6. júní 2001 | Fasteignablað | 1109 orð | 3 myndir

Elzta hús Reykjavíkur

Aðalstræti 10. Margir þjóðþekktir Íslendingar bjuggu í þessu húsi á sínum tíma. Nú er húsið alfriðað, en þar er rekinn veitingastaðurinn Fógetinn.
Aðalstræti 10. Margir þjóðþekktir Íslendingar bjuggu í þessu húsi á sínum tíma. Nú er húsið alfriðað, en þar er rekinn veitingastaðurinn Fógetinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aðalstræti 10 skipar mikilvægan sess í sögu lands og þjóðar. Freyja Jónsdóttir greinir hér frá sögu hússins en það er eina húsið sem varðveist hefur af byggingum Innréttinganna.
ÁRIÐ 1752 eftirlét Danakonungur jarðirnar Örfirisey og Reykjavík ásamt 10.000 ríkisdölum án endurgjalds í því augnamiði að koma upp iðnaði á Íslandi. Auk þess lét konungur af hendi á sama hátt jörðina Hvaleyri við Hafnarfjörð.

Skúli Magnússon var þá í Danmörku og vann að því að koma upp verksmiðjubæ í Reykjavík. Skúli ásamt tólf íslenskum embættismönnum stofnaði fyrsta hlutafélagið á Íslandi. Það var upphaf Innréttinganna.

Tvö hús við Hovedgaden

Um vorið kom skip til landsins með byggingarefni og kom Skúli sjálfur til að fylgjast með framkvæmdum. Talið er að það sumar hafi verið byggð tvö hús við Hovedgaden eins og gatan var þá nefnd en þá hefur hún varla verið meira en troðningur.

Síðan breyttist heiti götunnar í Adelgaten, síðan Klúbbgaten og árið 1848 Aðalstræti sem er núverandi heiti götunnar. Húsið Aðalstræti 10 var reist fyrir íbúð handa verksmiðjustjóranum og í húsinu var einnig geymsla fyrir Innréttingarnar. Austan við götuna var reist hús handa forstjóra Innréttinganna en það hús er löngu horfið.

Í sumum heimildum um Aðalstræti 10 er talið að þar hafi verið reist hús um 1752, en það hafi orðið eldi að bráð þegar nokkur hús Innréttinganna brunnu í marsmánuði 1764. Þá hafi núverandi hús verið reist á grunni þess. Aðrar heimildir herma að húsið Aðalstræti 10 hafi verið byggt 1762-63 og þar hafi ekki verið byggt áður.

Þegar farið var að selja eignir Innréttinganna keypti húsið Westy Petræus kaupmaður en hann var umsvifamikill framkvæmdamaður. Um tíma var húsið nefnt Petræushús. Árið 1807 fékk Geir Vídalín biskup húsið en því fylgdi fjós og tveir kálgarðar.

Geir bjó fyrstur biskupa í Reykjavík. Hann hafði búið á Lambastöðum á Seltjarnarnesi eftir að hann varð dómkirkjuprestur og í sex ár eftir að hann varð biskup árið 1801. Eftir að biskupinn tók að búa í húsinu var það nefnt Biskupsstofan.

Mannmargt heimili

Heimili biskups var mannmargt og voru þar oft til heimilis um þrjátíu manns. Geir Vídalín var gestrisinn og bóngóður maður sem án efa hefur átt þátt sinn í að biskup varð gjaldþrota. Þá var komið á nefnd sem sá um fjármál hans en sagt var að honum hefði fallið það illa því naumt mun hafa verið skammtað.

Geir Vídalín lést úr lungnabólgu 20. september 1823. Varð biskup innkulsa þegar hann var að horfa á marsvínavöðu rekna í land í fjörunni undan Hlíðarhúsum. Jarðarför biskups var viðhafnarmikil og kistan gerð úr heilum plönkum og mjög þung. Embættismenn og stúdentar báru biskup til grafar.

Ekkja Geirs Vídalíns, Sigríður Halldórsdóttir Vídalín, bjó áfram í húsinu til dauðadags. Hún lést árið 1846. Á heimili biskupshjónanna bjó Sigurður Pétursson sýslumaður og þar lést hann árið 1827. Hann var með fyrstu leikritaskáldum þjóðarinnar.

Húsinu hafði lítið verið haldið við og má telja mestu mildi að það var ekki rifið eftir lát biskupsekkjunnar. En húsnæðisskortur hefur löngum loðað við Reykjavík og er ekki ósennilegt að það hafi bjargað húsinu frá niðurrifi. M. Smith konsúl vantaði húsnæði og keypti hann húsið og bjó þar í nokkur ár, líklega þar til Jens Sigurðsson rektor, bróðir Jóns Sigurðssonar forseta, fór að búa þar.

