FLUGUVEIÐAR Bókmenntir Sigurjón Björnsson Kristján Gíslason: Af fiskum og flugum. Veiðisaga og vangaveltur. Forlagið. Reykjavík, 1990. 199 bls. Um alllangt árabil hef ég haft smálegt gaman af því að dýfa stöng í vatn og renna fyrir fisk.

FLUGUVEIÐAR Bókmenntir Sigurjón Björnsson Kristján Gíslason: Af fiskum og flugum. Veiðisaga og vangaveltur. Forlagið. Reykjavík, 1990. 199 bls. Um alllangt árabil hef ég haft smálegt gaman af því að dýfa stöng í vatn og renna fyrir fisk. Lítið hef ég þó sótt heim hinar frægari veiðiár enda ekki líklegur til að gera þar stóra lukku. Svo er nefnilega mál vaxið að ég hef hingað til haldið mig við blessaðan maðkinn og það þykir ekki par fínt. Einu sinni var ég að reyna við fluguna. Fór meira að segja á kastnámskeið marga sunnudagsmorgna og keypti mér stöng og tilheyrandi. En það var eins og þessháttar passaði mér ekki. Flugan átti það til að lenda í kjarrbrúskum eða blómaskrúði langt að baki mér eða jafnvel á enn verri stöðum. Lífsins ómögulegt var mér að muna nöfnin á öllum þessum fínu flugum og ennþá verra var að sortera þær eftir stærðum og gerðum og halda þeim réttilega til haga. Þá fóru þessar sífelldu klippingar og skiptingar alveg óskaplega í taugarnar á mér.

Framangreind játning segir varla annað en það að ég er ekki rétti maðurinn til að skrifa um fluguveiði bók. Og ég veit ekki hvers vegna í fjáranum ég tók það að mér. Líklegast af forvitni. Mig langaði til að lesa bókina. Og forvitnileg reyndist hún.

Höfundur tekur sér fyrir hendur að ljúka upp fyrir frænda sínum leyndardómum veiðilistarinnar. Þessi frændi er bersýnilega ungur og fákunnandi, en höfundur margreyndur veiðijaxl. Ekki hafði ég lengi lesið þegar ég fór að óska þess að ég hefði fengið þessa bók í hendur fyrir svo sem þrjátíu árum. Kannski hefði þá farið öðru vísi! Höfundur hefur marga góða kosti til þess að vera góður leiðbeinandi. Hann er með ágætum pennafær. Skrifar léttan og lipran stíl. Gamansamur er hann og frásögn hans fjörleg. Þá er ekki minna um vert að hann er ekki einungis mikill veiðimaður heldur einnig mikill náttúruunnandi. Náttúrulýsingar hans sumar eru með ágætum. Nú vita allir að veiðimenn eru ákaflega mismunandi. Þó að þessi sé vafalaust metnaðarfullur og kapp samur er hann jafnframt mjög kurteis veiðimaður. Hann ber virðingu fyrir laxinum. Honum fer líkt og drenglyndum glímukappa, sem keppir fast, en beitir aldrei bolabrögðum og lætur sig ekki muna um að taka í hendina á andstæðingnum þó að hann hafi tapað. Sem sagt: frændinn fær hér góða leiðsögn. Höfundur lætur hann fylgja sér frá fyrstu fálmandi tilraunum (og maðkveiðum!) uns hann er orðinn "fullnuma" flugu meistari og snjall flugugerðarmaður. Allt er þetta kryddað veiðisögum frá ýmsum tímum og fræðilegum hugleiðingum um eðli og hætti laxins, smekk hans fyrir agn, áhrif vatnsins og dýrð náttúrunnar. Áður en ég vissi af var ég kominn út í miðja á og farinn að þreifa mig áfram. Mér fannst einhvern veginn að nú hlyti þetta að ganga betur!

Frændinn fékk þarna mikla lexíu. Raunar skal ég viðurkenna að þegar leið á bókina þótti mér skólinn þyngjast ískyggilega og sérfræðin verða mér ofviða. Hvenær átti að nota flotlínu, hálfsökkvandi eða hraðsökk vandi línu? Hvað átti nú að hnýta á? Númer 2, 6 eða 8? Átti ég að nota hárflugu eða aðra gerð? Kannski pípuflugu? Og hvaða tegund hentaði nú best af öllum þeim aragrúa sem um var að ræða. Svoað ég tali nú ekki um þegar kom að hnýtingunum!

En svo að ég endurtaki: Ef ég hefði verið 30 árum yngri hefði ég að líkindum byrjað að veiða út frá því sem ég skildi í textanum. Síðan hefði ég lesið aftur og aftur og aftur. Ég gæti best trúað því að það hefði tekist. Hið sama ráðlegg ég "frændanum" ef honum hættir tilað missa móðinn.

Það verður enginn svikinn af leiðsögn Kristjáns Gíslasonar. Ungir veiðimenn ættu að laumast í þessa bók, lesa hana vandlega og hugleiða og bera reynslu sína eða reynsluleysi saman við það sem þar stendur. Ég hygg að þeir hefji þá veiðiskapinn næsta sumar með fleiri spurningum, meiri eftirvæntingu og kannski eilítið meiri þolinmæði, í þeirri trú að sjaldan fellur tré við fyrsta högg.

Kristján Gíslason