BERGSTEINN og félagar sinna ekki einungis hugleiðslu á föstudögum á torginu, heldur leggja þeir flestir stund á jóga tvisvar sinnum á dag.

BERGSTEINN og félagar sinna ekki einungis hugleiðslu á föstudögum á torginu, heldur leggja þeir flestir stund á jóga tvisvar sinnum á dag. Sumir þeirra hafa líka tekið upp hjá sjálfum sér að stunda jóga með þurfandi og viljugum, þeim til styrkingar, vinum eða vandalausum.

"Þetta er spurning að bera lotningu fyrir öllu í umhverfinu. Að elska og virða allt eins og sjálfan mann. Hugleiðsla kveikir í manni þörf til þess að þjóna sköpunarverkinu og ef manni tekst að koma sér upp slíku viðhorfi verður meira flæði í daglegu lífi," segir Bergsteinn og bætir við: "Það hljómar kannski eins og gömul tugga, en fólk hefur misst dálítið samband við sjálft sig. Hugleiðsla snýst um að uppgötva hið sanna sjálf. Hún er brúin milli hins endanlega og óendanlega, milli einstaklingsins og takmarks hans."

Hann vill þó ekki mikið tala um þá hjálp sem hann og félagarnir leitast við að veita öðrum á einkasviðinu, þegar torgaðgerðunum sleppir.

"Ef þú hugleiðir án þess að gefa af þér, verður hugleiðslan þurr. Ef þú gefur af þér án þess að hugleiða, verðurðu montinn," er það eina sem hann vill láta eftir sér hafa.

Hann viðurkennir að hin andlega rækt taki tíma en félagarnir reyni sitt besta til að samræma hana daglegu amstri, námi og félagslífi. Þeir taki þátt í venjulegu lífi af krafti enda séu þeir engir einsetumenn. En finnst fólki þeir ekkert haga sér undarlega, hlammandi sér á torg og teppi út og suður?

"Nei, vinum okkar og vandamönnum þykir við ekkert skrýtnir," svarar Bergsteinn um hæl. "Við erum flestir nefnilega löngu búnir að finna okkur flöt á að fá að vera "öðruvísi", með því að reynda ævinlega að vera samkvæmir sjálfum okkur. Og það tekst alltaf betur og betur."