Jón Sigurðsson og Ingibjörg kona hans höfðu aðsetur hjá honum í tveimur herbergjum hússins þegar þau komu til landsins vegna embættisstarfa Jóns.

Jón Hjaltalín landlæknir var í húsinu um tíma. Kristjana Jónassen systir Geirs Zoëga bjó í húsinu og rak þar matsölu. Árið 1873 keypti Matthías Johannessen faktor húsið og bjó þar í nokkur ár. Hann byggði síðan íbúðarhús á syðri hluta lóðarinnar og flutti þangað með fjölskyldu sína. Í virðingu sem gerð var á húsinu 1874 er sagt að það sé borðaklætt að utan, með hellum á þaki. Ekki er getið um með hverju hliðar hússins séu klæddar.

Sölubúð innréttuð

Í virðingu frá árinu 1889 segir að Matthías Johannessen hafi lítið breytt húsi sínu nema að innrétta í því sölubúð. Ennfremur segir að grunnflötur hússins sé 201/4 álnir á lengd og 111/2 alin á breidd. Húsið er byggt úr bindingi múruðum með múrsteini og holtagrjóti í grind og með helluþaki.

Niðri í húsinu eru þrjú íbúðarherbergi og eldhús. Tvö herbergin eru þiljuð og máluð og með veggtjöldum og tvöföldum loftum, en eitt herbergið er óþiljað en kalkað. Sölubúðin er þiljuð og með veggjapappa, máluð á þrjá vegu. Þar eru nokkrir búðarskápar og í eldhúsi er eldavél.

Uppi á lofti eru þrjú íbúðarherbergi, tvö þeirra eru þiljuð og máluð, en þriðja herbergið er sumpart þiljað og málað en með veggtjöldum á þeim veggjum sem ekki eru málaðir. Uppi eru tveir ofnar. Þá er getið um að gluggar á götuhlið í verslunarrýminu hafi einnig verið stækkaðir.

Helgi Zoëga keypti húsið árið 1894 og verslaði þar í mörg ár. Árið 1926 urðu Silli & Valdi eigendur að Aðalstræti 10 og versluðu þar í áratugi. Heilar rúður voru settar í gluggana á framhlið hússins árið 1927. Árið 1933 var byggður skúr úr holsteini á lóðinni fyrir rafmagnskaffibrennsluvél, og settu þeir á stofn kaffibrennslu í honum. Í bréfi sem Silli & Valdi rituðu byggingarfulltrúa er tekið fram að ekki verði brennt meira í einu af kaffi en þrjú kíló og telja þeir fullvíst að af því ætti ekki að stafa nein eldhætta. Ennfremur segir í bréfinu að í Englandi sé mikið um svona kaffibrennsluvélar.

Helluþak og járnklæðning

Árið 1942 var helluþak á húsinu, norðurgafl og vesturhlið járnklætt en austurhlið og suðurgafl klætt með borðum. Á hæðinni var sölubúð með hillum og afgreiðsluborð með skúffum. Þar voru einnig tvö skrifstofuherbergi. Í risi eru fjögur geymsluherbergi, þiljuð og máluð. Vestan við húsið var stór geymsluskúr, byggður úr bindingi og með járnlögðu skáþaki á langböndum. Annar geymsluskúr, byggður eins, var á lóðinni. Einnig þriðji skúrinn með skáþaki byggður eins.

Í einum af þessum skúrum var um tíma fiskbúð sem Silli & Valdi ráku og var skúrinn við Bröttugötu. Í fjórða skúrnum var kaffibrennsluvélin. Skúrarnir voru byggðir á lóðamörkunum og mynduðu eins konar húsagarð.

Árið 1964 voru allir skúrarnir rifnir og byggð tveggja hæða viðbygging vestan við húsið. Viðbyggingin er mikið lýti á húsinu sem vonandi verður fjarlægð og húsið fært sem næst sínu upphaflega útliti.

Í kringum 1984 voru settir póstar og sprossar í glugga á götuhlið sem voru með heilum rúðum. Útlit hússins breyttist mjög til batnaðar við þetta. Um svipað leyti var skipt um útidyrahurðir hússins. Húsið er mikilvægur þáttur í sögu Reykjavíkur en í gegnum tíðina hefur því verið breytt fullmikið. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að húsið verði gert upp sem næst í sinni upphaflegu mynd. En til þess að endurgera húsið þarf að rannsaka það vandlega og gera af því uppmælingar. Að því verki þurfa að koma sérhæfðir arkitektar. Húsið er alfriðað og þar er nú rekinn veitingastaður.

Heimildir eru frá húsadeild Árbæjarsafns, Kaupstaður í hálfa

öld, þegar Reykjavík var fjórtán vetra, B-skjöl og brunavirð-

ingar.

Höfundur er sjálfstætt starfandi blaðamaður.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.