönd Íslands á alþjóðvettvangi. "Ef ég verð einhvern tíma heimsmeistari verða það því miður Svíar sem hljóta heiðurinn," segir hann og hlær. Hann hefur farið í keppnisferðir um Svíþjóð þvera og endilanga en hefur aldrei keppt í öðru landi. "Ef ég fer einhvern tíma í alþjóðlega keppni vonast ég til að lenda ekki á móti Íslendingum. Það yrði leiðinlegt að þurfa að slá þá út. En sjálfsagt yrði ekki hlaupið að því. Þeir eru orðnir svo góðir."