FRAMLEIÐSLA á svokölluðum rafeinda-pappír hefur færzt skrefi nær því að verða að veruleika með því að tilraunagerð af ofurþunnum, sveigjanlegum rafeindaskjá hefur litið dagsins ljós.
FRAMLEIÐSLA á svokölluðum rafeinda-pappír hefur færzt skrefi nær því að verða að veruleika með því að tilraunagerð af ofurþunnum, sveigjanlegum rafeindaskjá hefur litið dagsins ljós.

Upplausn þessarar tilrauna-skjáþynnu er aðeins nokkur hundruð pixel, en að sögn uppfinningamanna hennar sýnir tilraunagerðin að það er tæknilega mögulegt að smíða ódýra, þunna hágæðarafeindaskjái.

Markmiðið með þessum svokallaða rafeindapappír er að hægt sé að birta rafrænan texta á þunnum, sveigjanlegum örkum sem eru líkastar pappír að útliti og í snertingu. Hugmyndin er að arkirnar verði bundnar saman í eins konar bók eða hefti, og hægt væri að hlaða inn á hana/það efni (texta, myndum o.s.frv.) með þráðlausum gagnaflutningi.

"Fyrir þessu er í raun engin grundvallartæknihindrun. Allt sem til þarf er þegar til," hefur BBC News Online eftir John Rogers, talsmanni Bells Labs í Bandaríkjunum. Starfsmenn Bell Labs og E-Ink Corporation hafa birt myndir af tilraunaskjáþynnum þessum. Þær geta geymt þau gögn sem hlaðið er inn á þær í nokkra mánuði, en þær ganga fyrir straumi frá örlitlum rafhlöðum, eftir því sem uppfinningamennirnir greina frá í bandaríska vísindatímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences.

Prentað á plastþynnur

Lykilframfarirnar sem sagðar eru felast í þessari nýju tilraunagerð "rafeindapappírs" er að hún er búin til með tækni sem kölluð er örleiðaraprentun. Þessi aðferð, sem líkist stimplun, þýðir að ekki er nauðsynlegt að framleiðslan fari fram í dauðhreinsuðu andrúmslofti eins og þarf við framleiðslu flestra rafeindaíhluta nútímans.

Einingar rafeindaskjásins eru stimplaðar á sveigjanlega plastþynnu sem er undir einum millimetra að þykkt. Og uppfinningamennirnir eru vongóðir um að þeir geti þróað þetta áfram þannig að upplausnin aukist nógu mikið til að þynnurnar gagnist eins og hugmyndin er að nýta "rafeindapappír". Hugsanlegt væri að heil dagblöð yrðu gefin út á rafeindapappírsformi.